Loading

NEI, NEI ÞAÐ ER ALLS EKKI LAUGARDAGUR

Getur einhver þarna úti sagt mér hver setti sérstaka helgarklukku inn í litla krakka? Fimm virka daga vikunnar þarf ég að berjast við að ná fimm ára syni mínum fram úr rúminu fyrir klukkan átta. Það er allt reynt, blíða aðferðin („góðan daginn elsku kútur, sólin skín í heiði og framundan er dásemdardagur með fögrum fyrirheitum, brosum og sól“), keppnisaðferðin („hver ætli verði fyrstur í sokkana í dag? Ekki ætlarðu að láta systur þína pakka þér saman og borða allan morgunmatinn frá þér?“) Og svo þegar allt annað er að klikka þá er samviskutýpan tekin á þetta („jæja, nú þarf mamma að komast í vinnuna ef hún á ekki að vera rekin, standa upp atvinnulaus og þá verður gaman að sjá hver borgar Cheeriosið þitt…“) Já, eða svona næstum því… Fer eftir því hvað klukkan er orðin margt.

Ekkert virkar, það er snúið sér á hina hliðina, koddinn dreginn upp fyrir haus og mamma beðin vægðar enda barnið útkeyrt og vill bara kúra nokkrar mínútur í viðbót. Svona er þetta mánudag til föstudag nánast án undantekninga en laugardagurinn er varla runninn upp (sexleytið er ekki dagur, sama hvað hver segir) og splæsið er rokið upp í fantaformi! Öll trix hafa verið reynd: Seint að sofa, snemma að sofa, myrkvagluggatjöld og jafnvel lygar um hvaða dagur er: „Ha? Laugardagur? Nei, nei það er leikskóladagur í dag blessaður kúrðu aðeins lengur.“ Í von um korterssvefn í viðbót. Og ekki halda að ég hafi fallið í þá gryfju að kaupa einhvern sérlegan sykraðan og freistandi helgarmorgunmat og það skýri þennan helgarmorgunhressleika, ég er ekki fædd í gær.

Ég veit að ég er ekki ein að berjast við þennan alheimsvanda. Svo við ykkur hin sem þið þurfið að díla við ósanngirni heimsins þegar kemur að vakningu á laugardags- og sunnudagsmorgnum segi ég bara: Góða helgi, þið eruð ekki ein!

– – –

Björk Eiðsdóttir hefur starfað við íslenska fjölmiðla undanfarin fimm ár, þá bæði tímarit og sjónvarp eftir að hafa menntað sig í fjölmiðlafræði í Bandaríkjunum. Hún er sjálfstæð móðir þriggja sjálfstæðra barna á aldrinum fimm til fjórtán ára. Hún segist vita að það er hægt að gera allt með fjölskyldu eftir að hafa farið í gegnum háskólanámið með tvö kríli og eignast það þriðja á útskriftarönninni. „Það er allt hægt en það getur kostað svita og puð þó oftar sé þetta gaman og síðast en ekki síst er um að gera að taka lífinu létt, hlæja að öllum mistökunum og halda áfram.”

X