Loading

Nokkrar vangaveltur

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju fólk þarf alltaf að vera að dæma mann fyrir það hvernig maður elur barnið sitt upp. Nú er ég ekki búin að vera mamma í mörg ár en þessir tæpu 14 mánuðir sem ég hef verið mamma hefur fólk sagt allskonar hluti við mig.

Eitt dæmi er þessi blessaða brjóstagjöf. Af hverju í ósköpunum finnst fólki svona hræðilegt að ég hef alltaf leyft dóttur minni að sofna út frá brjóstinu? Er ég virkilega svona slæm móðir að vera að leyfa henni að sofna þar sem henni líður best og finnst hún vera öruggust? Það er bara nákvæmlega ekkert sem sannar það að það sé slæmt að leyfa barni að sofna út frá brjóstinu og í raun er það bara mjög náttúrulegur hlutur, þurfa virkilega öll börn að sofna sjálf í sínu rúmi á 5 mínútum?

Og talandi um að sofna sjálf á 5 mínútum, hvenær varð það slæmt að svæfa barnið sitt eða vera hjá því þangað til það sofnar? Mér finnst voðalega skrítið að fólk geri þessa kröfu á nokkura mánaða gömul börnin sín, ef dóttir mín vill sofna sjálf í sínu rúmi leyfi ég henni það alltaf, en ef hún vill kúra hjá mér og fá brjóst þangað til hún sofnar er það alltaf í boði og hefur alltaf verið í boði. Mér finnst eins og svo mörgum mömmum líði illa með það ef barnið þeirra sofnar ekki sjálft í sínu rúmi fyrir 1 árs, manni á ekki að líða illa með það því að þetta er svo dýrmætur tími sem mun aldrei koma aftur og af hverju ekki bara að njóta augnablikanna, jú stundum langar manni alveg að horfa bara á Netflix eða gera eitthvað annað en svæfa barnið sitt, en hættir maður bara að vera mamma á kvöldin þegar barnið þarf mikið á manni að halda, ég hef allavega alltaf sagt það að ég hætti ekki að vera mamma dóttur minnar á kvöldin eða nóttunni, ef hún þarfnast mín þá er ég alltaf tilbúin að sinna henni.

Svo eitt annað sem ég hef velt mikið fyrir mér, af hverju finnst fólki svona slæmt að vera með barnið sitt á brjósti lengur en til 6 mánaða? Ég er ein af þessum mömmum sem er ennþá með tæplega 14 mánaða gamla dóttur mína á brjósti og er ég bara mjög stolt af því að geta það, en ég er ekki mikið að segja fólki frá því einfaldlega vegna þess að fólki finnst ég skrítin fyrir að gera það. Það hefur verið sagt við mig að það sé ógeðselgt að hafa börn lengur en til 6 mánaða á brjósti og þegar maður fær alltaf eitthvað neikvætt í andlitið um þetta þá fer maður að hugsa hvort maður sé virkilega að gera eitthvað rangt, en dóttur minni líður hvergi betur og ég ætla bara að leyfa henni og mér að njóta þess aðeins lengur. Og hverjum kemur það við hvernig ég gef barninu mínu næringu, er það ekki bara það eina sem skiptir máli að barnið nærist, hvort sem það er brjóstamjólk eða þurrmjólk, ég sé ekki muninn og valdi ég bara að hafa dóttur mína á brjósti því það hentaði okkur mjög vel.

Væri ekki bara frábært ef fólk myndi bara hætta að dæma aðra, við erum öll að gera okkar besta og við erum eins misjöfn og við erum mörg. Svo lengi sem börnin okkar eru hamingjusöm og vel hugsað um þau er það ekki það sem skiptir máli? Ég veit líka að það eru ekki allir sammála þessu en þetta er mín upplifun af þessu öllu saman.

Karítas

– – –

Ég heiti Karitas Harvey og er 25 ára. Ég er að vinna á leikskóla ásamt því að reyna að klára atvinnuflugmannsnám. Ég á eina stelpu sem heitir Adriana og er fædd 21. janúar 2016. Ég er í sambúð með kærastanum mínum og erum við búin að vera saman síðan 2013. Mín aðal áhugamál eru barnauppeldi og flest allt sem tengist börnum, ferðalög, flug og allt sem því tengist og ég hef mjög gaman að því að prjóna og prjóna ég mikið á stelpuna mína.

– – –

Langar þig að verða bloggari? Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt? Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hja)foreldrahandbokin.is

X