Loading

MAMMA HVERNIG TEIKNA ÉG PJÖLLU?

Dóttir mín spurði mig að þessu í morgun. Einlægnin skein af henni og ég fór í kerfi.

„Ha? Hvað meinarðu? Af hverju viltu teikna pjöllu?”

„Af því hún er í kjól og mig langar að teikna pjöllu”.

Og ég svara, neinei þú þarft ekkert að teikna pjöllu á hana, hún er bara fín eins og hún er.

Litla daman var ekki par hrifinn af þessu svari og hálfpartinn urraði á mig til baka,

„þá verð ég bara að teikna á hana typpi.”

Svo er þetta búið að sitja í mér í allan dag. Af hverju brást ég svona við? Af hverju sýndi ég henni ekki hvernig hún á að teikna pjöllu? Af hverju er eitthvað slæmt að teikna pjöllu?

Ég þykist vera voða nútímaleg mamma með allt svona á hreinu. Fór í gegnum það hvernig börnin verða til og hvernig þau fæðast þegar von var á litlu systur. Eigum ágætis bók sem útskyrir gang lífsins á nokkuð penan máta án þess að skilja neitt eftir. Þó svo að orðavalið í þeirri bók hafi alltaf truflað mig alveg rosalega þar sem er notast við orðið „rifa” í staðinn fyrir pjalla eða píka. Ég kýs að tala um pjöllur við stelpurnar mínar einfaldlega vegna þess að píka er eitthvað svo brútal. Það er meira svona fullorðins…en hvað um það..

Viðbrögðin mín í morgun eru búin að trufla mig ansi mikið. Það sem fór í gegnum hugann var að hún væri nú allt of ung fyrir svona pælingar en svo áttaði ég mig á því að hún kann að teikna typpi! Og fyrst hún veit hvað typpi er og hún veit hvað pjalla er af hverju ætti ég þá að koma í veg fyrir það að hún teikni pjöllur?

Er þetta ekki liður í að jafna mun kynjanna strax frá barnsaldri? Losa sig við tepruskapinn og setja pjöllur og typpi á sama borð?
Nú er ég enginn sérfræðingur og er að díla við 4 ára dramadrottningar í fyrsta skipti. En hvenær gerum við okkur grein fyrir að við séum kynverur? Hvenær vaknar kynvitundin?

Þægilegast væri bara að sópa öllum svona þankagangi undir teppið og færast undan í hvert skipti sem óþægilegar spurningar eru bornar fyrir mann. En sem foreldri ber maður ábyrgð á því að börnin þekki muninn á eðlilegri vs. óeðlilegri hegðun. Og það að vilja kunna að teikna pjöllu eins og maður kann að teikna typpi er bara nokkuð eðlilegt í mínum huga. Er þetta ekki akkúrat það sem er verið að hamra á við foreldra til þess að geta verið vakandi fyrir kynferðisofbeldi gagnvart börnunum okkar?

Nú eða þegar kemur að þeim hræðilega degi þegar maður kemst að því að barnið manns er farið að hugsa um kynlíf. Er þá ekki betra að sitja við sama borð og ræða ábyrga kynhegðun við barnið? Getnaðarvarnir, varnir gegn kynsjúkdómum, mikilvægi þess að stunda kynlíf með einhverjum sem maður þekkir, treystir og elskar?

Við þekkjum þetta öll, um leið og eitthvað er tabú er það orðið spennandi, æsandi. En ef að við tölum um kynlíf og okkur sem kynverur á eðlilegan og afslappaðan hátt þá hætir þetta að vera jafn spennandi og hvetur frekar til ábyrgrar kynhegðunar. Ég tel allavega að svo sé.

Það er allavega alveg á hreinu að ég þarf að fara að gúggla vagínu teikningar sem eiga ekkert skylt við klám til þess að geta nú tekið næstu pjöllu lotu með trompi!! Allar ábendingar eru vel þegnar.

– –

Ég heiti Birgitta og er 24 ára gömul . Ég er mamma þeirra Heklu Berglindar og Kötlu Bryndísar sem eru fæddar þann merka dag 5.september.2007 og hennar Öskju Bjargeyjar sem er fædd á ekki minna merkilegum degi, 5.maí.2011.
Ég hef ákveðið að deila reynslu minni af móðurhlutverkinu, sigrunum og sorgunum. Hvernig það er að takast á við þann raunveruleika að eiga fullkomlega heilbrigt en þó langveikt barn. Svo bara hið daglega amstur sem getur verið alveg ákaflega krefjandi!

X