Loading

MÖMMUSAMVISKUBIT

Síðustu daga er ég búin að vera með nagandi samviskubit sem móðir. En, hvers vegna? Jú, það er próftími í Háskóla Íslands. Að vera í skóla með börn hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru margir, ég get að mestu stjórnað tíma mínum − hvenær ég læri og hvenær ég sinni heimili og börnum. Dætur mínar hafa mig alltaf heima þegar þær koma heim úr skólanum og ég get verið heima þegar það eru veikindi án þess að vera með samviskubit yfir því að mæta ekki í vinnuna. Já, oft er það lúxus eða forréttindi að geta verið við nám, en ekki alltaf.

Námið krefst mikillar vinnu, mikils aðhalds, aga og skipulags. Samt sem áður eru álagstímar í náminu mismiklir. Stundum er minna við að vera en aðrar vikur meira um verkefnaskil og því fylgir mikil vinna. Önnin líður og ég get mætt í ræktina, lesið skólabækurnar, unnið verkefnin, verið virk í foreldrastarfi skólabarnanna minna, verið til staðar fyrir börnin mín, unnið með skólanum, kíkt á vinkonur mínar og gert flest allt sem mig langar til að gera. En þegar líða tekur á lok annar ná verkefnaskil hámarki og prófaundirbúningurinn einnig. − Hvað þýðir það fyrir mig? Jú, ég hætti að vera heima alla daga þegar dætur mínar koma heim, mun minna til staðar fyrir þær, skyndibitinn er kominn til að vera þessa daga og öll rútína brenglast. Við reynum samt sem áður að halda rútínu yngsta fjölskyldumeðlimsins að mestu, því það er nauðsynlegt fyrir hana.

En þið megið trúa því að núna tel ég niður dagana þegar þessari prófavertíð lýkur Ég segi vertíð hér, því suma daga er ég 14 til 18 klukkustundir í skólanum að læra. þá daga er gott að eiga góða að, góða mömmu sem er til staðar fyrir dætur mínar, ótrúlega duglegar unglingsdætur sem hjálpa til við heimilishaldið, annars væri þetta ekki hægt. Ég er líka svo lánsöm að dætur mínar eiga yndislega ömmu og afa sem hjálpa mér endalaust mikið með stelpurnar. Það ber vissulega að þakka.

En þrátt fyrir að dætur mínar hafi það svo sem ekkert slæmt, þá er ég með nagandi samviskubit − samviskubit yfir allri fjarverunni og að finna hvað dæturnar eru í mikilli þörf fyrir mömmu. Og þá fæ ég spurningar eins og „mamma hvenær verður þú eiginlega búin í þessum skóla?“ Samt sem áður, þegar upp er staðið, er ég mun meira til staðar fyrir þær heldur en ef ég væri að vinna úti frá 8 til 9 klukkustundir á dag, alla daga vikunnar − allan ársins hring.
Er ég ein um þessa líðan? Með nagandi samviskubit yfir því að sinna dætrum mínum ekki eins vel þessa lotudaga og alla hina? Hvað með pabbana sem eru í skóla? Ætli þeir upplifi svona samviskubit gagnvart börnum sínum þegar anna- og prófatími nálgast?
Það er sannarlega vinna að vera í skóla. En elsku yndislegu dætur mínar eru ótrúlega skilningsríkar og duglegar við að hjálpa mér og fyrir það er ég þakklát, elsku dætur, án ykkar gæti ég þetta ekki, TAKK TAKK!

– –
Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X