Loading

MORGUNVERÐAKLATTAR OG ÁVAXTAKÖRFU SMOOTHIE

Ragnheiður Eiríksdóttir matarbloggari skrifar:

Um helgar myndast oft rólegri stundir á morgnanna en á virkum dögum þegar heimilisfólkið er á hlaupum við að komast í vinnu og skóla á réttum tíma. Þá er tilvalið að bregða annað slagið út af vananum og útbúa dögurð eða “bröns”. Klattarnir eru ansi svipaðir amerískum pönnukökum nema með haframjöli. Ávaxtakörfu smoothie dregur nafn sitt einfaldlega af ávaxtakörfu heimilisins og innihaldi hennar að hverju sinni ásamt frosinni berjablöndu sem er ávallt til taks í frystiskápnum.

Morgunverðarklattar:
1 egg
1 bolli mjólk
60 gr. smjör, brætt
1 bolli hveiti
1 bolli haframjöl
ca. 4 msk. sykur
1 tsk. lyftiduft
smá salt

Eggið og mjólkin eru hrærð saman og þurrefnum svo bætt útí. Ég bræði smjörið alltaf á pönnunni sem ég steiki klattana á (minna uppvask) og bæti því svo seinast við blönduna. Ef ykkur finnst deigið vera of þunnt eða of þykkt þá er bara mál að bæta mjólk eða hveiti til að fá þá þykkt á deiginu sem maður vill. Steikið klattana við miðlungs hita þar til þeir verða fallega brúnir.
Að þessu sinni voru klattarnir bornir fram með smjöri og osti en þeir eru líka mjög góðir með sýrópi og öllu hinu sem tilheyrir “hefðbundnum dögurði”.

Ávaxtakörfu smoothie
Í þennan tiltekna smoothie fóru:
4 litlar perur, hýðis og kjarnalausar
1 banani
1 bolli frosin berjablanda
½ dl. vatn
Allt sett í blandarann þar til hávaðinn hefur vakið alla fjölskylduna…grín! Bara smá stund.

Þetta er kjörið tækifæri til að taka aðeins til í ávaxtakörfunni og nýta þá ávexti sem eru orðnir vel þroskaðir og minna fallegir.

Góða helgi!

X