Loading

ÓVÆRÐ OG UPPKÖST UNGBARNA

Pistill eftir h2 – hómópatana Guðnýju Ósk og Önnu Birnu en þær eru jafnframt höfundar bókanna Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu.

Lítill gullmoli er fæddur og nýbakaðir foreldrar svífa í gleðivímu yfir fallega kraftaverkinu sem hvílir í fanginu. Auðvelt er að gleyma bæði stund og stað við það eitt að horfa á barnið, lykta af því og dást af fullkomleika þess.

Misjafnt er hve börnin eru vær. Sum sofa rótt klukkustundum saman fyrstu vikurnar á meðan önnur eru óróleg og þurfa stöðuga umönnun. Andvökunætur geta verið foreldrum órólegra barna erfiðar, það er svo vont að horfa á litla fallega gullmolann engjast um og vita ekki hvað er að angra litla kroppinn.

Um gæti verið að ræða ungbarnamagakrampa, það eru um 10-15% ungbarna sem fá magakrampa á fyrstu mánuðum ævinnar. Enginn veit nákvæmlega hvað veldur þessum krömpum og eins er ekki vitað af hverju sum börn fá krampa, en önnur ekki. Hér er góð samantekt um magakrampa hjá ungbörnum.

Einnig gæti verið um óþroskað efra magaop að ræða. Þá lokast opið ekki jafnvel og það ætti að gera og veldur því að barnið kastar upp. Eftir að barnið drekkur gúlpast mjólkin upp úr barninu. Oftast er um lítið magn að ræða, en stundum koma stórar gusur sem oft valda foreldrunum áhyggjum um að ekki verði nægjanleg næring eftir fyrir barnið, sérstaklega ef barnið er mjög óvært. Venjulega jafnar þetta sig á nokkrum mánuðum, en ávallt ætti að ráðfæra sig við meðferðaraðila ef um mikla óværð og uppköst er að ræða.

Flest ungbörn kasta einhvern tíma upp, bæði brjóstabörn og þau sem fá þurrmjólk, en sum börn eru hreinlega talin of gráðug og drekka of mikið í einu, fylla magann um of og skila þá frá sér umframmagninu.

Hvort heldur barnið er á brjósti eða það fær þurrmjólk er alveg óhætt að halda áfram að gefa því að drekka, þó það gúlpist aðeins upp úr barninu eftir gjöf. Gott gæti verið að leggja barnið oftar á brjóstið en venjulega og þá í styttri tíma í senn, eða að hafa minna magn í pelanum í hvert skipti og þá gefa barninu oftar.

Hómópatískar remedíur hafa reynst óværum börnum vel, hvort heldur þeim sem þjást af magakrömpum eða þau sem kasta mikið upp.

  • Aethusa cynapium getur gagnast vel ef barnið kastar upp strax eftir að það kyngir. Það tekur mikið á barnið við að kasta upp og það sofnar strax eftir átökin við uppköstin. Um leið og það vaknar aftur vill það drekka og það sama gerist. Barnið er fölt ásýndar og getur haft bláa slikju yfir andlitinu.
  • Magnesium phosphoricum getur gagnast vel ef uppköst eru stöðug og barnið virðist hafa sára krampaverki í kviðnum.
  • Ferrum phosphoricum getur gagnast vel ef barnið kastar upp eftir hverja gjöf en virðist ekki finna neitt fyrir uppköstunum.
  • Calcarea phosphorica getur gagnast vel ef barnið virðist ekki melta mjólkina og ælir einnig eftir að drekka kalt vatn. Einnig ef barn kastar upp með tanntöku. Þá mætti einnig hafa Calcarea fluorica í huga.

Fleiri remedíur sem hafa reynst vel við uppköstum ungbarna eru meðal annarra, Kali muriaticum, Natrum sulphuricum, Ipecacuanha og Antimonium crudum.

 

– – –
h2 stendur fyrir hómópatana tvo Guðnýju Ósk og Önnu Birnu sem eiga sér draum. Draum um að sem flestir þekki hómópatíu, fyrir hvað hún stendur og geti notfært sér þessa náttúrulegu og mildu meðferð við flestum af þeim kvillum sem koma upp í daglegu lífi. Með það að leiðarljósi hófu þær ritun og útgáfu sjálfshjálparbóka um hómópatíu á íslensku til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heildrænum meðferðum íslendinga. Ásamt því að skrifa bækur, greinar og fróðleik um hómópatíu og annað heilsutengt efni, stendur h2 einnig fyrir námskeiðum og kynningum um hómópatíu.
Báðar námu þær hómópatíu frá The College of Practical Homoeopathy, í Bretlandi. Þær eru margra barna mæður og uppalendur.

Nú þegar hafa þær gefið út tvær bækur Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu. htveir heldur úti vefsíðu um hómópatíu og heilsutengt efni www.htveir.is og facebooksíðu Htveir hómópatíubækur.

Guðný Ósk nam hómópatíu við The College of Practical Homoeopathy, í Bretlandi, 1999-2003. Frá því að hún útskrifaðist sem hómópati hefur hún sótt ýmis námskeið, bæði hérlendis og erlendis, til að viðhalda og auka við kunnáttu sína. Hún átti sæti í stjórn Organon fagfélagi hómópata 2005-2007 og átti einnig sæti í stjórn Bandalags íslenskra græðara 2005-2006.
Tímapantanir í síma: 895 6164 eða í tölvupósti (gudnyosk”hjá”htveir.is).

Anna Birna nam hómópatíu við The College of Practical Homoeopathy, í Bretlandi, 2000-2004. Hún lauk námi í ráðgjöf hjá Ráðgjafaskóla Íslands árið 2007. Frá því að hún útskrifaðist sem hómópati hefur hún sótt ýmis námskeið, til að viðhalda og auka við kunnáttu sína. Hún átti sæti í stjórn Organon fagfélagi hómópata frá 2003 og var formaður þess frá 2005-2010 og einnig formaður Bandalags íslenskra græðara frá 2005-2008.
Tímapantanir í síma: 846 6382 eða í tölvupósti (annabirna”hjá”htveir.is).

X