Loading

PRINSINN, PRINSESSAN OG ÞJÓNARNIR TVEIR

Með geltandi hósta kallaði erfðaprinsinn eftir djúsi. Hann kallaði eftir rúnstykki með osti og helst vínarbrauð í eftirrétt á meðan hann eyddi tímanum yfir misgáfulegum tölvuleikjum ætluðum fyrir börn.

Á meðan við pabbinn hlupum til og frá til þess að sjá til þess að sjúklingnum liði vel sáum við það að við höfðum algjörlega misst stjórnina á heimilinu.

Þessu litla konungsríki var stjórnað af einum fjögurra ára fljótfærum vel virkum dreng með aðstoð litla ráðgjafar hans, hinni næstum því tveggja ára prinsessu sem gefur engum eftir í ákveðni.

Við hugsuðum vafalaust bæði til þeirra tíma þegar við gátum sofið að vild, borðað seint á kvöldin og bárum ekki ábyrgð á neinum nema sjálfum okkur.

Uppvaskið var töluvert minna á þeim tíma. Gólfið svo gott sem tandurhreint og allt á sínum stað.

Svo bættist einn við og rúmum tveimum árum seinna ein í viðbót. Í takt við fjölgunina varð aðeins erfiðara að halda uppvaskinu í lagmárki, svefnin minnkaði stöðugt og matartímar færðust á skipulagða tíma. Innihaldslýsingar á öllu aðkeyptu var grandskoðað í stað þess að kippa með sér hverju sem hugurinn girntist. Laugardagar breyttust í nammidaga og öll afþreying miðaðist út frá því hvort litlir hausar gætu lært eitthvað af því.

Þrátt fyrir allar breytingarnar söknum við fullorðna fólkið þó einskis.

Í staðinn fyrir svefnin komu nefnilega tvö bros sem vekja mann með kossum á morgnana.

Í staðinn fyrir hreina gólfið tipla litlir fætur um allt skvettandi og slettandi.

Í staðinn fyrir kvöldmat seint á kvöldin komu snemmbúnir matartímar þar sem farið er yfir heiminn samkvæmt skilningi lítils huga sem sér engin takmörk.

Þó að við fullorðna fólkið þurfum að fara að segja starfi okkar lausu sem þjónar í þessu konungsríki og taka aftur við stjórninni þá getum við þó sætt okkur við það að á kvöldin þegar þau sofna þá megum við ráða.

Svona nema þegar hundurinn fer ibba sig.

– – –

Íris Gefnardóttir, 28 ára mamma með meiru. Bý með manni, börnum og hundi á besta stað á Íslandi, Akranesi. Þrátt fyrir heimabæinn kann ég samt lítið í fótbolta en bæti það upp með fjörugu ímyndunarafli og hæfileikanum til þess tala mikið um misskemmtileg viðfangsefni með það að leiðarljósi að bæta í minn eigin viskubrunn. Daglegt líf og hugleiðingar má lesa um á www.gefnardottir.blogspot.com.

X