Loading

MÖMMUVÍGSLAN

„Gleðilega gæsun” sagði æskuvinkona mín brosandi út að eyrum þegar ég opnaði fyrir henni síðastliðinn laugardag. „Við ætlum að bjóða þér í dekur, ertu til í það?”

Mér var boðið í dekur og út að borða og á slaginu þrjú dingluðu þær hver á eftir annarri fallegu vinkonur mínar. Mættar heim til mín, búnar að taka frá heilan dag mér til heiðurs. Ef ég væri ekki naglinn sem ég er, hefði ég grátið allan daginn af gleði og þakklæti. Dagurinn yndislegi leið, við hlógum, sögðum sögur, þóttumst vera hugrakkar og fyndnar og fögnuðum því að brátt væri ég gift kona. Mér leið eins og ég væri stjarna, eða í það minnsta afar fallegur fugl. Fullkomin afsökun fyrir því að eyða heilum degi með yndislegustu vinkonum í heimi. Eftir skemmtilegan dag sneri ég heim endurnærð og hef yljað mér við minningarnar síðan.

Þegar ég lá þarna í heita pottinum og horfði upp í himininn og hugsaði um hve ótrúlega ljúft lífið er kom upp í hugann að auðvitað ætti að vera sérstök mæðrun (mömmugleði) rétt eins og gæsun (nú og feðrun eins og steggjun fyrir nýja feður, þó það hljómi ólíkt óþjálla og þyrfti kannski betra nýyrði fyrir).

Mæðrunin eða mömmuvígslan væri þá einmitt svona eins og skemmtileg gæsun nema bara styttri í tímalengd. Mæðrun væri til heiðurs konu sem er nýlega orðin móðir. Ætli mæðrun eða mömmuvígsla þekkist ekki víða í einhverju formi en hér er hugmyndin sem kom í heita pottinum.

Þegar barn er orðið segjum 7-8 mánaða (eða svo gamalt að allir treysta sér til þess að vera aðskildir í nokkra klukkutíma) er bankað upp á óvænt ,,velkomin í veröld mæðra” eða í þá áttina. Nýja móðirin er þá numin á brott, barnlaus, af vinkonunum í dekur og er heilagt upptekin meðan á því stendur.

Upplagt að fara saman út að borða eða í pikknikk ef veður leyfir, í sund eða spa og bjóða svo nýju móðurinni í smá dekur. Spjalla, segja sögur og miðla af reynslu, hlæja og slappa af og njóta þess og fagna að vera orðin móðir. Fá stund fyrir sig með góðum vinkonum til að fagna því að lífið hefur breyst um ókomna tíð, gleðjast yfir því að heima bíði manns lítil manneskja sem veit ekkert fyndnara eða skemmtilegra í heiminum en akkúrat mann sjálfan. Fagna í góðra vina hópi andvökunóttum, auknum þvotti, kúkableium og kynlífsleysi. Hlæja af reynslu og ráðaleysi, nýjum uppákomum og breyttum aðstæðum. Gráta ef þess þarf. Sitja heilagt upptekinn með vinkonunum og njóta þess að þurfa ekki að vera með kveikt á mömmuradarnum. Snúa svo heim í móðurhlutverkið á ný, endurnærð, glöð og þakklát og eiga í hjarta sér dag þar sem vinkonuhópurinn fagnaði því að x mánuðir eru liðnir frá því að kona varð móðir.

Ég held að svona dagur geti í versta falli verið góð afslöppun og í besta falli bjargað geðheilsunni.

– –

Soffía Bæringsdóttir er kennari, doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X