Loading

MAMMA, AF HVERJU ERTU VEIK?

Þegar maður er fjögurra ára er ýmislegt sem varðar lífið ofan skilningi manns. Þegar ég var lítil, eilítið eldri en dóttir mín er núna, var mamma mín á spítala í lengri tíma. Að heimsækja hana varð hluti af eðlilegri rútínu og spítalinn var ekki bákn hins óskiljanlega og ósanngjarna, heldur meira pláss fyrir mömmu til að hvíla sig í mínum huga. Hjúkkurnar voru indælar og ávallt var mér tekið opnum örmum, en ég man ekki sérstaklega eftir því að ég hafi skilið hvað var að gerast. Það var ekki fyrr en ég komst á fullorðinsár sem ég skildi að mamma hafði verið með meðgöngueitrun og hætt komin vegna nýrnabilunar. Mér fannst bara eðlilegt að fara á spító í smá heimsókn.

Sagan endurtekur sig oft.

Ég greindist með sjúkdóm fyrir tæplega einu og hálfu ári síðan. Nú skulum við bara vera alveg heiðarleg – þetta er sennilega minnst sexí sjúkdómur í sögunni. Hann heitir sáraristilbólga, oft kallaður UC, og er krónískur. Ég þarf því að vera á lyfjum það sem eftir er af minni ævi og mögulega gæti ég staðið frammi fyrir því að þurfa að láta fjarlægja úr mér ristilinn. Við erum einhver hundruð sem lifum með þessum sjúkdómi hér á landi og einhver hundruð í viðbót sem eiga við stóra bróður UC, Chron‘s.
Ég var hætt komin á spítala þegar dóttir mín var þriggja ára. Hún sá móður sína minnka með hverjum deginum, liggja og stara tómum augum á hvíta veggi með skítugt hár og tengd við alls konar vélar og slöngur og ekki með nógu mikla orku til að knúsa barnið sitt í meira en svona hálftíma í einu. Suma daga komst mamma litla ekki einu sinni fram úr rúminu.

Þessi tími er nokkuð móðukenndur í minningunni, svona svipað og sá tími sem mamma mín var á spítala er móðukenndur og minnigarbrotin óðum að hverfa. En ég fæ oft flashback. Ég er kannski að bursta tennurnar og man eftir lyktinni á spítalanum. Ég stend kannski í sturtu og man eftir því þegar það leið næstum því yfir mig; þegar ég gat ekki staðið í fæturna sem höfðu rýrnað svo mikið að það var eins og ekkert héldi mér uppi nema minningin um hvernig það væri að standa. Þegar ég var með svo þaninn ristil að maginn á mér leit út eins og ég væri ólétt að tvíburum og skurðlæknarnir komu inn til mín tvisvar á dag, en ég skildi ekki merkingu þess fyrr en eftir á. Þegar ég gekk, lítið stelpuskott, eftir dúkalögðum ganginum á lansanum og sá svo sama gólfið svo vikum skipti þegar ég lá sjálf inni. Þegar ég fékk næringu í æð og sveið í handarbakið. Þegar ég fékk bláæðalegg og þurfti að fá róandi inni á skurðstofu því lífsreynslan var að verða mér um megn. Þegar það var myrkur og ég, lítið stelpuskott, gat ekki sofnað en mamma var ekki hjá mér til að hughreysta mig því hún var í hinu húsinu sínu. Þegar ég fékk loksins mátt aftur um það leyti þegar líkaminn gat byrjað að taka við næringu. Þegar ég gat gengið upp tröppur aftur. Þegar ég gat keyrt bíl. Þegar ég gat borðað fasta fæðu. Þegar ég gat haldið á dóttur minni í fyrsta sinn í margar vikur.

Ef mínar minningar frá fullorðinsárum koma í brotum get ég leyft mér að vona að dóttir mín muni ekki nema brotabrot af veru móður sinnar á spítala. Hins vegar var tímabil þar sem það mátti ekki minnast á spítala –þá var hún komin í fangið á mér eins og skot og mátti ekki sjá af mér.
Ég lifi þó samkvæmt þeirri heimspeki að það sé ekkert endilega verra fyrir hana að vita og þekkja það að heilsan er ekki sjálfgefin þó að ég vilji auðvitað vernda þetta ótrúlega sakleysi og gera tilveru hennar eins hamingjuríka og hægt er. Þegar ég þarf að fara upp á Landspítala til að fá lyfin sem halda sjúkdómnum í skefjum segi ég henni það. Þegar ég er slöpp vegna veikindanna eða lyfjanna segi ég henni það. Þegar ég svo greindist með einhvers konar bólguviðbrögð í liðum út frá sáraristilbólgunni í sumar og gat ekki gengið eða notað hendurnar almennilega sagði ég henni að mamma væri pínu veik en það myndi lagast þegar ég fengi meðalið. Þá spurði sú sutta, tæpu ári eftir spítalavistina:

„Mamma, afhverju ertu veik? Þarftu nokkuð að fara aftur á spítalann?“

Jú, mamma gæti þurft að fara aftur á spítalann. Sem betur fer er hann til og þar vinnur fólk sem vinnur líklega eitt vanþakklátasta starf á landinu okkar. Þrátt fyrir það get ég gengið út frá því að mæta stórkostlegu og jákvæðu viðmóti í hvert sinn sem ég fer á dagdeildina til að fara í lyfjagjöf. Þar vinnur fólk sem hefur ótrúlega reynslu og ástríðu fyrir starfinu og í allri minni sjálfselsku vona ég að „mínar“ hjúkkur séu ekki meðal þeirra sem hafa sagt starfi sínu lausu, því þær gera lyfjagjöfina bærilega. Rétt eins og ég reyni að gera dóttur minni sannleikann bærilegri með því að reyna mitt besta til að vera glöð og eiga með henni tíma.
Afhverju er ég veik? Ég á engin svör við því – þetta er bara höndin sem mér var gefin. En ég fékk þó að minnsta kosti að spila með.

– – –
Edda er menntaður margmiðlunarhönnuður og með BA í ensku. Hún hefur samt áhuga á öllu og vinnur því sem markaðsfulltrúi hjá ráðgjafafyrirtæki, syngur í kór, skrifar í tíma og ótíma og ferðast eins og hún getur.
Edda á eitt barn, einn mann og eina íbúð, en tvo króníska sjúkdóma sem krydda óneitanlega tilveruna og hún hefur lært heilmikið af því að lifa með veikindum og stýra heiminum í leiðinni.
Netfangið hennar er edda.kentish@gmail.com.

X