Loading

ÓFRÍSK AF TUTTUGASTA BARNINU

Hin amerísku Duggar hjón eru ekkert að grínast þegar kemur að barneignum. Hjónin, Jim Bob og Michelle, eru þekkt í heimalandi sínu fyrir raunveruleikaþáttinn 16 kids and counting. Hins vegar eru þau dugleg að fjölga sér og sífellt þarf að breyta titli þáttarins. Nú síðast var talan í 19 og á dögunum tilkynntu hjónin svo stolt að von væri á tuttugasta afkvæminu.

Vísitöluforeldrið hlýtur eðlilega að spyrja sig að því hvernig þetta sé hægt. Börnin eru á aldrinum 25 til 2 ára og hefur Michelle verið ófríst meiri hluti fullorðinsævi sinnar. Til að toppa vitleysuna er Michelle eins rólegasta, blíðasta og málþýðasta kona sem sést hefur á öldum ljósvakans og virðist aldrei missa stjórn á skapi sínum. Barnaskaranum stjórnar hún af mindugleik og festu og ekkert þeirra fer í skóla því hún kennir þeim öllum heima á daginn meðan að Jim Bob fer í vinnuna.

Eitt sinn sá sú sem þetta ritar þátt þar sem fjölskyldan fór saman á kristilega kvikmyndahátíð. Að sjálfsögðu þurfti rútu en ekki hafði verið útséð með hvort að Michelle kæmist með af því að hún átti þá von á sínu 18 barni. Unginn mætti blessunarlega aðeins of snemma í heiminn þannig að Michelle komst með. Til að fæða barnið var hún með það á brjósti á sérstökum púða sem festur var utan um hana og til að gæta velsæmis var hún klædd í flík sem minnti helst á sirkustjald. Þannig smalaði hún börnunum áfram og verður að segjast eins og er að þetta var ótrúleg sjón. Ekki má heldur gleyma því að Michelle er orðin amma þar sem elstu börnin eru einnig farin að fjölga sér eins og enginn sé morgundagurinn.

En semsagt – venjulegir vísitöluforeldrar geta hætt að kvarta – ef að Michelle Duggar getur séð um tuttugu börn án þess að blása úr nös þá eigum við hin okkur ekki viðreisnarvon …

X