Loading

NÍTJÁN BARNA MÓÐIR Í ARKANSAS

Það ganga margar lygasögur um foreldrahlutverkið og ein sú stærsta er sú að það sé sáralítill munur á því að eiga eitt barn eða tvö. Það sé fyrst þegar það þriðja bætist við að hlutirnir fari að flækjast. Aulinn ég trúði þessu í blindni og bjóst við að það yrði barnaleikur að eignast barn númer tvö. Þrátt fyrir ofurtrú á eigin skipulagsgáfu og móðurhæfileika þá verð ég að viðurkenna að lífið varð mun flóknara eftir að börnin urðu tvö.

Víkur þá sögunni að konu nokkurri sem heitir Michelle Duggar. Ég verð að viðurkenna að þessi kona víkur sjaldan úr huga mér og mig dauðlangar að hitta hana. Michelle er nefnilega frægust fyrir það að eiga nítján börn og um hana og líf hennar (og fjölskyldunnar) er fjallað á amerísku sjónvarpsstöðinni TLC.

Þar fylgjumst við með Michelle stjórna heimilinu af miklum myndarbrag, kenna öllum börnunum nítján að lesa og reikna, múltítaska eins og herforingi og allt án þess að hækka nokkurn tíman röddina. Hún er afskaplega blíð og sinnir öllum börnunum sínum sem eru alltaf vel til höfð og afskaplega prúð.

Eiginmaður hennar hann Jim Bob fer í vinnuna á daginn og kemur síðan brosandi heim og svo er bara stuð heima á meðan heimilismeðlimir skiptast á gamansögum, glíma, spila kana, lúdó og svoleiðis.
Sveitt með ælu á öxlinni horfi ég á þetta með hryllingi og skil ekki fyrir mitt litla líf hver tilgangurinn með þessum gjörningi er. Hvernig dettur fólkinu í hug að eiga NÍTJÁN börn? Í alvöru? Ég á nóg með tvö! Eru þau að reyna að láta okkur hinum líða eins og aumingjum eða hvað. Og hvað er málið með Michelle? Það er ekki fræðilegur möguleiki að hún geti í alvörunni sinnt NÍTJÁN börnum og verið bara rosalega hress. Í alvöru! Hvenær hefur hún tíma fyrir sjálfa sig? Hvenær fékk hún síðast að sofa heila nótt, hvenær fór hún ein á klósettið síðast? Í alvöru!!

Skilaboðin sem ég fæ eru þau að ég sé aumingi að ráða ekki við mín tvö (sem þó eru merkilega auðveld og yndisleg). Einfaldir hlutir vefjast fyrir mér – eins og þegar koma þarf börnunum út í bíl: Hvað gerir maður með eitt pínulítið í barnabílstól og annað sem er tveggja ára og sprettharðara en antílópa? Margoft hefur litla stýrið verið skilið eftir í barnabílstólnum á miðju bílaplani á meðan örmagna móðirin tekur á rás á eftir prakkaranum sem heldur að það sé svakalega fyndið að hoppa í risastóra pollinn á miðju bílaplaninu fyrir framan Bónus – á föstudegi klukkan fimm! Hvernig yrði það ef ég væri með sjö börn?

Á meðan á þessu stendur mætir Michelle á kristilega kvikmyndahátíð í miðvesturríkjum Bandaríkjanna á rútu. Hún hélt reynar að hún kæmist ekki en þar sem yngsti unginn mætti aðeins of snemma í heiminn þá reddaðist þetta. Afslöppuð sést hún nánast svífa um ganga kvikmyndahússins meðan hún smalar saman þægu börnunu sínum, klædd í tjald (bókstaflega) þar sem yngsti unginn liggur á brjósti í þar til gerðum búnaði innan undir tjaldinu! Jahá! Og frekjan ég var eitthvað að væla um að fá lánaðan Lazy-Boy stól svo brjóstagjöfin yrði sem náðugust.

Þökk sé Michelle líður mér eins og lúxúxaumingja sem ætti að skammast sín. Hvernig hún fer að þessu veit ég ekki en mikið rosalega lætur hún þetta líta auðveldlega út. En ég skal alveg viðurkenna að það blundar í mér púki. Kannski er Michelle ekkert svona hress eftir allt saman. Kannski langar hana að mest af öllu að stinga af eða lemja Jim Bob, kannski er hún á róandi, kannski er hún svo þreytt ræfillinn að hún fer að gráta þegar enginn sér til eða kannski eru tólf barnfóstrur á kantinum sem sjást aldrei í mynd?

Og kannski er ósköp eðlilegt að eiga fullt í fangi með tvö lítil börn? Og kannski er ég bara ósköp venjuleg svefnlaus mamma með blautþurrkur í veskinu til að þrífa æluna af öxlinni. Hver veit? Hitt veit ég að ég hefði ekkert á móti því að setjast niður með Michelle, helst yfir sterkum kokteil, og fá að vita hvernig í fjandanum hún fer að þessu og – hvort hún mæli virkilega með þessu!

– –
p.s. þessi pistill var skrifaður fyrir ári síðan og hefur áður birst á Pressunni.is – en þar sem þetta er klassískur boðaskapur ákvað ég að birta hann einnig hér.

X