Loading

MEÐ TVÖ BÖRN Í BÚÐ!

Það mætti stundum halda að búðir á Íslandi geri hreinlega ekki ráð fyrir að fólk eigi tvö smábörn.

Um daginn ætlaði ég að fara að versla með syni mína með mér, og keyrði sérstaklega í búð sem er frekar langt í burtu frá heimili okkar því ég vissi að þar væri til tvíburakerra sem væri samt ekki með svona ungbarnasæti.

Þegar í búðina var komið uppgötvaði ég mér til mikillar gleði að kerran góða sást hvergi …

Nú voru góð ráð dýr! Ég ætlaði mér nú aldeilis ekki að hætta við að fara í búð enda fátt eftir orðið ætilegt á heimilinu nema þornaður banani og 3 seríós.

Ég hafði um nokkra kosti að velja, en ekki voru þeir mjög álitlegir.

Ég gat látið þann yngri sitja í kerrunni og látið þann eldri labba með mér, en nú er eldri sonur minn á skemtilega „ég get allt sjálfur aldrinum,” og ef hann fær að valsa um frjáls í búðum tekur hann bara það sem honum helst þykir álitlegt úr hillunum og þykist stjórna innkaupunum í einu og öllu. Það er ekki alltaf það auðveldasta að fá hann til að samþykkja að mamma ráði án tilheyrandi láta og ég viðurkenni alveg að ég reyni að forðast að koma mér og syni mínum í þær aðstæður þar sem hann verður mjög reiður og fúll á almannafæri. Svo er hann líka með ákveðin fótavandamál sem verða til þess að hann er ekkert alltaf mjög viljugur að labba, og finnst mjög fínt að fá að sitja í kerru í búðum.

Ekki fannst mér næsti kostur skárri, að láta þann eldri sitja í kerrunni og litla labba, því hann fer eins og fellibylur um allt og rífur og tætir á þvílíkum ógnarhraða að ég efast stundum um að fílahjörð gæti gert meiri óskunda en hann.

Þriðji kosturinn var að láta þá í sitthvora kerruna, en í matvöruverslun þar sem gangarnir eru ekkert sérstaklega breiðir og bæði börnin ennþá á því stigi að finnast stundum sniðugt að teygja sig eftir fallegum hlutum í hillunum þá var sá kostur fljótur að hverfa úr huganum.

Úr varð að ég skellti þeim minni í sætið í kerrunni, þeim eldri ofan í kerruna og ákvað að kaupa bara helstu nauðsynjar og drífa mig heim.

Ég fór svolítið að velta þessu fyrir mér eftir þetta að ég sé nánast aldrei innkaupakerrur með sætum fyrir tvö börn. Er einfaldlega gert ráð fyrir því að fólk eigi ekki börn með stuttu millibili eða þá tvíbura?

Ekki það að það er ekkert hin besta skemtun að fara með börnin í búð, en þegar matvörubúðin opnar ekki fyrr en um hádegi þá er yngri drengurinn minn farinn að sofa og um leið og hann vaknar er kominn tími á að sækja stóra bróður á leikskólann þá hef ég sjaldnast neitt val nema að taka þá báða með mér í búð, og mér persónulega þætti ósköp fínt ef ég gæti bara skellt þeim í sömu innkaupakerruna.

–  –  –

Ég heiti Sif Hauksdóttir og er 24 ára, ég á tvo yndislega og orkumikla drengi, sá eldri er fæddur í september 2009 og sá yngri í október 2010. Ég er heimavinnandi húsmóðir með þann yngri þangað til hann kemst á leikskóla en eftir það eru engin plön, ég hef nefninlega ekki ennþá komist að því hvað mig langar að verða þegar ég verð stór!

X