Loading

„Mamma, það voru sjómenn sem drápu Birnu”

Þessi orð sagði sex ára dóttir mín við mig í bílnum í morgun þegar við vorum á leiðinni í skólann. Ég á eiginlega erfitt með að skrifa þau hér enda allur þessi harmleikur svo hryllilegur að ég brest eiginlega bara í grát við tilhugsunina eina saman.

En þennan atburð verður að ræða við börnin og það sem fyrst. Mín börn eru búin að vera meðvituð um málið nánast frá upphafi og hafa reglulega spurt krefjandi spurninga. Spurninga sem ég er ekki tilbúin að svara því mér finnst að börnin eigi helst ekkert að vita af öllu því slæma sem til er í heiminum. En það er ekki í boði. Hlutina verður að ræða og það er hlutverk foreldra að ræða þá við börnin sín. Þau vita nefnilega milku meira en maður gerir sér grein fyrir og auðvitað hafa þau fylgst með okkur fullorðna fólkinu hvíslandi í hálfum hljóðum alvarleg á svip, stillandi útvarpið til að missa ekki af einum einasta fréttatíma eða athugandi fréttir á netinu með reglulegu millibili.

Og maður má ekki skorast undan ábyrgð. Skelfilegt voðaverk var framið og staðreyndin sem blasir við er að við erum aldrei örugg… sama hvað við héldum. En þetta er líka vandrataður millivegur og það má ekki ala á ótta heldur.

Og það má alls ekki ala á hatri og fordómum.

Og alveg eins og við fullorðna fólkið þurfum svör þá þurfa börnin okkar þau líka…

Því megum við ekki gleyma börnunum. Þau eru líka harmi slegin.

– – –

KrakkaRÚV fjallaði einnig um málið og gerði því vel skil. Við mælum með að þið horfið á þennan fréttatíma með börnunum ykkar því þó hann geri málinu vel skil þá vakna eflaust margar spurningar í kjölfarið.

Krakkafréttir er hægt að nálgast hér.

– – –

Höfundur: Þóra Sigurðardóttir

X