Loading

PABBAR HAFA LÍKA TILFINNINGAR!

„Þú veist ekkert hvernig mér líður!“ er örugglega setning sem hefur fengið að fljúga þversum yfir stofuna eða þotið nokkrum sinnum fram og til baka í huga barnshafandi konu. Margar konur sem gengið hafa í gegnum meðgöngu hafa upplifað brjálæðislegan rússíbana tilfinninga af völdum hormóna sem erfitt er að útskýra. Sumar konur gráta aldrei og láta ekki smámuni hafa áhrif á sig á meðan aðrar konur gráta yfir minnstu hlutum svo sem eins og að tannkremið sé búið eða jafnvel bara vegna þess að það rignir úti.

Við upplifum hluti sem ég get engan veginn útskýrt, það er eitthvað að vaxa innra með okkur sem verður að fullburða einstaklingi og það er okkar hlutverk að gera úr þessum einstaklingi manneskju, sem þarf svo að kenna að viðhalda hefðum okkar og tryggja komandi framtíð. Líkaminn er á fullu að búa til þessa litlu veru og leggur alla orku sína í það að fullkomna verkið. Er það þá eitthvað skrítið ef mæðurnar „missa kúlið“ öðru hverju?
Já, það snýst svo sannarlega allt um okkur, líðan okkar dag frá degi frá því að við vitum að barn sé í vændum og fram yfir fæðingu. Við erum látnar svara spurningum um viðhorf okkar til meðgöngunnar, förum reglulega í eftirlit og tölum um líðan okkar, gerðar eru hinar og þessar mælingar og okkur klappað á bakið því alltaf styttist í stóru stundina. Svo þegar barnið er fætt þá þurfum við að svara spurningum um það hvernig andleg líðan hefur verið síðustu þrjá mánuði, mætum í ungbarnaverndina og við spurðar hvernig gengur, hvort brjóstagjöfin sé í lagi, hvernig saumarnir gróa, hvort við fáum ekki „mömmufrí“ og hvort PABBINN styðji nú ekki örugglega vel við bakið á okkur.

En hvað með pabbana? Hvernig líður þeim? Í níu mánuði hafa þeir þurft að horfa á okkur gráta vegna óútskýranlegra tilfinninga, hlusta á fuss og svei, andvörp og dæs án þess að hafa nokkra hugmynd um hvers vegna öll þessi aukahljóð hafa bæst við konuna. Lífið sem við áttum saman sem sambýlingar sem var svo ljúft og áreynslulaust er allt í einu gjörbreytt á einni örskots stundu. Sumir þurfa að horfa upp á konurnar sínar þjást af stigmagnandi verkjum frá fyrstu vikum meðgöngu þar til fæðing er yfirstaðin og geta í raun ekkert gert annað en að veita þeim stuðning, og til baka fá þeir bara grát og gnístan tanna. Svo fæðist barnið og pabbinn sem hefur oft á tíðum bara fylgt straumnum er allt í einu kominn með þennan litla einstakling í hendurnar sem þarf að móta og kenna lystisemdir lífsins.

Karlmenn eru kannski ekkert alltaf tilbúnir til þess að tala um líðan sína en flestir upplifa þó þessa mögnuðu tilfinningu nýs lífs þegar barnið kemur í heiminn. Sumir gráta, aðrir hlægja en lang flestir fyllast stolti og fá alveg glænýja tilfinningu í kroppinn og heita sér því að passa upp á þennan litla einstakling það sem eftir lifir. Sumir pabbar sýna lítil eða engin viðbrögð, en þeir þurfa alveg eins og mömmurnar að aðlagast nýju hlutverki og það getur tekið tíma.

Margir pabbar eru opinskáir og óhræddir við að sýna og segja frá líðan sinni á meðan aðrir loka sig af og taka þetta á hörkunni ef svo má segja. Við göngum í gegnum hæðir og lægðir í barnauppeldi og það er fátt sem reynir jafn mikið á sambandið eins og sameiginleg umönnun þessara orkubolta. Við höfum mismunandi skoðanir og viðhorf og því mikilvægt að mætast á miðri leið. Reynum bara að muna að það þarf tvo til í góðu sambandi og gott að hafa í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

– – –
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir er 27 ára gömul og búsett í sveitasælunni við Laugarvatn. Hún hefur eitt ómældum tíma og áhuga í það að mennta sig og þar af leiðandi prófað margt spennandi sérstaklega í tenglsum við útivist og heilsu.
Hún útskrifaðist sem íþrótta- og heilsufræðingur vorið 2010 en átti þá fljótlega sitt fyrsta barn. Dóttir henn varð eins árs 26. desember 2011 og á hún samkvæmt sónar von á litlum bróður í lok mars 2012. Starf hennar sem heimavinnandi og sjálfstætt starfandi húsmóðir er því langt í frá lokið og eftir því sem hún best veit bara rétt að byrja.
Hún segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt í tengslum við uppeldi barna, og hefur oftar en ekki rekið sig á það að fæst er hægt að lesa um í bók. Það er því að hennar mati nauðsynlegt að spinna söguna eftir persónuleika barnsins og það þykir henni sérstaklega áhugavert.
Ljósmynd: Lýður Geir Guðmundsson

X