Loading

REYNSLUSAGA: AÐ MISSA BARN Á MEÐGÖNGU

Að missa barn á meðgöngu hefur alltof oft verið eitthvað sem ekki er rætt eða jafnvel einkamál foreldranna. Sorgin er jafn raunveruleg og líðan foreldranna eftir því. Styrktarfélagið Líf hefur gefið út bækling þar sem fjallað er um missi á meðgöngu og sérstaklega hvernig aðstandendur eiga að bera sig að. Bæklingurinn er í senn kærkomin viðbót og um leið ákveðin viðurkenning á þeirri sorg sem barnmissir á meðgöngu er. Bæklingurinn heitir „Þegar gleðin breytist í sorg.”

Í bæklingnum er jafnframt að finna þrár reynslusögur sem við ætlum að birta með góðfúslegu leyfi höfunda – og vonum að þið deilið áfram ef þið þekkið einverja í þessari hörmulegu stöðu.

– – –

Reynslusaga Ragnheiðar Ýr:

Ég var komin 17 vikur í fyrra skiptið þegar mér var tilkynnt að það væri enginn hjartsláttur. Ég varð eins og draugur og hugsaði ekkert annað en „þarf ég að fæða dáið barnið mitt“. Hlutirnir gengu fljótt fyrir sig og náðum við að eyða smá tíma með litla líkamanum. Við tókum þá ákvörðun að nefna hana og jarða. Ég eyddi mörgum dögum eftir á upp í rúmi, ein. Löngunin að fara út meðal fólks var engin og hvað þá að svara spurningum þeirra. Það að vita að hún hafi verið heilbrigð fannst mér óréttlátt, af hverju dó hún fyrst ekkert var að. Þetta nagaði mig í langan tíma.

Það liðu 5 mánuðir og ég varð aftur ólétt, það var óvænt en allt gekk rosalega vel og auðvitað foreldrarnir spenntir, því afhverju ætti eitthvað að koma fyrir aftur? Komin yfir 17 vikur og hægt var að anda léttar. Viku seinna enda ég á sjúkrahúsi með samdrætti og 3 í útvíkkun. Enn og aftur fengum við að vita að ekkert væri hægt að gera. Í þetta skiptið var samt einn sjéns, enda leið ekki langur tími og settur var upp neyðarsaumur. Ég átti tvær vikur með litla stráknum, sem ég lá í rúminu og mátti bara standa upp til að fara á klósettið. Dagarnir voru misgóðir bæði líkamlega og andlega. Annan hvern morgun vaknaði ég með sára samdrætti. Allt gerði ég fyrir hann. Einn daginn var ekkert hægt að gera og lítill drengur fæddist eftir 20 vikna meðgöngu. Hann var smár eins og systir sín, en þroskaðari. Hann var komin með lítil hár á kollinn sinn. Með svo litla putta og tær sem á hverjum degi þrái ég að snerta, bara einu sinni. Eins og með systur hans, ákváðum við að nefna hann og jarða.

Í þetta skiptið greindist ég með leghálsbilun. Í annað skiptið missum við heilbrigt barn og allt útaf því að ég er gölluð. Enn og aftur var barnadótinu hent í geymslu. Eftir þetta fannst mér enn erfiðara að fara út á meðal fólks.

Það má segja að við höfum látið okkur hverfa í nokkrar vikur en komum endurnærð og tilbúin að takast á við lífið. Enda skóli og vinna sem beið okkar. Dagarnir voru misjafnir og oft langaði mig að vera heima upp í rúmi.

Ég meina til hvers að standa upp? Það var ekkert sem beið mín annað en kannski sorg. En á hverjum degi stóð ég upp og tókst á við það sem beið mín. Enginn prestur, læknir eða sálfræðingur getur sagt hvernig á að takast á við allar tilfinningarnar sem fylgja þessari lífsreynslu. Enginn getur sagt hvernig eða hvenær næsta skref er tekið.

Fyrir okkur báðum eru þetta börnin okkar, litlu englarnir okkar þótt læknisfræðilega skilgreiningin sé annað.

Ég fer sjaldan upp í kirkjugarð, en alltaf á afmælisdögum og jólum.

Hérna heima hef ég búið til mínar minningar um þau en ákvörðunin um að hafa gefið þeim nafn og jarðað þau skiptir okkur bæði miklu máli. Enn í dag, þegar liðið er rúmlega ár frá seinni missinum eru tilfinningarnar og dagarnir misjafnir. Í dag er ég þakklát fyrir að þau voru heilbrigð, ég er þakklát fyrir að hægt sé að hjálpa okkur og að þessi reynsla hefur kennt okkur að meta það sem við eigum betur, því einn daginn munum við fá lítið barn og fá að taka það heim.

Ragnheiður Ýr.

– – –

Bæklingarnir eru upplýsingarit til foreldra sem ganga í gegn um andvana fæðingar og missi á meðgöngu, en áður var mikill skortur á upplýsingum og bæklingarnir því kærkomin viðbót við þjónustuna sem kvennadeildirnar bjóða uppá. Í bæklingunum er, auk upplýsinga um þjónustuna sem foreldrarnir fá hjá kvennadeildunum, reynslusögur annarra foreldra.

Vinnan við bæklingana var unnin í sjálfboðavinnu og vill Líf styrktarfélag og kvennadeildir Landspítalans þakka öllum þeim fjölmörgu sem löggðu hönd á plóg við vinnslu bæklinganna. Bæklingarnir voru prentaðir hjá Leturprenti.

Hægt er að nálgast bæklingana á pdf á slóðinni:
http://www.gefdulif.is/verkefni/baeklingur-um-andvana-faedingar

X