Loading

OFNBAKAÐ SPAGHETTI

Ragnheiður Eiríksdóttir matarbloggari skrifar:

Eins og svo margir foreldrar þá velti ég því oft fyrir mér hvort að barnið mitt sé að fá nógu mikið af grænmeti yfir daginn. En oftar en ekki getur það verið ansi strembið að koma grænmeti ofan í blessuð börnin. Hvað er þá til ráða? Jú, við förum í feluleik með grænmetið. Þessi leið er ekki alltaf sú besta, en í þessu tilfelli er hún ágæt. Ef gulrætur eru ekki á ykkar vinsældarlista þá er lítið mál að skipta þeim út fyrir eitthvað annað grænmeti, en þær koma skemmtilega á óvart!

Ofnbakað spaghetti

 • 250 gr. gulrætur, gufusoðnar og maukaðar ( að sjálfsögðu er hægt að nota hvaða grænmeti sem er)
 • 1 bakki af nautahakki (ca. 350-500 gr.)
 • 1 laukur, saxaður
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 dós af hökkuðum tómötum
 • 1 lítil dós af tómatpúrru (70 gr.)
 • ½ dl pizzasósa
 • 3dl. vatn
 • 1 tsk. hlynsíróp
 • 1 tsk. pizzakrydd
 • 1 tening af nautakraft
 • Salt og pipar eftir smekk
 • 250 gr. spaghetti (vigtað fyrir suðu)
 • 1 egg
 • ½ dl mjólk eða rjómi
 • Smá salt
 • 1 stór dós kotasæla (má að sjálfsögðu sleppa)
 • Rifinn ostur eftir smekk

Laukurinn er skorinn og steiktur í smá olíu í meðalstórum potti. Hakkinu er bætt útí ásamt smá salti og látið brúnast. Síðan er hökkuðu tómötunum, púrrunni, pizzasósunni og vatninu bætt saman við og hrært. Ég veit að hlynsíróp hljómar örugglega undarlega en það gerir algjöran gæfumun! Pizzakrydd eða jafnvel oregano er afskaplega gott í svona rétt og einn nautateningur er næstum því nauðsynlegur. Eftir að þessu er öllu blandað saman er tímabært að bæta gulrótarmaukinu. Á þessum tímapunkti er ágætt að smakka sósuna og athuga hvort það þurfi meiri salt og pipar og síðan slökkva undir pottinum og leyfa sósunni að “hvíla” á meðan spaghettíið er matreitt. Hrærið eggið og mjólkina/rjómann í stórri skál ásamt smá salti og blandið spaghettíinu saman við þegar það er næstum því soðið í gegn eða “al dente”. Setjið spaghettíið í botninn á stóru eldföstu móti og dreifið vel úr því. Því næst er kotasælunni dreift yfir spaghettíið og á eftir því fer sósan yfir allt saman. Sáldrið rifna ostinum yfir og bakið inni í ofni þar til osturinn er bráðinn. Gott er að bera réttinn fram með salati og hvítlauksbrauði. Bon appetit!

X