Loading

PRÓFLJÓTAN OG AUKAKÍLÓIN – HVERS VEGNA GERI ÉG SJÁLFRI MÉR ÞETTA?

Síðustu daga hef ég verið mjög hugsi. Ástæðan fyrir þessum heilabrotum er fyrst og fremst „prófljótan“ og aukakílóin. Ég var búin að standa mig mjög vel í fjórtán mánuði. Ég mætti fimm til sjö sinnum í viku í ræktina og hugsaði daglega um mataræðið. Svo veiktist ég og missti öll tök á þessu og mætti æ sjaldnar í líkamsræktina mína.

En hvers vegna gerist þetta? Í fjögurra vikna veikindum fór ég að sannfæra sjálfa mig um að það væri nú allt í lagi að borða aðeins meira eða borða þær fæðutegundir sem ég var annars alveg búin að sniðganga. Ég var hvort sem var farin að þyngjast og orðin hálfslöpp og ætti þetta þess vegna alveg inni. Þvílík sjálfsvorkun!

Vítahringurinn hélt áfram að vefja upp á sig og þegar ég náði heilsu var ég fljót að sannfæra mig um að nú væri ég í mikilli verkefnavinnu og mætti þess vegna alveg láta eftir mér að borða eitt og eitt súkkulaðistykki og annað sælgæti − og jafnvel torga úr heilum nammipoka.

Þegar verkefnavinnunni var lokið, og ég komin í próflestur, hélt sjálfsvorkunnin áfram. Ég átti aðeins eftir þrjár vikur og eftir það yrði sannarlega tekið á málunum – en sælgætisbréfunum fjölgaði um leið og ég hugsaði: „Á morgun tek ég á mataræðinu mínu“. Dagarnir liðu í sama hugarástandinu og lítið fór fyrir heilbrigðu líferni og ég hélt áfram að þyngjast.

Í mörg ár var ég í þessum sama vítahring, en snéri við blaðinu fyrir einu og hálfu ári síðan, og eins og fyrr segir gekk það mjög vel í fjórtán mánuði. En nú er ég búin að vera föst í neti ofátsvítahringsins í þrjá mánuði og veit að það er þremur mánuðum of mikið.

Nú er farið að sjá fyrir endann á prófunum þetta vorið, en eftir sit ég, hundóánægð og svekkt út í sjálfa mig fyrir að hafa komið mér í þetta erfiða ástand. Dagarnir líða og ég er enn að lofa sjálfri mér að á morgun taki ég á þessu. En af hverju ekki strax í dag! Það er hverju orði sannara að erfitt er að snúa blaðinu við þegar svona er komið og sjálfsblekkingin búin að vara lengi og skaða mig á líkama og sál. Ég veit að ég er ekki ein í þessum heimi sem kem mér í þessa stöðu, nota endalausar afsakanir fyrir því að takast ekki á við það sem ég veit að ég á að gera en geri ekki og segi þess vegna: „ekki gefast upp, ekki byrja á morgun heldur NÚNA, ég ætla að gera það!“

– – –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X