Loading

MIKIÐ LÍTURÐU VEL ÚT ANNA MÍN, ERTU Í ÁTAKI?

Þessari setningu gleymi ég aldrei meðan ég lifi! Það var góð kona sem sagði þetta við mig þar sem ég og þá kærasti, nú eiginmaður, vorum við undirbúning fermingarveislu frænku minnar vestur á fjörðum í maí 2000. Ég var komin rétt rúma 4 mánuði á leið og var með æluna í hálsinum. Samt var ég svo glöð, svo himinlifandi yfir því sem við áttum í vændum. Við áttum von á barni um mánaðamótin sept-okt 2000 …. og ég sem hafði lýst því yfir að sama hvað mundi gerast þá ætlaði ég EKKI að taka þátt í því rugli að eiga barn árið 2000 !! Það var stórmál þarna á þessum tíma !! En, þetta er ekki það eina sem ég hef þurft að éta ofan í mig um ævina.

En, ég var líka glöð yfir öðru!! Þó ég væri með æluna í hálsinum var ég nýhætt að æla!! Svo nýhætt!! En almáttugur ég gerði allt annað en að líta vel út. Ég hafði lést um 10 kg á 3 mánuðum og mér taldist til að ég hefði ælt að meðaltali 8 sinnum á dag í 90 daga sem gera lítil 720 skipti. Þeir sem þekkja mig best muna þetta og vita að þetta er engin lygi. Þetta var það hroðalegasta sem ég hafði upplifað og þegar ég hafði ælt í mánuð (ca. 240 sinnum) átti ég afar bágt með að trúa því að lítið barn gæti gert manni lífið svona erfitt. Engin orka og ekkert eftir, grá og lufsuleg í útliti. Ég held ég hafi farið út 3-4 sinnum á þessum tíma, og þá fór maðurinn minn með mig á rúntinn til að viðra mig … það er til dæmis brandari á heimilinu að „vissirðu að það er búið að byggja ofan á Húsgagnahöllina?“ … þessu tók ég eftir um sumarið en hafði farið framhjá mér meðan ég var upptekin við að skoða klósettið að innan.

Þetta var sannarlega ömurlegt tímabil og ég leit ekki vel út. En, sem betur fer náði þetta ekki að eyðinleggja ánægjuna hjá okkur og þegar ég hresstist þurfti ég að vinna upp tapaðan tíma, og var á fullu fram á síðasta dag, bókstaflega. Orkan var ekki mikil og gangan upp Vitastíg, frá Laugavegi að Njálsgötu var of mikið erfiði fyrstu vikurnar. En, þetta kom hægt og rólega til baka og ég naut hvers dags sem eftir var. Síðasta daginn fór ég með mömmu í Kringluna og settist bara niður á 20 mín fresti … æ ég var eitthvað þreytt !! Hvernig átti ég að vera viss um að þetta væri málið?

Um nóttina kom stúlka, fullkomin í alla staði. Í dag get ég stundum notað þetta … „heyrðu vina, ég ældi 720 sinnum fyrir þig …
Það er sama hversu mörg skiptin eru, það er aldrei gott að vera lasin, sérstaklega ekki á meðgöngu.

– – –
Ég heiti Anna Stína og er mamma, og svo margt annað. Börnin mín eru fædd 2000, 2008 og 2010 – fyrir utan litlu englana sem hefðu átt að fæðast 2004, 2006 og 2007. Ég er menntuð sem kennari og námsráðgjafi en veit samt enn ekki hvað ég ætla að verða og er því alltaf að skoða nám. Ég er hamingjusamlega gift manni sem er kennari, kokkur og smiður. Við búum í Danmörku og finnst það dásamlegt.
Ég er að leita að námi og/eða vinnu og maðurinn minn er í skóla. Ég elska fjölskylduna og að vera með börnunum er það sem við setjum í fyrsta sæti, okkur gefst ekki tími í margt annað. Ég hlakka mikið til að fara í skóla eða vinnu en veit ekki alveg hvernig rekstur á fimm manna fjölskyldu á að rúmast á skemmri tíma en við höfum núna. Þá sef ég/við bara minna.

X