Loading

Óvenjulegur vinskapur: Elskar kálfinn sinn

Hvað á maður að gera þegar barnið manns tekur ástfóstri við munaðarlausan kálf? Í tilfelli Lacy Grey var fátt annað í stöðunni en að bjóða kálfinn velkominn í fjölskylduna.

Forsaga málsins er sú að ljósmyndarinn Grey hafði áhuga á að fá kálf lánaðan í myndatöku. Hún hringdi í bónda nokkurn sem hló að fyrirspurn hennar og tilkynnti henni að það væri afleit hugmynd þar sem móðir kálfsins myndi ekki taka það í mál.

Daginn eftir hringdi bóndinn í Grey og var greinilega mikið niðri fyrir. Sagði hann að hann hefði misst kýr um nóttina og að hún ætti lítinn þriggja daga kálf sem vantaði að komast í fóstur – og hvort hún hefði áhuga á því.

Fyrirspurnin kom flatt upp á Grey sem kom sjálfri sér þó á óvart og samþykkti að taka kálfinn að sér. Fyrstu nóttina var ákveðið að hafa kálfinn í þvottahúsinu en það sem gerðist næst kom öllum í opna skjöldu.

Dóttir Grey, hin tveggja ára gamla Kinley, tók ástfóstri við kálfinn og urðu þau óaðskiljanleg. Svo mikil er ást Kinley á kálfinum litla að hún eyðir öllum stundum með honum og á milli þeirra hefur myndast fallegur vinskapur.

Grey festi þennan magnaða vinskap að sjálfsögðu á filmu og sagði sjálf að kálfurinn væri velkomin viðbót í fjölskylduna og að hana hlakkaði til að fylgjast með því hvernig samband þeirra þróaðist á komandi árum.

Heimild: ABC
Ljósmyndir: Lacey Grey/Delta Rose Photography

X