Loading

ÖKUMENNIRNIR Í KÁTUGÖTU

Við fáum reglulega sendar bækur um krakkana í Kátugötu. Dóttirin elskar þegar bækurnar renna inn um lúguna og við eyðum næstu dögum í að lesa okkur til um umferðarreglurnar og hvað innipúkinn er mikill innipúki og vitlaus í umferðinni. Hann er alltaf næstum því – eitthvað. Til dæmis næstum því lentur fyrir bíl sem keyrir á ofsahraða framhjá.

Bækurnar eru vinsælar og mikið lesnar á heimilinu. Það er ekki laust við að eftir áttunda lestur eflist maður í að vara börnin við bílunum í umferðinni.

„Passaðu þig”

„Gættu þín”

„Það gæti komið bíll- varaðu þig”

„Það gæti komið BÍLL”

„Farðu ekki svona nálægt götunni”

„BÍLL- hlauptu”

og litla stúlkan sem er að feta sín fyrstu skref í umferðinni ekki sama taugahrúgan og mamman sem er varla viðræðuhæf og langar mest að flytja upp í sveit fjarri allri umferð.

Við leggjum ofuráherslu á að litla stúlkan, þessi sem er fjögurra ára, passi sig, bílarnir sýna enga grið. Hún er ósköp góð í umferðinni, umburðarlynd, þolinmóð og passar sig en hún er auðvitað bara barn og gleymir sér enn við leik. Því er ég alltaf jafn hissa þegar ég átta mig á því að oft er eins og ökumenn viti engin deili á krökkunum í Kátugötu. Kannski væri réttast að senda ökumönnum þessa lands sína bók um Kátugötu, hún gæti heitið eitthvað á við ,,ekið í rólegheitum um Kátugötu” eða ,,ábyrgi bílstjórinn í Kátugötu” og allir með ökuskírteini fengju hana í hendurnar. Við pössum barnið nefnilega vel en getum ekki haft sömu gætur á öllum ökumönnum sem á vegi okkar verða.

Í bókinni fyrir ökumenn mætti af sömu alúð, og lagt er upp með fyrir börnin, gera sögu um tillitsama ökumanninn, sem ekur um götur í íbúðahverfum af ábyrgð og samkvæmt merkingum.

Fyrstu síðurnar gætu farið í að ítreka mikilvægi þess að stoppa við gangbraut, enginn ökumaður ætti að vera á of mikilli hraðferð til að geta hleypt barni yfir gangbraut. Svo væri gott að minna á að hámarkshraði t.d. 30 í götum er ekki settur til þess að tefja ökumenn eða fara í taugarnar á þeim heldur frekar til að vernda börn og gangandi vegfarendur. Þá mætti undir lokin benda á að götur merktar vistgötur gera ráð fyrir aksturshraða 15 km og ökumenn eru sérstaklega beðnir um að huga að því að börn geta verið að leik á götunni og að alla jafna á ökuhraði í vistgötu ekki að vera meiri en gönguhraði.

Lok bókarinnar gæti svo farið í að útskýra hve hræðilegt það er þegar ekið er á barn (nú eða einhvern) og hvernig það gerðist næstum því en sem betur fer sluppu allir. Og svo brandari til að allir muni hvað bókin er frábær.

Svo lesa allir ökumenn bókina, aftur og aftur og aftur og börnin hlusta endurtekið á ævintýrin um krakkana í Kátugötu og saman sköpum við umhverfi sem er öruggara og afslappaðara fyrir alla.

– –

Soffía Bæringsdóttir er kennari, doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X