Loading

MUST LOVE BOOKS

Kröfur. Við gerum almennt mikið af þeim. Við höfum ákveðnar væntingar til þess hvernig makinn okkar á að vera, hvernig vinir okkar haga sér og hvernig vinnan okkar á að vera. Við erum oft upptekin af því að strúktúrera heiminn eftir okkar eigin höfði – en við hlaupum oftar en ekki á vegg.

Börnin okkar eru líklega engin undantekning. Við viljum að þau hafi gaman af því sem við höfum gaman af, fari að sofa þegar okkur hentar, borði það sem við teljum að sé þeim fyrir bestu, og séu almennt áskrifendur af þeirri hugmyndafræði að mamma og pabbi viti allt best.

Á sama tíma viljum við að þau sýni sjálfstæði í hugsun og gjörðum. Sér einhver þversögnina hérna?

Sumar af þessum kröfum eru kannski alveg skiljanlegar – fjögurra ára barn getur kannski ekki skilið það að það sé óheppilegt að borða ekkert grænmeti og að fara að sofa seint og um síðir og það þarf ákveðna valdaskiptingu til þess að heimili rúlli og einstaklingar alist sómasamlega upp. Getum við ekki öll skrifað undir þetta?

Ég pæli svolítið í þessu. Dóttir mín hefur verið að færa sig upp á skaftið undanfarið og er að prófa hvernig henni gengur að frekjast til að fá sínu framgengt. En obbobbobb – þegar hún uppsker ekkert nema pirring og skipanir á móti frá okkur foreldrunum þvermóðskast hún enn meira. Í raun fljúga kröfurnar á báða bóga og í hnotskurn er staðan svona: mamman á að hlýða því sem barnið vill en barnið á að hlýða því sem mamman vill.

Við vorum konar í svona pattstöðu um daginn, ég og litla ljósið. Umræðan, eða öllu heldur kröfurnar, snerust um sjónvarpið. Krafan var að fá að horfa á einn þátt í viðbót. Mótkrafan var að fara að hátta. Skeifur voru settar upp, augu voru hvesst, en allt kom fyrir ekki. Enginn gaf sig.

Þá voru góð ráð dýr.

Hér var eitt óreynt í stöðunni – að taka hundrað og áttatíu gráðu kúvendingu á stragedíunni og reyna eitthvað sem hljómar kannski oft óhugsandi – að ræða við barnið.
Það tók mig smá stund að komast að þessari niðurstöðu, en á endanum settist ég niður og með smá dextri náði ég fjögurra ára fjörkálfinum til mín og útskýrði málið fyrir henni: það er óhollt að glápa lengi á sjónvarpið. Maður missir af svo mörgu skemmtilegu þegar maður horfir bara á sjónvarpið. Mamma bannar endalaust sjónvarpsgláp ekki bara að gamni sínu, heldur vegna þess að það er best fyrir þig. Viltu ekki frekar lesa með mér eina bók?

Og niðurstaðan lét ekki á sér standa. Sú stutta skoppaði sátt upp í rúm og við lásum bók og spjölluðum saman. Þegar ég stóð upp til að fara fram spurði ég hana að gamni hvað það var sem hún hefði lært í dag. Ekki stóð á svarinu: Það er ekki gott að horfa of mikið á sjónvarpið.

Auðvitað var hún búin að gleyma þessum miklvæga lærdómi nokkrum dögum síðar en þá var bara byrjað aftur upp á nýtt…

Það er oft mjög djúpt á kröfum í undirmeðvitundinni og einhvern veginn er forskriftin af samfélaginu þannig að fólk taki mið af einhverjum samfélagslega viðurkenndum normum og hagi lífi sínu, og ekki síst heimilislífi, eftir því – en þetta er önnur umræða og stærri.

Þegar upp er staðið er það kannski bara ein krafa sem hefur eitthvað að segja – krafan um virðingu.

– –

Edda er menntaður margmiðlunarhönnuður og með BA í ensku. Hún hefur samt áhuga á öllu og vinnur því sem markaðsfulltrúi hjá ráðgjafafyrirtæki, syngur í kór, skrifar í tíma og ótíma og ferðast eins og hún getur.
Edda á eitt barn, einn mann og eina íbúð, en tvo króníska sjúkdóma sem krydda óneitanlega tilveruna og hún hefur lært heilmikið af því að lifa með veikindum og stýra heiminum í leiðinni.
Netfangið hennar er edda.kentish@gmail.com.

X