Loading

Rosalega hefurðu fitnað!

Ég var búin að sverja þess dýran eið – og skrifa um það heilan kafla í bókina mína að ég myndi passa mig gríðarlega vel eftir áætlaðan barnsburð í júlí síðastliðnum. Ég ætlaði sannarlega ekki að lenda aftur í sömu ormagryfjunni og síðast og taka mér rúmt ár í að jafna mig líkamlega eftir fæðinguna. Fjálglega fullyrti ég að það væri fátt verra en að fitna eftir fæðingu – og ég stend fyllilega við þá fullyrðingu, hafandi reynt það tvisvar.

Eftir að dóttir mín fæddist í júlí upphófst eldheitt ástarsamband mitt við hraunbitakassa nokkurn og ég er ekki frá því að veltan hjá Góu hafi margfaldast meðan á þessu fylleríi stóð. Gráðug góndi ég á girnilegan bitana og hesthúsaði heilum kassa á kvöldi án þess að blása úr nös.

Svo fór þó að ég yfirgaf landið nýverið til að heimsækja eiginmanninn og þurfti með trega í hjarta að kveðja hraunið mitt góða og um leið sæluvímuna sem neysla þess olli.

Ég ákvað um leið og ég var komin út að taka mig taki og fara í átak. Áttakið var þó ekki flókið: borða hollt, hreyfa mig og hætta að borða Hraunbita.

Víkur þá sögunni að landlægri hreinskilni/dónaskap Bahama-búa og einkennilegri þörf þeirra til að segja þér hvað þeim finnst, jafnvel þótt þú hafir nákvæmlega engan áhuga á að heyra það.

Í fyrradag hitti ég konu sem ég þekki mjög vel. Kona þessi er dæmigerður eyjaskeggi í flesta staði. Guðhrædd og góð, er aldrei með sömu hárgreiðsluna tvo daga í röð og hlustar annað hvort á gospel eða Rod Stewart – allan liðlangan daginn og syngur hátt með. Þess á milli talar hún við alla sem hún þekkir í símann og þá oftast eiginmann sinn sem hún skaut reyndar fyrir nokkrum árum en þar sem hann átti það svo sannarlega skilið þá slapp hún með skrekkinn.

Þegar ég hitti umrædda konu tók hún mér fagnandi og breiddi út faðminn enda höfðum við ekki sést í lengri tíma. Kjáninn ég hélt að hún ætlaði að faðma mig en það var öðru nær. Þess í stað klípur hún fast í magaspikið á mér, rekur upp skellihlátur og æpir: „Þóra – rosalega ertu feit!”

Ég viðurkenni fúslega að mér féllust hendur. Hvað segir maður eigilega við svona löguðu? Hlær maður með af því að það er svo fyndið að maður sé með magaspik eða verður maður vandræðalegur – yfir því að vera með magaspik. Hér var úr vöndu að ráða. Hefði ég verið stödd inn í herbergi fullum að æfingaóðum hasarkroppum þá hefði þetta kannski verið rökrétt framkoma, þ.e. að þeim þætti ég svona agalega feit af því að þær væru það jú ekki. En það var alls ekki málið og það er kannski vert að taka það fram að ég var grennsta manneskjan inn í herberginu. Ég brást því við eins og argasta ótemja, hvæsti á hana að hún væri dóni, rauk því næst út og skellti á eftir mér hurðinni. Töff!

Það er ekki eins og ég vaði hér um í spandex galla, uppfull af ranghugmyndum um eigin BMI stuðul. Ég er þvert á móti fullkomlega meðvituð um hversu þung ég er, hvað fataskápurinn hefur rýrnað og að algjört samskiptaleysi virðist ríkja milli minna fyrrum glæsilegu (djók!) magavöðva og slappelsisins sem hangir framan á mér.

Það fer hins vegar óheyrilega í taugarnar á mér þessar ofurmannlegur kröfur sem gerðar eru til nýbakaðra mæðra. Helst eigum við að valhoppa í gömlu gallabuxunum okkar út af fæðingardeildinni og komnar í sama gamla formið að viku liðinni – að sjálfsögðu með heitt á könnunni og nýbakað á boðstólnum. Konur eins og Heidi Klum og allar hinar Hollywood týpurnar með einkaþjálfarana og lýtalæknana hafa gert líf „venjulegra” kvenna að hreinræktaðri martröð – þ.e.a.s. ef þær skreppa ekki saman undir eins. Væntingarnar eru í besta falli óraunhæfar og það vita allar nýbakaðar mæður að það síðasta sem maður er að pæla í korteri eftir fæðingu er hvort maður sé kominn aftur í kjörþyngd.

Hvað minni eigin bumbu viðkemur þá er hún smám saman að hverfa en með mikilli vinnu og áður óheyrðum (ójá!) sjálfsaga. Ég neita mér staðfastlega um allt sem inniheldur einhvern óþverra og þegar ég er að bugast horfi ég á myndina á ísskápnum – af Heidi Klum – því ef hún gat þetta þá hlýt ég að geta það líka.

En þar til það gerist þá bið ég um örlitla þolinmæði. Góðir hlutir gerast hægt og ég var jú að fæða barn og því miður er ég ekki þeim genum gædd að hverfa að fæðingu lokinni.

X