Loading

MÖMMUR ÞURFA LÍKA ATHYGLI

Seinasti pistill var um viðbrigðin sem fylgja þvi að fara úr fjölskyldu yfir að vera allt í einu ein.

Eftir ákvörðunina að hætta saman eða skilja koma allskonar ákvarðanir erfiðar og auðveldar. Þetta er ekki búið um leið og þú labbar út.

Vinahópurinn klofnar, skiptist allt í einu í tvær grúppur. Eigum við að fylgja henni eða honum? Vandræðalegt að vera vinir þeirra beggja? Þarf að halda tvenn júróvísjonparty? Alltaf tvöföld afmæli? Hvoru eigum við að eyða af facebook? Kannski hljóma þetta eins og asnalegustu og barnalegustu spurningar í heimi, en það síðasta sem maður vill eftir erfið sambandsslit er að þurfa að rekast á fyrrverandi hvert sem maður fer. Maður þarf virkilega mikið á vinkonum sinum að halda og ef þær get ekki skilið það og haldið með manni þá kannski voru þær ekki það góðar vinkonur eftir allt saman.

Þegar ég tilkynnti að eg væri flutt út fékk ég ekki að heyra: Æ, hvernig líður þér? eða Get ég gert eitthvað? Nei, ég fékk: En hvað um krakkann? Ég tilkynnti að við værum eftir smá rifrildi og umhugsun búin að ákveða þar sem við erum með sameiginlegt forræði að hafa viku og viku system. Foreldrum minum fannst hræðilegt að sjá ekki barnabarnið í heila viku! Fannst þetta ósanngjarnt gagnvart þeim og margir töluðu um hvað þeir ættu eftir að sakna hans. Ég hugsaði bara halló! Hvað um mig! Þegar við vorum saman kom inn á milli tími þar sem hann sá ekki ættingja í viku eða meira, og enginn kippti sé upp við það. Þetta er ekki keppni, það er ekki í boði að vera með eigingirni eða frekju – þetta snýst um hvað sé barninu fyrir bestu. Og þetta er ekki erfiðast fyrir ykkur þetta er erfiðast við þessa tvo einstaklinga sem eru að standa í skilnaðinum. Stundum verði þið bara að bakka tvö skref, anda inn og út og vera svo til staðar fyrir okkur. Ég tók hörkuna á þetta og grenjaði svo í hljóði, kannski þess vegna sem ég fékk sjaldan þessa spurningu sem maður þarf svo mikið: Hvernig líður þér? Fólk einbeitti sér að barninu og ég viðurkenni það að ég var alveg ein af þeim, maður sópaði reiðinni og sársaukanum undir teppið meðan maður reyndi að gera allt til að barnið yrði ekki vart við neitt.

Ég er rosalega heppin að ég á nokkrar vinkonur sem hafa gengið í gegnum það sama og ég og eftir að ég settist niður með þeim og sagði hálfgrátandi frá þvi hvað það hefði verið erfitt að ganga í gegnum þetta allt ein og viðurkenndi líka að ég væri ekki eins sterk og ég liti út fyrir að vera og að skilnaðurinn tók meira á en ég vildi fyrst viðurkenna að þá hjálpuðu þær mér að flytja út frá honum og við tókum svo nokkur stelpukvöld með grenjumyndum og ísboxum. Það sem bjargaði geðheilsu minni voru þessi videokvöld þar sem stundum var bara þagað, étinn ís og þurrkuð tár.

Því það sem hefur alltaf skipt mig mestu máli er barnið mitt og ef mér liður ekki vel og allt er í klessu þá sér og finnur barnið það, og hamingjusöm mamma er góð mamma! Það er ekkert að því að leita sér hjálpar ef þér finnst enginn í kringum þig skilja þig. Oft er betra að fá að tjá sig tala við einhvern utanað komandi, sérstaklega einhvern sem ekki er skyldur barninu!

Ekki ýta sársaukanum undir teppið, talaðu, grenjaðu, fáðu knús og vertu stolt af því að hafa loks getað staðið upp bein í baki tekið þessa erfiðu en samt sem áður bestu ákvörðun sem þú gast bæði fyrir þig og barnið þitt!

Bryndís Óðinsdóttir

X