Loading

Ofurmamman

Móðurhlutverkið eins og annað sem við tökum okkur fyrir hendur í lífinu gengur svona misvel eftir dögum.

Allavegana hjá mér. Suma daga eru allir í hreinum fötum og búnir að borða morgunmat klukkan 7:30. Nestið er fullkomlega glúten-, sykur- og allslaust og ræktað af sjaldgæfum fuglum í Himalayafjöllunum á heilögum akri. Allir fara með heimavinnuna unna og íþróttafötin í töskunni. Allir koma glaðir heim og enginn fer að rífast og allir mæta á rétta staði á réttum tíma og húsið er alveg instagram hreint og fullkomið. Kvöldmaturinn tilbúinn á réttum tíma, mega hollur, allir borða vel og eru kurteisir og læra svo heima og leika sér fallega og allir sofnaðir klukkan átta!

Suma daga fer eitt barn út í blettóttum bol af því þetta var eini fokking bolurinn sem krakkinn vildi vera í og þú bara nennir ekki að tuða. Nestið var keypt í búð eftir miðnætti þegar þú fattaðir að það væri ekkert til fyrir nestið daginn eftir og samanstendur af því sem var til í búðinni á þeim tíma. Eitt barn gleymir íþróttafötum og annað skilur lestarbókina eftir heima. Hitt barnið kemur heim og segist ekki hafa verið með nesti (því það gleymdist að setja það í töskuna). Húsið er þannig útlítandi að ef einhver ættingi myndi banka þá væri fyrsta hugsun að fela börnin undir rúmi og þykjast ekki vera heima frekar en að hleypa nokkrum manni inn!

Flestir dagar eru svo einhverskonar sambland af þessum tveimur.

Allar erum við samt örugglega með í höfðinu einhverskonar „ofurmömmu” hugmynd sem við berum okkur saman við og reynum að líkjast á hverjum degi. Hvort sem það er einhver tilbúin hugmynd sem við höfum í hausnum eða raunveruleg manneskja. Allavegana hef ég einhverja svona óljósa glansmynd um hvernig mér finnst að mamma eigi að vera.

Átti þannig dag um daginn að mér fannst ég bara pínu ofur! Mjög upptekinn dagur og miljón hlutir að gera en einhvernvegin tókst bara að púsla öllu sem þurfti að gera, vera á fimm stöðum í einu. Allir lærðu heima, fóru í bað allir sofnuðu þokkalega snemma, húsið var bara eins og eftir litla borgarastyrjöld ekki stórt stríð og mér fannst ég bara aaaaalveg vera með þetta hlutverk!

Svo lagðist ég upp í rúm og ætlaði að fara að sofa. Þá allt í einu eins og gerist oft kviknaði á heilanum sem fór að hugsa á milljón (ADHD góðan daginn). Tilfinningin sem ég hafði haft um hvað ég væri nú alveg með þetta hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar ég mundi allt í einu að ég hafði gleymt að fara með yngsta barnið í læknistímann sem hún átti pantaðann. Fokk, hver bara gerir svoleiðis, hugsaði ég. Á eftir fylgdu ansi margar misgóðar hugsanir um hversu mikill auli ég gæti verið og hvað ég væri svo enganvegin með þetta foreldrahlutverk á hreinu! Af því að hverskonar foreldri bara gleymir einhverju svona?? Ætlaði svo aldrei að ná að sofna eftir þetta og frábæra tilfinningin sem ég fór með upp í rúm fylgdi mér sko ekki í draumalandið.

Daginn eftir fór ég aðeins að hugsa þetta betur og hvort það mögulega gæti verið að ég gerði of miklar kröfur til mín? Aldrei nokkurtíman hefði ég hugsað það sem ég hugsaði um sjálfa mig ef þetta hefði verið vinkona mín að segja mér að hún hefði gleymt einhverju svona. Mér hefði aldrei fundist hún vera lélegra foreldri fyrir eitthvað svona. Bara upptekin kona með margt að gera og allir geta gleymt einhverju.

Reynum að gera ekki of miklar kröfur á okkur, það er enginn fullkominn.

Sif

X