Loading

RÆKTAÐU SAMBANDIÐ – NOKKUR SKOTHELD RÁÐ

Ástarsamband er flókið fyrirbæri sem útheimtir ákveðna vinnu af þeim sem í því standa. Gott er að temja sér ákveðnar reglur – sem fyrst – til að stuðla að heilbrigði sambansins og hamingju ykkar beggja. Þetta er mikilvægt, ekki síst eftir að börnin koma í spilið og hið daglega líf verður flóknara því að það er helst þá sem að sambandið verður undir í daglegu amstri. En… hér eru nokkur góð ráð sem er gott að hafa bak við eyrað. Þau eru einföld en gera ótrúlega mikið.

1. Farið í háttinn á sama tíma. Mannstu þegar þið voruð sjúk í hvort annað og gátuð ekki beðið eftir því að fara upp i rúm? Sérfræðingar segja að það sé ótrúlega heilbrigt og gott að fara upp í rúm á sama tíma. Snerting skiptir líka máli. Þarf ekki að vera kynferðisleg.

2. Sameiginleg áhugamál. Það er hverju pari mikilvægt að eiga sameiginleg áhugamál eða eitthvða því um líkt sem tengir ykkur saman. Að sama skapi er líka mikilvægt að þú hafir þín eigin áhugamál.

3. Gangið hönd í hönd. Í stað þess að strunsa á undan makanum eða ganga á eftir honum skuluð þið leggja ykkur fram við að ganga hlið við hlið og leiðast.

4. Traust og fyrirgefningin framar öðru. Leggið þetta á minnið og farið sjálfkrafa í þann gír þegar þið lendið í áttökum (rífist). Mikilvægt er að ganga út frá því að maki þinn sé mannlegur og að ykkur gangi gott eitt til – þó það gangi stundum brösulega.

5. Einbeittu þér að kostum makans – ekki göllum. Þetta segir sig sjálft. Ef þú ert stöðugt að rífa niður maka þinn í huganum er ástin og virðingin fljót að deyja. Sértu hins vegar með hugan við kosti hans þá gengur lífið einfaldlega betur og ástin á meiri möguleika. Alltaf að einblína á hið jákvæða.

6. Faðmist. Snerting er mikilvæg og sérstaklega jákvæð snerting. Hún sendir skilaboð um ást og væntumþykju.

7. Segðu „ég elska þig” og bjóddu góðan dag.
Lítil atriði sem eru samt svo ótrúlega mikilvæg. Það er fátt betra en að fá staðfestingu á því að maður sé elskaður og að einhver bjóði manni góðan dag.

8. Vertu stolt af maka þínum. Segir sig sjálft. Sama hversu mikill gallagripur hann kann að vera á sumum sviðum þá er býr hann samt yfir öðrum stórmerkilegum eiginleikum. Minntu sjálfa þig reglulega á hvað er gott í fari hans og hvað það er í hans fari sem bætir líf þitt.

X