Loading

MÖMMUBLOGGIÐ FARIÐ I LOFTIÐ

Í gær fór fyrsta Mömmubloggið okkar í loftið og við gætum ekki verið stoltari og ánægðari. Þær sem riðu á vaðið voru þær Kristjana Jokumsen og Inga Lára Ólafsdóttir. Blogg þeirra beggja hafa fengið fyrirtaks lesningu og greinilegt að mömmu/foreldrasamfélagið tekur þessari viðbót fagnandi.

Margar góðar konur höfðu samband við okkur þegar fyrst var auglýst eftir bloggurum – svo margar reyndar að við trúðum vart eigin augum. Nú vonum við að sem flestar fari að skrifa og að Mömmubloggið verði sá vettvangur sem okkur dreymir um. Enn er þó nóg pláss fyrir fleiri þannig að ef þið hafið áhuga eða þekkið einhverjar frábærar mömmur (eða verðandi mömmur) þá endilega hafa samband. Netfangið er thora76@gmail.com.

Mömmubloggið er hugsað sem vettvangur fyrir mæður til að tjá sig um sín hjartans mál, skoðanir, pælingar, sniðugar hugmyndir, hversdagskrísur, lífið, börnin, uppeldið, mat, maka – eða hvaðeina það sem viðkomandi dettur í hug. Markmiðið er að við speglum okkur í reynslu hverrar annarrar og fögnum fjölbreytileikanum.

Það skal jafnframt tekið fram að Mömmubloggið er ekki vettvangur fyrir leiðindi og skítkast, ærumeiðingar, einelti eða annað slíkt. Mæður eru betri en svo! og við áskiljum okkur fullan rétt til að birta ekki pistla sem geta orkað tvímælis eða skarast á við siðareglur okkar.

Hvert blogg er merkt höfundi sínum og verður ekki notað í öðrum tilgangi.

Takmarkið er að skapa skemmtilegt samfélag, deila reynslu og geta leitað í reynslu annarra mæðra. Ef þú telur þig eiga erindi í þennan fríða hóp þá vertu velkomin!

X