Loading

Nei, nei, nei og aftur NEI!

Pistill eftir Rakel Rán Sigurbjörnsdóttur, fjölskyldumeðferðarfræðing.

Hversu oft á dag ætli við segjum nei við börnin okkar? “Nei, má ekki. Nei, ekki taka þetta. Nei, það á ekki að leika með matinn.” Og þegar við segjum nei er oftar en ekki ákveðinn vanþóknunarsvipur á okkur. Við segjum nei, bæði með orðum, svipbrigðum og líkama.

Hvernig væri það fyrir okkur ef maki okkar eða aðrir sem við umgöngumst mikið segðu nei við okkur jafn oft og við segjum nei við börnin? Það kæmi mér ekki á óvart að margir væru niðurbrotnir eftir slíkan dag!

Ég skora á foreldra að segja já. Segja já, með orði, svipbrigðum og líkama. “Já, þú vilt tæta” og bæta brosi við. Svo færum við barnið þangað sem það má tæta eða drögum athygli þess að einhverju öðru.

Já, þú vilt lita á vegginn! Hérna er blað, viltu lita á það á gólfinu eða eigum við að líma það á vegginn?

Já, þú vilt leika með dótið sem Sigga er með! Ég skil það, það lítur út fyrir að vera skemmtilegt dót. Hvað getum við fundið sem er svipað?

Þannig ýtum við undir forvitni og tilraunir barnsins og leggjum okkar að mörkum til að barnið geti náð sér í þann þroska sem það þarfnast.

Rakel Rán er lærður fjölskylduráðgjafi frá Háskóla Íslands. Hún starfar á Shalom þar sem boðið er upp á heildræna meðferð. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel Rán vinnur að meistaraverkefni um samskipti við börn og heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur.
Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com.

X