Loading

ÓDÝRT EN ÓTRÚLEGA GOTT DEKUR FYRIR NÝBAKAÐAR MÆÐUR

Þegar ég kom heim með fyrsta barnið mitt af fæðingardeildinni snérist líf mitt allt um hann og nýafstaðna fæðingu. Ég get ekki sagt að fæðingin hafi verið draumur né heldur fyrstu vikurnar á eftir en drengurinn var góður og nærðist vel. Ég gleymdi hins vegar alveg að hugsa um sjálfa mig, næringu og slökun. Ég er viss um að fleiri mæður þekkja þetta. Áður en maður veit af eru margir dagar og janfvel vikur liðnar án þess að maður hafi fengið stund fyrir sig. Það var ekki fyrr en ég skrapp á snyrtistofuna í næsta húsi við mig í litun og plokkun þegar drengurinn var um 3ja mánaða, sem ég uppgötvaði hversu þreytt ég var, stressuð og langt frá mínu besta atgervi, andlega og líkamlega. Um leið og ég settist í stólinn og fann þessa þægilegu slökunartilfinningu vissi ég að ég yrði að gera þetta oftar, annars myndi ég týna sjálfri mér! En þar sem ég var í fæðingarorlofi og fjárráðin leyfðu ekki vikulegar ferðir á snyrtistofuna í dekur og slökun vissi ég að ég yrði að vera sniðug og gera þetta sjálf heima. Eftir nánari umhugsun áttaði ég mig svo á því að þetta snérist líka ekki um að komast á snyrtistofuna heldur um það að ég slakaði svo vel á. Lykillinn að slökuninni var semsagt sá að erfðaprinsinn var í pössun í stutta stund og ég fékk smá tíma út af fyrir mig til að hlaða batteríin. Ég vissi líka að hann var í góðum höndum allan tímann og hægt var að koma með hann heim á innan við 10 mínútum ef hann væri óhuggandi án mín. Ég náði mér semsagt aðeins niður með því að komast út fyrir rammann og lífið varð léttara um leið. En hvernig átti ég að fara að því að gera mitt eigið dekur? Barnið var jú alltaf þar sem ég var enda á brjósti og ég átti voða erfitt með að slaka á þegar ég vissi að hann gæti farið að gráta á hverri stundu. Ég hafði sko oft og mörgum sinnum hlaupið út úr sturtunni með sjampóið í hárinu því hann hafði einstakt lag á að fara að háorga um leið og ég var búin að setja sápuna í hárið! Eigg vissi ég þó, ég yrði að halda áfram að fá augnabliksstund fyrir mig öðru hverju. Loks tókst mér að setja saman áætlun um 2ja tíma dekurstund fyrir sjálfa mig og mun ódýrari meðferð í heildina litið heldur en á snyrtistofunni, áætlun sem ég var sátt við þar sem ég gat notið mín í rólegheitunum. Nú deili ég henni með ykkur:

1. Fáðu pössun fyrir barnið í 2 tíma hjá ættingja/vinum sem þú treystir vel. Fáðu þau til að sækja barnið og vera heima hjá sér með það eða fáðu fólkið til að fara í göngutúr með barnið í vagningum í hverfinu þínu. Pössunin ætti að vera ókeypis og það hafa bara allir gaman af því að vera með barnið í smá stund. Það er mikilvægt að barnið sé ekki heima hjá þér þannig að þú heyrir ekki ef það grætur örlítið. Og mundu það er yfirleitt hægt að hugga ungabörn án þess að gefa þeim að drekka, alla vega ef þau taka snuð og eru södd þegar þau fara að heiman. Gefðu barninu þá líka vel að drekka áður en það fer í pössun. Ef þú vilt að það sofi allan tímann, sé semsagt örugglega ekki á orginu, þá er sniðugt að velja tíma þegar barnið tekur lengsta lúrinn. Þetta getur líka átt við um börnin sem taka ekki snuð, ef þau hafa drukkið vel eru minni líkur á þau vaki í pössuninni og séu að gráta eftir foreldrunum. Mér fannst alltaf sérlega gott ef viðkomandi pössunaraðili fór í göngutúr með vagninn í hverfinu mínu því þá var svo stutt heim ef drengurinn var óhuggandi. Sem gerðist aldrei því hann svaf svo vel í barnavagninum.

2. Um leið og barnið fer skaltu láta renna í gott bað og settu olíu út í baðið. Það er sniðugt að nota afganginn af bumbuolíunni eða bara einhverja olíu sem þú átt í húsinu. Það þarf semsag ekki að vera flott eða dýr olía. Höfum lífið bara einfalt, er það ekki?

