Loading

BRJÓSTAGJÖF ER MEIRA EN BARA NÆRING

Brjóstagjöf er … nærvera, snerting, nálægð,  öryggi og umhyggja, tengslamyndun, að elska og vera til staðar. Allt þetta geta foreldrar gert þó barn sé ekki á brjósti en brjóstagjöf er góð leið til að sameina þetta allt.

Mörgum mæðrum finnst það augnablik þegar hún fær nýfædda barnið sitt í fangið í fyrsta sinn, það stórkostlegasta sem þær hafa upplifað. Meðgangan er á enda og móðirin fær loksins að sjá þennan litla einstakling sem hún hefur gengið með í níu mánuði. Barnið hvílir í fangi mömmunnar, ilmurinn og röddin eru því kunnugleg. Það finnur fyrir öryggi og byrjar fljótlega að leita eftir brjóstinu. Þetta eru meðfædd viðbrögð og þegar barnið byrjar að sjúga brjóstið fær það allra fyrstu mjólkina sem er broddmjólkin. Fyrstu mínúturnar í lífi barnsins eru mikilvægar og ef fæðingin gengur vel eru langflest börn byrjuð að drekka strax á fyrstu klukkustundinni eftir fæðinguna. Þessi fyrsta gjöf hjálpar oft móðurinni að tengjast nýfædda barninu sínu, horfa á það og snerta. Langflestar konur velja að gefa barninu sínu brjóstamjólk allt frá byrjun. Með því að ákveða að gefa barninu sínu brjóst eru þær að hafa mikil áhrif á sitt eigið heilbrigði og barnsins síns til lengri og skemmri tíma. Í byrjun er broddur í brjóstunum og hann er stútfullur af mikilvægum næringarefnum og mótefnum. Fyrsta næringin er barninu mjög mikilvæg og hefur henni verið líkt við fyrstu bólusetninguna. Magnið í fyrstu gjöfinni er ekki mikið, ein til tvær teskeiðar, en alveg nóg fyrir barnið. Ef það er viljugt að drekka og tekur brjóstið vel, er það að fá næringu sem er sérsniðin að þörfum þess. Þessi líkamlega nálægð veitir barninu hlýju og öryggi. Móðirin er fljótari að ná sér líkamlega eftir fæðingu þar sem að sog barnsins stuðlar að því að legið dragist saman.

Fyrstu dagana eftir fæðinguna skiptir miklu að mamman fái hvíld með barninu, næði til að kynnast því og koma brjóstagjöfinni af stað. Í flestum tilfellum fara mæður heim mjög fljótlega eftir fæðinguna ef að þær fæða ekki heima og þá skiptir öllu að fjölskyldan sé saman og skapi þær aðstæður að mamman nái að hvílast vel og kynnast barninu og þörfum þess. Barnið þarf mikla nærveru og brjóstagjöfin veitir tækifæri til þess. Það skiptir miklu að barnið fái að drekka þegar það vill og dveljast sem mest hjá mömmunni. Með þessu lærir móðirin líka að lesa í merki barnsins, hvenær það er svangt eða þreytt eða í þörf fyrir nærveru. Best er að láta barnið alveg ráða ferðinni, drekka þegar það leitar eftir því og hvílast í nærveru við foreldrana þess á milli. Jákvæð viðhorf og hvatning nánasta fólks í umhverfi mömmunnar er það sem hefur mest áhrif á að henni líði vel með brjóstagjöfina. Það skiptir máli að fólk setji eigin skoðanir og fyrri reynslu af brjóstagjöf til hliðar og styðji móðurina í hennar ákvörðun, hver sem hún er.

Brjóstagjöf er … meira en bara næring.

Ingibjörg Baldursdóttir.

Ingibjörg er fjögurra barna mamma, hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.

Hún vinnur sjálfstætt með ráðgjöf og námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því er hún að ljúka meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf.
Annars er hún bara venjuleg mamma, sem sleppir sér stundum en er yfirleitt í góðu skapi!
Ingibjörg heldur jafnframt út Facebook síðunni Brjóstagjöf – meira en bara næring þar sem hægt er að fá ráðgjöf frá Ingibjörgu um allt er viðkemur brjóstagjöf og umönnun ungbarna.
X