Loading

OKKAR AÐ HAFA VIT FYRIR BÖRNUNUM

Bókin Heilsuréttir fjölskyldunnar kom út í síðustu viku og hefur heldur betur slegið í gegn. Höfundur hennar, Berglind Sigmarsdóttir, er fjögurra barna móðir sem að tók matarræði fjölskyldunnar í gegn eftir að elsti sonur hennar greindist með tourette sjúkdóminn. Bókin er þó hugsuð fyrir alla þá sem hafa áhuga á hollu og góðu matarræði og vilja tileinka sér heilbrigðari lífstíl. Eiginmaður Berglindar, landsliðskokkurinn Sigurður Gíslason, fékk síðan að hjálpa til eftir þörfum en Berglind segir að það hafi verð hentugt að hafa kokk í kallfæri þegar svo bar við. Fjölskyldan hafi alla tíð aðhyllst hollt matarræði en eftir greiningu sonarins hafi hún tekið það skrefinu lengra. Hún segir markmið bókarinnar hafa verið að auðvelda fólki aðgang að hollum uppskriftum sem henti allri fjölskyldunni en sjálf hafi hún lent í mesta basli þegar hún var að prófa sig áfram á sínum tíma. Bókin sé því samansafn af uppáhalds uppskriftum fjölskyldunnar.

Nú hefur mikið verið talað um í fjölmiðlum að kveikjan að bókinni hafi verið veikindi sonar þíns sem greindist með Tourette – er bókin eingöngu hugsuð fyrir tourette sjúklinga eða er markhópurinn stærri?
Nei, bókin er alls ekki bara fyrir tourette sjúklinga, hún er fyrir alla. Alla þá sem vilja borða næringarríkan mat sem er girnilegur og djúsí. Hún er hugsuð fyrir alla fjölskylduna. Það vill oft vera þannig að mamman er í einhvejru átaki eða pabbinn og fjölskyldan er að borða sitt á hvað. Ég á sjálf fjögur börn og mig langaði að maturinn væri þannig að allir gætu borðað saman hollan og bragðgóðan mat. Mér finnst líka svo mikilvægt að við reynum að halda í það að fjölskyldan borði saman a.m.k. eina máltíð þar sem allir eru saman og ræða daginn og veginn yfir matnum. Við foreldrar gerum oft ráð fyrir því að börn borði ekki eitthvað og sleppum því að bjóða þeim það. Það getur verið að þau hafi neitað því einhverntímann en það þarf stöðugt að vera að bjóða þeim og láta þau smakka. Þetta er vinna, en hún er vel þess virði.

Fyrir fólk sem vill breyta lífstílnum – hverju er best að byrja á?
Byrja á að skipta út hægt og rólega úr fínu mjöli yfir í gróft þá úr hvítu hveiti yfir í heilhveiti eða spelthveiti, hvítu pasta yfir í heilhveitipasta eða speltpasta, hvítum hrísgrjónum yfir í brún, minnka sykur og auka grænmeti og ávexti. Hvert skef skiptir máli. Fólk ætlar oft að gera þetta allt í einu og svo springur allt og allt fer í sama farið. Þessar beytingar þurfa að vera meðvitaðar, setja sér markmið svo þetta renni ekki útí sandinn. Í bókinni er ég með þessi skref, hverju er best að skipta út og hvernig sé best að gera svona breytingar þegar maður er með börn. Börn eru mjög vanaföst og vilja ekki miklar breytingar í einu.

Hvað myndir þú segja að væri helsti skaðvaldurinn í matarræði okkar og kannski helsti misskilningurinn í matarmenningunni hér á landi?
Mesti skaðvaldur er tvímælalaust sykur og hvítt hveiti. Ég held að við borðum og drekkum of mikin sykur og borðum of mikið fínt brauð. Sykur leynist víða, og við og börnin okkar ánetjumst honum. Meiri sykur kallar á enn meiri sykur. Þetta með laugardagsnammið var mjög falleg hugmynd hér einu sinni en því miður er hún hjá mörgum gengin útí einhvern hrylling. Það stendur hvergi í barnasáttmálanum að börn eigi rétt á laugardagsnammi. Það er svo vel hægt að gera vel við börnin sín á annan hátt, poppa á gamla mátann, búa saman til hrákökur úr möndlum og öðru eins næringarríku, búa til heimagerðan ís eða íspinna. Allt er þetta bragðgott og skemmtilegt að útbúa saman og svo mikið betra en einhverjir gúmmí ormar sem enginn veit hvað innihalda, jú – a.m.k sykur og litarefni. Fólk ætti líka að skoða mjólkurvörurnar vel. Það sem fólk heldur að sé hollt er það því miður ekki alltaf.

Hversu mikilvægt er það að huga vel að matarræði barnanna (og fjölskyldunnar allrar)?
Það mikilvægasta er að skapa góðar venjur. Við erum svo vanaföst. Það er svo auðvelt að gera þetta strax, að skapa góðar venjur og kenna börnunm afhverju það á að velja hollt. Þetta er rosalega stór og falleg gjöf sem foreldrar hafa tækifæri á að gefa börnunum sínum. Stundum þurfa foreldrar að standa á móti straumnum. Óhollur matur er markaðssettur fyrir börn. Virnir barnanna fá þetta og hitt. En við verðum bara að minna okkur á það að það er okkar að hafa vit fyrir börnunum.
Hvernig er sonur þinn í dag?
Sonur minn er 98% laus við alla kæki sem hann var með. Áður var hann með nokkra kæki á mínútu. Bæði hreyfikæki og hljóðkæki. Það líða margir dagar á milli þess sem við sjáum kæk. En það er þá bara við sem tökum eftir því, því það er þá bara hóst eða augnblikk eða eitthvað mjög fyrirferðalítið. Þetta hafði líka mikil áhrif á kvíða sem hann var með sem er nú alveg horfinn og almenna líðan sem er ekki síður mikilvæg en kækirnir.

