Loading

MÖMMUHÓPAR

Áður en ég varð ólétt af stráknum mínum hafði ég enga sérstaka skoðun á mömmuhópum, pældi bara ekkert í því frekar en neinu öðru barnatengdu. Að tala um hvað eða hvernig barn hefði borðað hádegismatinn sinn eða hvort það væri búið að kúka þann daginn var alveg svakalega langt frá mínu áhugasviði, eins og tilfellið er líklega hjá vel flestu barnlausu sjálfhverfu ungu fólki. En um leið og ég sá dásamlegu strikin tvö þá gerðist eitthvað. Þegar við unnustinn náðum okkur niður á jörðina aftur þá kom svona „…og hvað svo?“ móment. Þarna stóð ég bara allt í einu með manneskju í maganum (eða allvega svona startpakka af manneskju) og vissi í rauninni ekkert út í hvað ég var að fara, frekar en nokkur annar sem gengur með sitt fyrsta barn. Mig sárvantaði að vita hvað væri í vændum, hvað væri næsta skref. Panta ég mér tíma hjá lækni? Panta ég mér tíma hjá ljósmóður? Eða panta ég mér bara pizzu? Frumbyrja og alveg lost.

Fljótlega eftir að ég sagði bestu vinkonunni frá já-inu sagði hún mér frá síðu á netinu þar sem maður gæti spjallað við aðrar óléttínur. Ég var efins fyrst, fannst þetta hljóta að vera eitthvað vandræðalegt og fannst ég ekki nógu hipp og kúl í barnafræðum til að fara að tala um kúkableyjur daginn út og daginn inn við ókunnugar konur, jafnvel þó kúkableyju-áhuginn væri að kvikna hægt og rólega. Ég ákvað nú samt að slá til og ég sé sko alls ekki eftir því. Marsmömmurnar mínar eru ekki bara mömmuhópurinn sem ég tala við um kúkableyjur heldur eru þetta orðnar yndislegar vinkonur, sem ég get leitað með allt til, hvort sem það er tengt barninu, mér sjálfri eða bara eitthvað allt annað. Þegar strákurinn minn er pirraður og neitar að borða leita ég til þeirra og kemst að því að 15 önnur marsbörn eru líka að taka tennur og gera mömmur sínar gráhærðar. Þegar strákurinn minn dettur og meiðir sig og mömmuhjartað kennir sér um, fæ ég undantekningalaust pepp og reynslusögur frá öðrum reyndari mömmum. Þegar ég er óviss með eitthvað ráðfæri ég mig við þær og fæ alltaf svör um leið. Við erum fæddar á árunum 1991 – 1971 en þessi 20 ár skipta engu máli. Þarna eru margar með fyrsta barn, þónokkrar sem voru að koma með sitt fjórða, nokkrar með stjúpbörn til viðbótar og síðan allt þar á milli. Þrátt fyrir mismunandi aðstæður, erum við allar að upplifa sömu hlutina og getum stutt hvor aðra, sama hvað gengur á. Við erum búnar að tala saman síðan sumarið 2011 og erum búnar að hittast nánast einu sinni í viku (og stundum oftar) síðan sumarið 2012. Við hittumst með börnin, förum í göngutúra, á kaffihús og síðan skiljum við börnin eftir heima hjá pöbbunum nokkur vel valin laugardagskvöld og kíkjum út saman. Við erum misjafnar eins og við erum margar en kemur alveg ótrúlega vel saman. Þessar yndislegu konur toppuðu sig síðan og sýndu mér á svo einlægan hátt hversu mikill stuðningur þær eru, þegar lítill systursonur minn, sem býr í Danmörku, veiktist í janúar á þessu ári. Hann greindist með alvarlegan sjúkdóm og að sjálfsögðu voru þær með þeim fyrstu sem ég leitaði til, til að senda honum hlýjar hugsanir, enda engir smá straumar sem nokkrir tugir af nýbökuðum mömmum geta sent! Án þess að svo mikið sem hika, og án þess að ég minntist einu orði á það, sögðu þær mér að hika ekki við að drífa mig út til að reyna að koma fjölskyldunni eitthvað að gagni. Þær lögðu í púkk og borguðu fyrir mig flugfar út. Ég átti ekki þá, og á ekki núna, til eitt aukatekið orð yfir góðvildinni og umhyggjuseminni og á aldrei eftir að geta þakkað þeim nóg. Englar í mannsmynd!

Það er marsmömmunum mínum að þakka að ég gat verið hjá fjölskyldunni minni á erfiðum tímum. Það er marsmömmunum mínum að þakka að ég þarf ekki að fríka út þegar barnið mitt veikist af hlaupabólu heldur fæ ég góð ráð og leiðbeiningar. Það er marsmömmunum mínum að þakka að ég varð ekki brjáluð á að stara á þessa fjóra veggi sem eru heima hjá mér allt fæðingarorlofið.

Ég þarf nú sennilega ekki að taka það fram, en ég mæli alveg eindregið með mömmuhópum. Þó það sé ekki séns að neinn verði jafn heppin með mömmur og ég þá er þetta bráðnauðsynlegur félagsskapur að mínu mati. Auðvitað getur maður leitað til vina sinna ef eitthvað er en það eru takmörk fyrir því hversu margar brjóstagjafasögur þeir nenna að hlusta á, þó yndislegir séu. Mömmuhópurinn leyfir þér að tala eins mikið og þú þarft um barnið þitt, monta þig af öllum þessum litlu hlutum sem eru svo yndislegir en fáir taka eftir nema foreldrarnir. Mömmuhópar eru eiginlega alveg nauðsynlegir… þó það sé ekki nema bara til að fullvissa þig einu sinni um að grænn kúkur er ekki endirinn á alheiminum.

– – –

Ég heiti Björg Eyþórsdóttir og er 24 ára mamma eins árs krúttupésa, sem er fæddur í mars 2012. Er að læra hjúkrunarfræði en veit samt ekki ennþá nákvæmlega hvað ég vil gera þegar ég verð stór. Hef mikinn áhuga á börnum og öllu sem við þeim kemur, mannslíkamanum, manneskjum almennt og samskiptum við annað fólk. Finnst mömmuhlutverkið það besta í heimi og er svo þakklát fyrir að fá að upplifa það og það með þessum dásemdardreng sem ég á.

X