Loading

LÁ Í FIMM MÁNUÐI TIL AÐ BJARGA BÖRNUNUM

Eftir tvær misheppnaðar glasameðferðir tókst Lisu Copeley loksins að verða ófrísk. Lisa hafði verið greind með blöðrur á eggjastokkunum auk þess sem keiluskurður hafið varanlega skaddað leghálsinn á henni.

Lisa var skiljanlega í skýunum þegar að í ljós kom að hún gekk með tvíbura en áfallið kom þegar að skoðun leiddi í ljós að leghálsinn á henni var orðinn hættulega þunnur og allar líkur á að hún myndi missa fóstrin. Á fimmtándu viku fór hún í enn eina skoðunina og var samstundis lögð inn á sjúkrahús. Markmiðið var að ná 24 vikna meðgöngu en eftir þá meðgöngulengd er alla jafnað talað um að börn eigi raunhæfa lífsmöguleika utan móðurkviðs.

Lisa lá því marflöt og mátti sig hvergi hreyfa. Tíminn leið og brátt var hún búin að ná 24 vikna takmarkinu og allt með kyrrum kjörum. Leghálsinn var þó hættulega þunnur og engin áhætta tekin. Var svo komið að Lisa var búin að missa allan mátt í fótunum og komin með frekar slæm rauð útbrot en hún lét sig hafa það. Á 28 viku fékk hún að fara úr rúminu og skoða vökudeildina en gat vart gengið og endaði í hjólastól. Í kjölfarið fór að blæða og samdrættir byrjuðu. Hún lagðist því aftur og fjórum vikum síðar var henni ráðlagt að fara að æfa sig í að standa í fæturna og ganga á ný. Hún segir að hvert skref hafi verið þrekraun á þeim tímapunkti.

Á 34 viku fékk hún loks að fara heim og bíða fæðingu tvíburanna en viku síðar var hún komin með alvarlega meðgöngueitrun og því var ákveðið að taka börnin með keisara.

Lola og Lucas fæddust þann 3. janúar á þessu ári og eftir stutta heimsókn á vökudeild dafna þau eins og blómi í eggi. Sjálf hefur Lisa þurft að fara í sjúkraþjálfun en segist ekki sjá eftir einni mínútu.

„Þegar þú veist að líf barnanna þinna er í húfi ertu tilbúin í hvað sem er. Í langan tíma óttaðist ég að verða aldrei móðir. Í dag á ég hina fullkomnu fjölskyldu,” segir Lisa í viðtali við Daily Mail en viðtalið í heild sinni og myndir af fjölskyldunni má nálgast HÉR.

Ath. ljósmyndin er ekki af tvíburunum.

X