Loading

MAMMA VEIT BEST

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, dagskrárgerðarkona í Íslandi í dag, nýtur þess vafasama titils að vera Foreldri vikunnar hjá okkur. Sigrún er jafnframt nýkomin úr viðamikilli reisu um Asíu þar sem hún skoðaði perlur Asíu í góðra vina hópi. Með í för var að sjálfsögðu einkasonurinn Orri sem að þykir fæddur ferðalangur. Við lögðum nokkrar laufléttar spurningar fyrir Sigrúnu og fengum að skyggnast inn í veröld hennar.

Hvað finnst þér yndislegast við foreldrahlutverkið?
Það er svo margt! Slefkoss og mjúkir handleggir um hálsinn geta dimmu í dagsljós breytt. Það er líka svo gaman að upplifa einlæga gleði barna yfir einföldustu hlutum eins og snjókomu eða ferð í sund.

Hvað finnst þér erfiðast við foreldrahlutverkið – eða mesta áskorunin?
Ég sakna þess mest að fá ekki að borða í ró og næði. Takmarkaður svefn getur líka gert mann vitlausan. Mesta áskorunin er þó líklega að sætta sig við að það er ómögulegt að vera 100% móðir, starfskraftur, maki, húsmóðir, vinkona og allt hitt. Ég hef þurft að læra að forgangsraða upp á nýtt, gera mitt besta og vera svo mátulega kærulaus gagnvart því sem hefði getað verið betra (helst eru það húsverkin sem sitja á hakanum).

Hefur barnið þitt kennt þér eitthvað?
Að lífið þarf ekki að vera flókið. Ef maður er saddur, ágætlega sofinn og sæmilega hlýtt er full ástæða til að vera ánægður með það.

Mesta klúðrið…
Ég hef oft miklað hlutina fyrir mér fyrirfram hvað uppeldið varðar. Til dæmis eyddi ég góðum tíma í að kvíða því að setja drenginn í sérherbergi. Sá fyrir mér hvað hann yrði einmana og hræddur og dró það í lengstu lög. Svo kom í ljós að hann saknaði foreldranna nákvæmlega ekki neitt og fór að sofa allar nætur. En blessuð vertu, ég hef örugglega klúðrað öllu mögulegu. Er bara samviskusamlega búin að gleyma því.

Besta ráðið sem einhver gaf þér – sem þú myndir vilja deila með öðrum foreldrum?
Bókin hans Húgós, Hlustum á börnin okkar, er uppfull af ráðum og gullkornum. Ég er til dæmis farin að temja mér að spyrja börn frekar hvað þau gáfu í jólagjöf heldur en hvað þau fengu. Svona litlir hlutir geta skipt svo miklu máli og stundum gleymir maður að spá í hvaða skilaboð maður sendir börnum með einföldustu spurningum.
En minn er ekki enn farinn að gefa jólagjafir svo hvað uppeldið á honum varðar hefur mér fundist besta ráðið að fylgja minni eigin sannfæringu. Maður fær svo mörg og misvísandi ráð að stundum veit maður varla í hvorn fótinn maður á að stíga. Þá er gott að treysta bara sjálfum sér. Mamma veit oft best.

Myndir: Edit.is

 

X