Loading

NÝJA UPPÁHALDSBÓKIN Á HEIMILINU

Nýverið kom út bókin Gerðu eins og ég – Hvati og dýrin sem er formlega orðin uppáhaldsbók barnanna á heimilinu. Bókin er í senn falleg, fræðandi og skemmtileg enda er eitt af markmiðum hennar að stuðla að betri heilsu barna með því að kenna skemmtilegar æfingar sem börnin elska að gera.

Höfundar bókarinnar eru þær Eva Þengilsdóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir en Bergrún lauk nýlega námi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Við spurðum Bergrúnu hvenær áhuginn á barnabókum kviknaði.

„Ég hef alltaf verið hrifin af barnabókum en áhuginn fór vaxandi eftir að sonur minn kom í heiminn og ég fór að upplifa bækur meira í gegnum hann. Börn taka eftir minnstu smáatriðum og dvelja oft við allt aðra hluti en fullorðnu fólki þykir vera aðalatriði. Það þýðir líka ekkert að hoppa yfir eina, tvær síður, enda eru þau algjörir límheilar og þekkja flestar bækurnar sínar út og inn. Frá því að sonur minn var 4ja mánaða var sama bókin lesin fyrir hann á hverju kvöldi. Það varð til þess að ári seinna, þegar við vorum í bílferð úti á landi og mömmunni fannst kjörið að hann myndi leggja sig, var nóg að þylja upp fyrstu línurnar úr sögunni og augun lyngdust aftur því hann vissi hvað það þýddi, nú skyldi hann fara að sofa. Það er því ótrúlegt að sjá með berum augum hvaða áhrif bækur geta haft á börn.”

Bergrún hafði ekki hitt Evu Þengilsdóttur, textahöfund bókarinnar, þegar hún vann fyrstu myndirnar fyrir ritstjórann.

„Sigþrúður, ritstjóri barnabóka hjá Forlaginu, hafði samband og sagðist vera með handrit sem hún vildi að ég myndi myndskreyta. Hún hafði séð lokaverkefnið mitt á sýningu viku áður og við spjölluðum aðeins saman um mögulegt samstarf. Ég er virkilega þakklát Sigþrúði fyrir að trúa á mig og gefa mér mitt fyrsta tækifæri sem barnabókateiknari. Við Eva náðum strax vel saman og erum í góðu sambandi í dag, enda rígmontnar af litla afkvæminu okkar. Ég gæti ekki verið ánægðari með samstarfið. Eva er með skemmtilegan stíl og hefur yndislegan hæfileika til að segja sögur.”

Sonurinn elskar bókina.

„Ég prufukeyrði teikningarnar á Darra Frey á meðan þær voru í vinnslu. Las handritið og sýndi honum myndirnar og fékk viðbrögð við svipbrigðum dýranna, sem var mjög hjálplegt. Hann var því jafn stoltur og mamman þegar bókin kom úr prenti og vildi sína öllum bókina “sína.” Sonur minn er á tímabili þar sem hann er ýmist rosalega virkur, hleypur og hoppar og þarf mikla útrás, eða getur ómögulega labbað upp stigann því hann “stiginn er allt of þungur” sem er mjög fyndið. Gerðu eins og ég getur haft frábær áhrif á börn sem hreyfa sig lítið og þurfa að æfa gróf- og fínhreyfingar, jafnvægi og samhæfingu. Bókin er líka æðisleg sem jákvæð hreyfistund fyrir litla orkubolta sem þurfa smá fókus og einbeitingu.”

Segir bestu launin að sjá hvernig krakkarnir bregast við.

„Þau eru ótrúlega spennt og dugleg að taka þátt. Heilu leikskólahóparnir sitja með augu og eyru galopin og um leið og þau eiga að gera hreyfingar með Hvata stökkva þau á fætur og standa á öðrum fæti eða dansa. Svo setjast þau strax niður aftur og halda áfram að hlusta. Svona gengur þetta áfram í gegnum bókina og þá eru krakkarnir ekki bara búin að læra hvernig dýrin hreyfa sig, heldur líka hvernig litlir ærslabelgir eiga ekki að haga sér, þ.e. stinga af og týnast.”

Bergrún segist leggja áherslu á að lesa fyrir Darra, en af hverju er mikilvægt að lesa fyrir börn?

„Ég las mjög mikið sem barn og hvarf reglulega inn í mínar litlu ævintýraveraldir. Þegar ég dusta rykið af gömlu bókunum mínum man ég eftir hverju orði og hverri mynd og fyllist einhverri óútskýranlegri nostalgíu. Ég elska að sjá son minn falla fyrir sömu bókum og ég elskaði þegar ég var lítil, en þykir einnig vænt um nýjar bækur og nýjar minningar. Íslenskan er einstök og við þurfum að gæta tungumálsins okkar. Ég vil aldrei umorða bækur með flóknum orðum heldur legg ég frekar áherslu á að kenna syni mínum orðin sem fyrst svo þau verði honum ekki framandi þegar hann fer sjálfur að lesa. Við erum ekki nema rétt rúm þrjúhundruðþúsund á litlu eyjunni okkar en heimurinn er risastór og ævintýraheimurinn enn stærri. Einfaldasta leiðin til að ferðast sem lengst á sem stystum tíma er í gegnum bækur, og fátt betra en að fara þangað með mömmu eða pabba, rétt áður en maður leggur höfuðið á koddann.”

Hverju breytir Gerðu eins og ég fyrir foreldra eða aðra aðstandendur?

„Margar bækur eru til þess fallnar að lesa saman í rólegheitunum og láta daginn líða úr sér. Bókin um Hvata er hinsvegar einstök að því leyti að það skapast frábært tækifæri fyrir börnin að hoppa og skoppa á meðan lesið. Á hverri opnu eru leiðbeiningar fyrir aðstandendur (“smáa letrið”) til þess að börnin fái sem mest út úr hverri æfingu. Þannig eykst samhæfing, hreyfiþroski og jafnvægi um leið og börnin skemmta sér konunglega.”

image

Bergrún ásamt Darra Frey syni sínum.

X