Loading

ÓTTINN VIÐ UNGBARNAEFTIRLITIÐ

Hjúkrunarfræðingurinn horfði á mig alvörugefnum augum. „Fimm segirðu,” sagði hún og starði á tölvuskjáinn. Ég fann hvernig hjartslátturinn varð örari og bjó mig undið það versta. Fimm hugsaði ég með mér og vissi að ég var að ljúga. Samt var hún svona á svipinn og ég sem hafði tvöfaldað töluna í þeirri von að engin athugasemd kæmi.

Ég er stödd á heilsugæslustöðinni þar sem fram fer hefðbundin 18 mánaða skoðun á dóttur minni. Ég með kvíðahnút í maganum – ég veit samt ekki af hverju. Kannski er það óttinn að eitthvað sé að barninu mínu. Samt veit ég vel að það er ekkert að henni – eða það hélt ég. Núna er ég ekki viss og finn fyrir lamandi ótta. Það vill jú enginn að það sé eitthvað að barninu þeirra.
Hefðbundin skoðun gengur vel en dóttir mín er ekki á því að skemmta hjúkrunarfræðingnum með einhverju kubba standi og vandræðalega stama ég því út úr mér að hún sé svakalega flink að kubba, hún sé bara ekki í stuði. Hjúkrunarfræðingurinn brosir fallega til mín – ég kann ofslega vel við hana og hef þekkt hana í fjögur ár – eða allt frá því að hún kom heim til mín í ungbarnaeftirlitið þegar sonur minn var nýfæddur.

„Fimm orð,” endurtekur hjúkrunarfræðingurinn og ég panikka. „Hvert er meðaltalið, spyr ég hana og hún svarar: „Sex til ellefu. Finnst þér hún heyra illa?” spyr hún mig. „Nei,” svara ég og minnist þess þegar ég læddist inn í herbergið hennar að kvöldlagi og rak fótinn í dúkku sem ropaði. Dóttir mín vaknaði eins og skot. „Nei,” segir ég fullviss, „hún er pottþétt ekki heyrnalaus.” Þetta er sem sagt ekki nógu gott. Dóttirin segir bara fimm orð (sem eru bara þrjú í alvörunni) og mér líður eins og ég sé versta mamma í heimi.
Ég byrja strax að afsaka mig. „Sko, þetta er tæknilega séð mér að kenna. Ég er ekki að eyða neinum tíma með henni í lestur og annað slíkt. Bara búið að vera svakalega mikið að gera, og veikindi, og maðurinn minn í útlöndum, og vont veður þú veist en ég skal bæta mig – ég lofa,” svara ég eins og algjör aumingi en samt finnst mér það miklu betri tilhugsun að ég sé hræðileg móðir heldur en að það sé eitthvað að barninu mínu. Já, þetta hlýtur að vera mér að kenna. Hjúkrunarfæðingurinn brosir góðlátlega til mín og við ákveðum að hittast á ný eftir þrjá mánuði til að kanna hvort einhver framför hafi orðið.

Áður en lengra er haldið langar mig að slá ákveðinn fyrirvara. Ég er einlægur aðdáandi ungbarnaeftirlitsins hér á landi og er einstaklega þakklát fyrir að búa í landi þar sem boðið er upp á slíka þjónustu. Ég hef nefnilega prófað hitt – að búa í landi þar sem heilbrigðiskerfið er í molum og það er eitthvað sem enginn vill reyna. Að sjá örvæntingafulla móður betla út á götuhorni í þeirri vona að hún muni einhverntíman ná að skrapa saman þeim fjármunum sem þarf til að bjarga lífi barnsins hennar er skelfilegt – svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.
Að því sögðu þá vík ég sögunni aftur að íslenska ungbarnaeftirlitinu og nokkrum augljósum annmörkum. Þeir felast þó ekki í eftirlitinu sjálfu heldur fremur þekkingarleysi foreldra (og endrum og eins starfsmanna eftirlitsins). Til að útskýra mál mitt ætla ég að benda á tvennt.

Í fyrsta lagi er það fyrirbærið meðaltal. Meðaltal er tilkomið vegna þess að sumir eru hærri, þyngri, segja fleiri orð – allt eftir því hvað verið er að mæla. Svo eru hinir sem skora lægra – eru seinni að læra að tala, ganga, þyngjast ekki nægilega hratt eða eru bara léttir frá náttúrunnar hendi.

