Loading

ORÐLAUS YFIR VIÐBRÖGÐUNUM

Fæðingarþunglyndi hefur í gegnum tíðina ekki verið mikið til umfjöllunar þrátt fyrir að um 14% nýbakaðra mæðra þjáist af því. Ein þeirra er Helga Eir Gunnlaugsdóttir sem var búin að þjást lengi áður en hún áttaði sig á því hver vandinn raunverulega var. Svo mánuðum skipti háði hún hetjulega baráttu fyrir hamingjunni og er í dag búin að ná fullri heilsu. Hana langaði að deila sögu sinni í þeirri von um að hún gagnaðist fleirum sem í hennar sporum kunna að vera og því settist hún niður og skrifaði pistilinn Fæðingarþunglyndi sem birtist hér á Foreldrahandbókinni.

Hún átti þó engan vegin von á þeim viðbrögðum sem að greinin hefur vakið og hefur póstur og hlýjar kveðjur streimt til hennar úr öllum áttum. „Vinir og fjölskylda senda hlýja pósta þar sem þau hrósa mér fyrir að stíga fram og deila reynslu minni – bæði fyrir sjálfa mig og til að hjálpa öðrum. Það yljar mér mikið þar sem ég var hálf stressuð yfir að allt í einu myndu allir vita mitt dýpsta leyndarmál. Eins hefur pistlinum mikið verið deilt á Facebook,” segir Helga.

„Ég hef nú þegar fengið tölvupósta frá konum sem þakka mér fyrir að opna augun þeirra, þar sem þeim líður eins og þurfa hjálp. Eins hafa aðrar glímt við fæðingarþunglyndi og þakka mér fyrir að opna umræðuna. Ég mun svo sannarlega svara þeim fljótt,” bætir Helga við en henni fannst mikil þörf á að opna umræðuna um fæðingarþunglyndi og vinna gegn fordómunum gegn því. „Ég fann að ég var sjálf með fordóma og nær eingöngu gagnvart sjállfri þegar ég var að berjast við veikindin, en þeir eru svo sannarlega ekki til staðar lengur. Ég finn enn meir fyrir að við þurfum að halda þessari umræðu gangandi því að lenda í svona veikindum er svo hræðilega erfitt.”

Helga segist vilja hjálpa öllum þeim sem hún geti og hún sé meira en tilbúin að hitta stelpur og spjalla við þær, kjósi þær það. „Það er svo vont að líða svona illa og svo gott þegar maður loks sigrast á þessu.”

Helga segir jafnframt að skrif greinarinnar hafi hjálpað henni sjálfri og auki í kjölfarið skilning meðal vina og ættingja á því hvað hún er búin að ganga í gegnum. „Mest hefur þó greinin hjálpað sjálfri mér, að skrifa hana og opinbera mig er hreinlega hluti af mínu bataferli. Ég held og vona að fólkið í kringum mig sýni meiri skilning á því hvernig ég var síðasta árið, því ég sinnti engum og vildi vera í friði.”

Hægt er að hafa samband við Helgu í gengum netfangið helgaeirg@gmail.com

X