3. Á meðan er að renna í baðið skaltu útbúa tvær tegundir af skrúbbum, annars vegar fyrir andlit og hins vegar fyrir líkamann. Það er sniðugt að setja olíu (kókosolíu eða aðra sem þú átt í húsinu) og salt saman í skál og búa þannig til skrúbb. Notið annað hvort gróft eða fínt salt, það fer eftir því hvort þú ert með viðkvæma húð eða ekki. Olíu- og saltskrúbbinn er betra að nota á þurra húð, semsagt ekki beint úr baðinu, þannig að þerraðu húðina létt áður en þú skrúbbar þig. Notaðu svo hringlaga hreyfingar eða skrúbbaðu langar strokur í átt að hjartanu. Ef þú átt skrúbbhanska er gott að nota þá en það er alveg eins hægt að nota stakan gamlan íþróttasokk fyrir hanska. Svo ferðu aftur í vatnið og skolar vel af þér. Húðin verður silkimjúk á eftir. Á andlitið er hægt að nota léttan skrúbb úr haframjöli með avókadó eða banana, eða olíu ef ávextirnir eru ekki til, með smá slettu af sítrónusafa. Passið samt að nota bara lítið af haframjölinu þar sem það getur stíflað niðurföll ef það er notað í miklum mæli. Nuddið létt og varlega, húðin er oft viðkvæm á og eftir meðgöngu. Skolið vel af í baðinu.

4. Slakaðu á í alla vega korter í baðinu áður en þú ferð að skrúbba þig og hugsaðu um það sem vel er gert í lífi þínu. Hrósaðu þér upphátt eða í huganum fyrir allt sem þú gerir, hversu lítið sem það er. Láttu vellíðunartilfinninguna sem hrósinu fylgir líða mjúklega um þig. Og brostu með lokuð augun. Sniðugt er að setja gúrkusneiðar eða hráar kartöflusneiðar á augnlokin á meðan. Að því loknu skaltu skrúbba líkamann og skola vel.

5. Notaðu tækifærið nokkrum dögum fyrir áætlað heimadekur ef þú átt leið í bæinn og farðu í snyrtivörubúðir eða apótek sem eru með kynningar á snyrtivörum og fáðu prufur af andlitskremum og kremum fyrir líkamann. Sumar hárgreiðslustofur eru líka með prufur af hárvörum sem hægt væri að nota í dekrið. Safnaðu þessu saman og notaðu í dekrið þitt, þá færðu tilbreytingu frá kremum eða snyrtivörum sem þú notar hversdags. Og ekki gleyma iljunum. Gott fótakrem er æðislegt.

6. Taktu þér tíma í að raspa iljar og laga til neglur á fótum og höndum.

7. Blástu hárið þurrt, sléttu eða krullaðu, allt eftir þínu hári.

8. Lakkaðu neglur á tám og fingrum.

9. Plokkaðu/vaxaðu augabrúnir og ef þú átt augnabrúnalit þá endilega skelltu í eina hræru og litaðu þær.

10. Málaðu þig smávegis (eða mikið ef þú vilt það) og ekki gleyma að dekkja augabrúnir pínulítið. Það skerpir á andlitsdráttum og yngir. Smá farði hressir þig, bætir og kætir.

11. Klæddu þig í betri fötin.

12. Sestu svo niður með bók sem þig hefur lengi langað að lesa eða bara með tölvuna og góðan kaffibolla eða annan góðan drykk, hringu í góða vinkonu eða ættingja sem þú hefur ekki gefið þér tíma til að tala við lengi eða leggðu þig stuttlega áður en barnið kemur heim aftur.

Í þessum tveggja klukkustunda langa dekurpakka færðu slökun, dekur, frí frá amstri dagsins, sjálfsrækt og sjálfstyrkingu – allt á einu bretti án mikillar fyrirhafnar og nánast ókeypis!

Njótið vel kæru mæður,
Ingunn Ásta Sigm.

– –

Ingunn Ásta er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum sem og kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum. Þá sér hún ásamt annarri frábærri mömmu um foreldra- og ungbarnamorgna í sinni heimakirkju og er félagi í foreldrafélagi á leikskóla barna sinna. Hún á 3 börn 3ja ára og yngri og hefur mikinn áhuga á öllu sem kemur að uppeldi og menntun barnanna okkar. Markmiðið með blogginu mun verða að fjalla almennt og fræðilega um allt mögulegt sem snýr að lífi, þroska og uppeldi barna þannig að það gagnist öðrum foreldrum í foreldrahlutverkinu.

X