Loading

Ófullkomna mamman

Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn hafði ég ákveðna hugmynd um foreldrahlutverkið. Ég ætlaði að vera mamman sem yrði alltaf brosandi og glöð með óbilandi þolinmæði og ætlaði sko aldrei að skamma barnið mitt. Ég skildi tala og útskýra á rólegan og yfirvegaðan hátt.

Ekki vissi ég þá hvað ég var að fá í hendurnar, já þetta segi ég með bros á vör, því annað kom á daginn. Ekki vissi ég þá að þetta yrði stærsta og mest krefjandi verkefni sem ég myndi taka mér fyrir hendur. Til að mynda byrjaði hann að standa upp sex mánaða og tók fyrstu skrefin átta mánaða og já, þetta setti svolítið línurnar hvað koma skyldi. Hann var orkubolti og skemmtilegur með eindæmum, snöggur, hvatvís og orðið nei var ekki til í hans orðabók. Hann gerði bara það sem hann ætlaði sér og ef mamma ætlaði að segja nei þá bara brosti hann framan í mig og hélt áfram.

Leikskólagangan gekk vel framan af. Hann var í miklu uppáhaldi hjá flestum fóstrum, en mikið fiðrildi var hann. Á síðasta leikskólaárinu fór að bera meira á hegðunarvandamálum, hann fylgdi ekki fyrirmælum, var farinn að slá frá sér, bíta og meira að segja strauk einu sinni, fór yfir girðinguna.
Næsta sem tók við var skimun eins og það er kallað, eða frumgreining. Já barnið greindist með ADHD. Hjartað sökk.

Þó svo okkur grunaði að eitthvað væri þá er þetta alltaf ákveðið sjokk. Að fá að heyra að barnið þitt er ekki „normal” þetta er orð sem ég tileinka mér ekki, það að vera normal er ekki til.

Næsta áskorun, skólagangan!

Í dag skellir maður nú bara uppúr yfir öllu sem gekk á í 1. bekk. Barnið mitt var ekki til staðar í 1. bekk, hann var annaðhvort á göngunum eða fela sig, hann vissi hvað hver og einn í skólanum hét með nafni og allir vissu sko hver sonur minn var og í frístund fékk ég símtal lágmark einu sinni í viku um að barnið væri týnt. Eftir nokkur símtöl var maður orðin ansi sjóaður í þessu og ef má segja nokkuð kærulaus „já, já, hann er þarna einhversstaðar”. Þá var hann búinn að fela sig eða kominn upp á þak á skólanum. Alltaf með bros á vör. Ef það hefði ekki verið fyrir þetta yndislega starfsfólk í skólanum sem tók honum eins og hann var þá held ég að viðhorfið manns hefði verið aðeins öðruvísi.
Í lok 1. bekk var kominn tími á greiningu og fékk hann akút afgreiðslu hjá skólasálfræðingnum, sem var jafn yndislegur og allt hitt starfsfólkið í skólanum.

Við vissum nokkurnvegin hverju við áttum von á. Greiningin hljóðaði svo: ADHD, mótþróaþrjóskuröskun (ODD) og ýmsar hegðunarraskanir.
Hjartað sökk. Aftur. Þetta venst aldrei.

Mótþróaþrjóskuröskun, hvað er það nú?! Jú, einfaldasta útskýringin: Þver og þrjóskur (mögulega aðeins flóknara en það). Mótþróaþrjóskuröskun er í rauninni afneitun við hverskonar yfirvaldi; aðilinn gerir það sem hann vill þegar hann vill.
Næsta ákvörðun var, lyf eða ekki lyf?

Ég ætlaði sko ekkert að setja barnið mitt á lyf. Ætlaði sko ekki að fara dópa eða deyfa barnið! Já, í dag sé ég hvað þetta er röng hugsun.
En við ákváðum að prufa.

Við tókum greinilega hárrétta ákvörðun, rétt ákvörðun fyrir hann. Hann byrjaði á lyfjum í maí en þá las hann 25 orð á mínútu. Um haustið þegar hann mætti í skólann efitr sumarfrí las hann 75 orð á mínútu.

Í dag er hann í 6. bekk og hefur dafnað þokkalega. Þetta skólaár hefur verið það erfiðasta hingað til, námið þyngist og vinunum fækkað. Hann er elskaður í ræmur og er fullkominn í okkar augum.

Að eiga barn með raskanir er mikil áskorun og þær hugmyndir sem ég hafði um móðurhlutverkið voru svo allt aðrar en raunin var. En það er allt í lagi að vera ekki alltaf brosandi, þolinmóða mamman sem talar alltaf í rólegum og yfirveguðum tón því þegar á botnin er hvolft þá koma ekki leiðbeiningar með barninu og öll erum við mannleg og lærum á meðan við lifum.

Það er í lagi að vera ófullkomin mamma.

– – –

Ég heiti Kolbrún Eva og er 30 ára tveggja barna móðir. Ég á yndislegan og krefjandi ellefu ára dreng með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og allt sem fylgir því. Hann fittar ekki alveg inn í normið og lífið er oft mikil áskorun. Síðan á ég níu ára mjög svo ákveðna stúlku.

Einnig á ég yndislegan mann sem jafnframt er faðir barnanna minna, kletturinn minn og stuðningspúðinn minn. Það getur oft gengið mikið á á mínu heimili en við erum líka með tvo hunda á heimilinu sem við köllum ellilífeyrisþegann og öryrkjann. Annar er gamall blendingur og hinn er franskur bolabítur með þrjár lappir. Að lokum er það drottningin á heimilinu; kisan Solla.

Það sem ég mun skrifa hér er allt milli himins og jarðar sem er aðallega foreldrahlutverkið og að ala upp barn með raskanir og hvaða áhrif það hefur á systkini og fjölskyldulífið, sem getur verið ansi skrautlegt.

– – –

Langar þig að verða bloggari?

Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórkemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora@foreldrahandbokin.is

X