Hvað myndir þú ráðleggja fólki sem ætlaði að leggja upp í þessa lífstílsbreytingu (eða taka matarræðið alveg í gegn eins og þú gerðir hjá syni þínum)?
Skipuleggja sig. Reyna að plana fram í tímann; hvað á að borða og eiga til hráefni í það. Þetta er langhlaup og maður lærir á þetta jafn óðum. Maður gerir að sjálfsögðu mistök, maður kaupir einhvern mat sem að er með einhverju í og þá er bara að svekkja sig ekki um of á því heldur halda áfram. Það er ekki allt ónýtt þó eitthvað hafi klikkað. Þetta er að sjálfsögðu ýkt og ég er almennt á móti öllu ýktu en þegar svona er eins og með Sigmar og hans sjúkdóm þá þarf það að vera ýkt svo það náist árangur. Það er sagt að það taki líkamann 4-6 mánuði að hreinsa sig. En núna líka eftir eitt ár er hann farinn að þola betur mat sem hann þoldi ekki áður svo hann getur leyft sér smá frí inn á milli, þegar hann fer í afmæli eða eitthvað sérstakt stendur til. Hann fær sér þó ekki nammipoka eða gos. Hann sjálfur finnur þetta út.

Er nauðsynlegt að umturna öllu eða er nóg að gera þetta í smáskrefum?

Það er best að gera þetta í skrefum. Þetta eru miklar breytingar fyrir líkamann. Sérstaklega að taka út allan sykur. Við tókum þetta í skrefum, en í þó nokkuð ákveðnum skrefum samt.

Ef þú þryftir að ráðleggja manneskju að breyta bara einhverju einu – hvað væri það?

Skoða hvernig sykur hann/hún er að borða og hversu mikin. Þar með talin gervisykur eins og er sett í diet drykki og annað sem merkt er sykurlaust eða sykurskert og athuga hvað er sett í staðinn.

Nú hefur bókin fengið ótrúlegar viðtökur og á Facebook síðu hennar rignir inn hamingjuóskum og athugasemdum frá fólki sem hefur eldað upp úr henni og er yfir sig hrifið – myndir þú segja að það hafi verið þörf fyrir svona bók í dag og finnst þér hún í takt við þjóðfélagsumræðuna?
Ég er ótrúlega þakklát fyrir viðbrögðin og já, ég held að það hafi verið þörf fyrir svona bók því ég held að öll viljum við borða hollt og gefa börnunum okkar næringarríkan mat. Ég held að fólk hafi séð það á facebook myndunum að þó maturinn sé hollur geti hann vel verið jafn girnilegur og óhollur matur og þegar það prófar þá kemst það að því að hann er líka góður. Þegar ég var byrjuð á bókinni kom líka upp þessi listi að við Íslendingar værum næst feitasta þjóð heims. Ég held að við séum öll að gera okkur grein fyrir þvi að við og börnin okkar séum að verða of feit. Annað sem fólk er að gera sér betur grein fyrir eru þessi tengsl milli fæðu og ýmissa kvilla og sjúkdóma. Það eru mörg börn í dag með einhversskonar óþol og ofnæmi. Það berast niðurstöður úr rannsóknum á tengsl milli omega-3 og ofvirkni, athyglisbrests. Ég veit um marga sem hafa haft gigt og ýmsa aðra sjúkdóma sem hafa öðlast nýtt líf með breyttu mataræði. Líkaminn okkar gengur fyrir mat, það væri óeðlilegt ef það skipti ekki máli hvað við settum ofan í hann. Margt af því sem við kaupum tilbúið í pökkum útí búð og borðum er bara eitthvað drasl sem líkaminn veit ekkert hvað hann á að gera við. Á meðan við kaupum þetta drasl er það framleitt. Við eigum að gera kröfur á hreinan og heilnæman mat og það á við í skólamötunueytum og allsstaðar. Við eigum að næra líkamann okkar og koma í veg fyrir sjúkdóma í stað þess að taka bara lyf þegar hann fer að gefa eftir.

Nú áttu börn á öllum aldri (1 1/2 árs til 12 ára) – borða þau öll heilsuréttina þína?
Já, þau borða allt í bókinni. Það er misjafnt hvað hverjum og einum finnst betra en annað. Stundum vill einn ekki klettasalat á sinn kjúklingaborgara en hann vill þá gúrkur og papriku í staðinn. Ef börn eru alin upp við hollan mat frá því þau eru ungabörn þá er þetta ekkert mál. Eftir því sem þau eru eldri getur þetta verið erfiðara. Líkaminn kallar á sykur. Þess vegna er svo mikilvægt að við venjum þau á að borða hollt og lítinn sykur. Það er erfiðara að snúa þess við, en það er að sjálfsögðu vel hægt. Bara að það sé gert í skrefum.

Hvað er uppáhalds?
Þeim finnst kjúklingakoddarnir, kalkúnaborgararnir og svo grænmetisrétturinn Chili sin carne. Þau eru hoppandi glöð ef þau vita að þetta er í matinn. En þeim finnst allt hitt líka gott.

– –
Vilt þú vinna eintak af bókinni? Skráðu þig á póstlista Foreldrahandbókarinnar og þú gætir unnið eintak.

X