Loading

MAMMA MÍN ER BESTA KONA Í HEIMI

Mamma mín er besta kona í heimi. Hún er hetjan min og fyrirmynd. Hún er sú fallegasta, klárasta og duglegsta kona sem ég þekki.

Sextán ára gömul fæddi hún mig í þennan heim. Ég er henni svo þakklát á ótalmarga vegu. Hún er mín stoð og stytta, kletturinn minn.

Ég var ekki auðvelt barn að ala upp. Sögurnar eru margar og eru oft rifjaðar upp af þeim sem hafa fylgt mér í gegnum tíðina. Ég var kölluð litla búkonan því ég hafði alltaf svo mikið að gera. Einhvern tímann heyrði ég þá lýsingu að ég hefði verið „skemmtilega óþekk” sem barn.
Fjögur yngri systkini hefur mamma mín gefið mér og stóran hluta af uppvaxtarárum mínum stóð hún vaktina bæði sem móðir og faðir og gerði það með glæsibrag.
Alltaf hvatti hún mig áfram og studdi mig í hverju því sem ég tók mér fyrir hendur.

Í gegnum tíðina eru alveg nokkur augnablik sem standa upp úr.
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er nóttin fyrir ferminguna mína. Við mamma vöktum nærri alla nóttina og spjölluðum alveg heilmikið saman. Það var bæði hlegið og grátið og þetta var svo sannarlega stund sem gerði okkur nánari. Ótrúlega dýrmæt minning sem mun ávallt lifa með mér.

Þegar ég var ólétt af tvíburadætrum mínum var mamma mín stoð og stytta í öllu því sem gekk á -ég mun koma að því seinna… Og svo stóð hún mér við hlið þegar fæðingin gekk í garð. Það er ekki til sú sála á jörðinni sem hefði verið betri í verkið.

Aftur var hún til staðar þegar ég gekk með yngstu dóttur mína, en á hliðarlínunni þó þar sem hún er búsett erlendis. Það var mikið hlegið þegar ég mætti á Hreiðrið á leið í fæðingu með kærastann og móðurömmu mér til halds og traust -og fartölvuna þar sem mamma var „viðstödd” í gegnum skype!

Að ganga með barn og að hafa mömmu sína sér til halds og trausts er reynsla sem allar konur ættu skilið að fá að upplifa. Maður tengist móður sinni alveg á nýjan og betri hátt. Og fyrst þá verður manni raunverulega ljóst hversu sérstök mamma er.

Mamma, ég elska þig og takk fyrir allt.

-Birgitta

– –

Ég heiti Birgitta og er 24 ára gömul . Ég er mamma þeirra Heklu Berglindar og Kötlu Bryndísar sem eru fæddar þann merka dag 5.september.2007 og hennar Öskju Bjargeyjar sem er fædd á ekki minna merkilegum degi, 5.maí.2011.
Ég hef ákveðið að deila reynslu minni af móðurhlutverkinu, sigrunum og sorgunum. Hvernig það er að takast á við þann raunveruleika að eiga fullkomlega heilbrigt en þó langveikt barn. Svo bara hið daglega amstur sem getur verið alveg ákaflega krefjandi!

Ljósmynd: iStock

X