Loading

FÆÐINGARÞUNGLYNDI

Vissir þú að um 75% kvenna upplifa sængurkvennagrát, 14% fá fæðingarþunglyndi og að ungar konur eru þrefalt líklegri til þess að upplifa fæðingarþunglyndi.

Ég heiti Kristín og er ung móðir. Ég er ein af þessum 14% og skammast mín ekki fyrir það. Fæðingaraþunglyndið mitt þróaðist út frá mörgum þáttum. Fyrst og fremst voru það erfiðleikar við brjóstagjöf, en hún fór frekar erfiðlega af stað og ég brasaði við hana í þrjá mánuði. Barnsfaðir minn og maki þurfti að fara frá okkur þegar barnið var þriggja daga gamalt til þess að sinna skólanum og þvi fór ég ein heim af sjúkrahúsinu. Daginn sem ég kom heim blöstu við mér fánar í hálfri stöng, fjölskylduvinur hafði dáið.

Svona spannst þetta í kringum mig hægt og rólega og alltaf hélt ég að þetta væru bara hið fræga ,,baby blues“. Tíminn leið áfram, barnið okkar varð mánaða gamalt og áfram hélt ég að vera döpur. Jólin liðu hjá og biðin var á enda, makinn var að koma heim í jólafrí og loksins gátum við verið saman. Þegar ég hafði loksins endurheimt hann var hann kallaður á sjó á milli jóla og nýárs. Þá hrundi minn heimur. Eftir að hann var farin út á sjó varð ég svo döpur og uppgefin að það endaði með því að ég var lögð inn sökum taugaáfalls. Inni lá ég á milli jóla og nýárs en ég var síðan sett á þunglyndislyf ásamt kvíðastillandi til þess að hjálpa mér að finna gleðina á ný.

Í dag, þremur mánuðum síðar hef ég fundið gleðina í lífinu.  Ég nýt þess að horfa á dóttur mína stækka og hún veitir mér meiri gleði en ég get lýst. Ég reyni að horfa til baka og læra af þeirri reynslu sem ég hef upplifað. Það besta af öllu er samt sem áður það að ég get miðlað reynslunni til þeirra sem á henni þurfa að halda og með því að segja sögu mína vonast ég til að varpa ljósi á fæðingarþunglyndi. Ég er svo þakklát fyrir það að hafa viðurkennt vandann. Brekkurnar í lífinu eru til þess að klífa þær hvort sem við þurfum hjálp við það eða ekki. Sem betur fer á ég frábæran maka og fjölskyldu sem ýta við mér á leiðinni upp.

Fæðingarþunglyndi er ekkert til að skammast sín fyrir, það er sjúkdómur sem engin velur að veikjast af. Það besta sem þú getur gert er að leita þér hjálpar, opnum umræðuna.

Kristín Greta Bjarnadóttir

– – –

Kristín Greta er tvítugur Bolungarvíkingur og á fimm mánaða stelpu. Hún er sem stendur í fæðingarorlofi en stefnir á nám í haust. Hún stefnir á að verða ljósmóðir.

– – –

Vilt þú deila reynslu þinni eða gerast Mömmubloggari? Sendu okkur þá post á thora@foreldrahandbokin.is.

X