Loading

MJÓLKURÓÞOL

„Já“ sagði hann og skoðaði blóðið í bleyjunni sem ég hafði geymt síðan um morguninn. „Hann er með mjólkuróþol, þú mátt ekki borða neina mjólk, takk fyrir og bless“.

Yngri strákurinn minn var um 8 vikna gamall þegar ég átti þetta samtal við lækni á heilsugæslunni okkar. Í nokkrar vikur fram að þessu höfðum við gengið í gegnum kveisutímabilið svokallaða, héldum við, barnið grét öll kvöld og langt fram á nótt, pabbinn átti marga göngutúra um stofugólfið með drenginn sem engdist um af kvölum og grét og grét. Það var allt reynt; hafa hárblásarann á fullu, standa með barnið undir eldhúsviftunni, sitja inná baði og skrúfa frá baðkarinu, göngutúrar í vagninum uppúr 11 á kvöldin, bíltúrar, því í bílstólnum gat hann oftast sofnað. Það var svo ekki fyrr en við fórum að sjá blóð í bleyjunum hjá honum, sem það hvarflaði að okkur að þetta væri eithvað annað en bara kveisa.

Eftir þetta samtal við heilsugæslulækninn fór ég og settist út í bíl og hugsaði: „Já, ekki borða neina mjólk, ég hlýt nú að geta það, getur nú ekki verið það erfitt“. Ég hafði heldur betur rangt fyrir mér. Ég fór heim og opnaði ískápinn. Fyrir utan grænmetisskúffuna leyndist ekki einn einasti hlutur í honum sem ég mátti borða. Á heimilinu yfir höfuð var nánast ekkert sem ég gat borðað því það virðist vera sem það sé mjólk í ÖLLU. Kærastinn minn var samt nokkuð glaður seinna um daginn þegar hann sagði mér að ég mætti jú borða brauð, það væri sjaldnast mjólk í brauði ég varð rosalega glöð í smá stund þangað til það bankaði eithvað í hausnum á mér: „Halló, hvað ætlarðu að setja á brauðið“?

Þetta bjargaðist nú samt allt á endanum og ég fann mér mat sem ekki innihélt neina mjólk, en það var ekki auðvelt, verandi manneskjan sem fékk sér serjós með mjólk í morgunmat, ristað brauð með smjöri og osti í hádegismat og svo kleinu og mjólkurglas í kaffinu. Fyrst um sinn gátu búðarferðirnar tekið upp undir klukkutíma því ég þurfti að lesa aftan á hvern einasta hlut sem fór ofan í körfuna, þar sem undanrennudufti er troðið í allan fjandann!

Þegar ég fór svo með strákinn í 9 vikna skoðun skoðaði hann læknir. Þar sem hann var farinn að fá smá ábót við brjóstamjólkina og ég vissi að þurrmjólkin sem ég hafi verið að nota innihélt kúamjólkurprótín spurði ég hvað ég gæti notað í staðinn. Læknirinn sagði að það væri til sojaþurrmjólk sem ég gæti gefið honum. Ég hafði þá nýlega lesið að soja hefði ekki góð áhrif á stráka og spurði útí það. Fékk þau svör að það væri mjög umdeilt hvort soja væri slæmt eða ekki og jú, svo væru víst einhverjar örlitlar líkur á að barnið gæti fengið sojaofnæmi líka. Það væri nú reyndar til ein önnur þurrmjólkurtegund, sérstök ofnæmisþurrmjólk. Hún væri samt rosalega dýr. Ég ætti bara að gefa honum soja því hin mjólkin væri svo rosalega dýr. Ég var ekki sannfærð og ákvað frekar að kaupa ofnæmisþurrmjólkina á meðan ég biði eftir tíma hjá ofnæmislækni. Þegar þangað var komið var ég mjög fegin að hafa fylgt því sem mér fannst, því það eru ekki bara örlitlar líkur heldur þriðjungs líkur á að barn með mjólkurofnæmi þrói með sér sojaofnæmi líka sé því gefið soja! Mér finnst meira en lítið undarlegt að fá þær ráðleggingar að gefa eithvað sem gæti valdið ofnæmi því að hinn valkosturinn væri svo dýr.

Sem betur fer óx strákurinn uppúr þessu og finnst fátt betra en að fá skyr að borða.

– – –
Ég heiti Sif Hauksdóttir og er 24 ára, ég á tvo yndislega og orkumikla drengi, sá eldri er fæddur í september 2009 og sá yngri í október 2010. Ég er heimavinnandi húsmóðir með þann yngri þangað til hann kemst á leikskóla en eftir það eru engin plön, ég hef nefninlega ekki ennþá komist að því hvað mig langar að verða þegar ég verð stór!

X