Foreldrar og heilbrigðisstarfsmenn bera oft óttablandna virðingu fyrir þessu blessaða meðaltali og súpa hveljur af hryllingi ef að barnið skorar undir meðaltali. Þá hlýtur eitthvað að vera að. Rétt eins og dóttir mín með fimmuna sína. Börn eru misjöfn getulega séð og þess vegna er reiknað út meðaltal – til að hafa einhverja tölfræði til að styðjast við. Það þýðir ekki að öll börn eigi að fylgja meðaltalinu nákvæmlega… bara alls ekki. Þyngd og vöxtur barnsins á að fylgja ákveðinni kúrfu og ef að barni er að stækka og þyngjast hlutfallslega rétt er allt í góðu lagi. Það sama á við um málþroska og hreyfigetu. Sum börn byrja að ganga um tíu mánaða aldur á meðan önnur haggast ekki fyrr en þau eru orðin 18 mánaða. Þess vegna er reiknað út meðaltal! Og já, bæði er eðlilegt.

Í ungbarnaeftirlitinu fer fram skimun og fyrir það ættu allir foreldrar að vera þakklátir. En í leiðbeiningaritinu um ungbarnaeftirlitið sem allir heilbrigðisstarfsmenn hafa undir höndum (og allir foreldrar hafa aðgang að) stendur skýrum stöfum að foreldrar skipi veigamikinn þátt í eftirlitinu enda þekki þau barnið best. Auk þess verði að taka tillit til þátta á borð við hvort að barnið sé illa fyrir kallað og sé þar að leiðandi ekki að sýna rétta getu. Sé barnið í tómu rugli í skoðuninni sé rétt að bóka aðra skoðun að tíu dögum liðnum.
Í öðru lagi er það undirbúningur. Rétt eins og þegar fólk fer í próf þá lærir það fyrir það. Ungbarnaverndin er svipuð. Þar eru lögð fyrir próf og þegar kemur að orðaforðanum er nauðsynlegt að börnin hafi einhverntíman áður heyrt orðið. Það er ekker sjálfgefið að fjögurra ára barn viti hvað kjálki er ef að enginn hefur útskýrt það fyrir þeim.

Þannig að…

Fyrir tveggja og hálfs árs skoðunina er nauðsynlegt að kunna eftirfarandi:

• Skírnarnafn, kyn og aldur.
• Þekkja þessa líkamshluta: Fingur, tennur, tær, háls, maga og þumalfingur.
• Þekkja þessa hluti: Eldavél, úlpa og litur.
• Þekkja meginhugtök á borð við stór/lítill og einn í viðbót.
• Þekkja þessa liti: rauður, blár, grænn, gulur og appelsínugulur.
• Þekkja þessar myndir: Tré, fugl, bolli, litur og sokkur.
• Þekkja fleirtölu og þátíð.

Fyrir fjögurra ára skoðunina er nauðsynlegt að kunna eftirfarandi:

• Skírnarnafn, fullt nafn, aldur og heimilisfang.
• Þekkja þessa liti: Rauður, blár, grænn, gulur, appelsínugulur, fjólublár, brúnn, svartur, bleikur og grár.
• Þekkja þessar myndir: Stigi, skæri, laufblað, hamar, önd, fiskur, traktor/dráttarvél og slanga/snákur.
• Geta talið upp í tíu.
• Þekkja eftirfarandi líkamshluta: Bringa, bak, hné, haka, neglur, hælar, ökklar og kjálki.

Þetta er ekki endanleg útlistun á prófunum enda eru margir aðrir þættir skoðaðir. En ég tel það lágmark að börnin hafi einhverntíman heyrt orðin sem verið er að prófa þau í.
En minnumst þess jafnframt að eftirlitið er þarna til að hjálpa okkur. Þurfi barnið á aðstoð að halda er betra að grípa inn í fyrr en síðar. Að því sögðu þá skiptir líka máli að foreldrar ræði við hjúkrunarfræðinginn ef að skoðunin er ekki góð. Sé barnið illa fyrirkallað og ekki í neinu stuði til að raða kubbum, ganga á tánum og segja einhverri bláókunnugri mannekskju hvar það eigi heima þá er það okkar að útskýra að þetta sé óvenjuleg hegðun hjá barninu og endurspegli ekki á neinn hátt raunverulega getu. Og sé eitthvað sem þurfi að athuga nánar – þá er lítið annað að gera en að takast á við það og þakka fyrir að búa í landi þar sem slík þjónusta er í boði því verra gæti það svo sannarlega verið.

Þóra

X