Loading

ÓFRÍSK KONA Í SJÁLFSVÍGSHUGLEIÐINGUM KÆRÐ FYRIR MORÐ

Kona í Indiana-fylki í Bandaríkjunum hefur verið kærð fyrir morð á ófæddu barni sínu eftir að hafa reynt að fremja sjálfsvíg meðan hún var ófrísk.
Bei Bei Shuai, sem er 36 ára gömul, var miður sín eftir sambandsslit og ákvað að fyrirfara sér. Hún var þá gengin átta mánuði. Innbirti hún nokkuð magn af rottueitri en læknum tókst að bjarga lífi hennar og töldu að ófædd dóttir hennar væri einnig í lagi. Dóttirin fæddist nokkrum dögum síðar og dó af völdum heilablæðinga þremur dögum síðar.

Nú hefur Bei Bei verið ákærð fyrir morð á dóttur sinni og halda saksóknarar því fram að í sjálfsmorðbréfi sem hún skrifaði hafi ásetningur hennar komið skýrt fram en þar segist hún ætla að enda eigið líf sem og líf barnsins.

Málið hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð enda ljóst að málið setur sögulegt fordæmi sem gæti haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir réttindi kvenna. Nú þegar hafa yfir 11 þúsund undirskriftir safnast til stuðnings Bei Bei inn á vefsíðunni change.org. en Brooke M Beloso, aðstoðarprófessor í kynjafræði við Butler háskólann í Indianapolis hóf undirskriftarsöfnunina. Hún hefur meðal annars sagt að þetta mál setji hættulegt fordæmi þar sem það breyti konum í gangandi leg sem séu undir stöðugri stjórnun og eftirliti yfirvalda. Konur missi forræði yfir eigin líkama meðan á meðgöngu stendur.

Heimild: NBCnews.com

X