Loading

Ótrúleg mynd af sigurkufli

Það er fremur sjaldgæft að börn fæðist í sigurkufli en það kallast órofin fósturhimna sem jafnframt er oft kallað líknarbelgur. Það þykir mikið gæfumerki (eða þótti) en eins og áður segir er það fremur sjaldgæft – og enn sjaldgæfara að það náist á mynd.

Það er ljósmyndarinn Daniela Justus á heiðurinn af þessari mynd sem alveg hreint ótrúlega falleg.

Á Vísindavef HÍ kemur fram:

Samkvæmt Íslenskri orðabók í ritstjórn Árna Böðvarssonar merkir orðið sigurkufl ‘(órofin) fósturhimna utan um nýfætt barn’.

Fósturhimnan eða líknarbelgurinn er belgur sem umlykur fóstur ásamt legvatni í móðurkviði. Við fæðingu rofnar belgurinn yfirleitt og kemur út ásamt fylgjunni eftir að barnið er fætt. Stundum gerist það þó að barnið er enn í líknarbelgnum þegar það fæðist, ýmist að hluta til eða umlukið honum. Þótt talað sé um sigurkufl sem „órofna” fósturhimnu er himnan varla órofin í strangasta skilningi þar sem illa gengi væntanlega að fæða barnið ef legvatnið hefði ekki fengið að leka út fyrst.

Það að fæðast í sigurkufli hefur löngum verið talið gæfumerki víða um heim. Sumstaðar hefur það einnig verið álitið forboði skyggnigáfu.