Loading

Sælla er að gefa en þiggja

Í einni grúppu á fésinu um daginn var ein sem að biðja um hugmyndir af gjöf og tilefnið var skírn. Ég tók mig til og skrifaði alveg þvílíkt langloku komment, sem ég hætti svo við að skilja eftir af því stundum er betra að sleppa því að skilja eftir komment. Algjör óþarfi að nota gjafaumræðu þráð hjá saklausri manneskju til að fá útrás fyrir skoðanir – Til þess eru blogg!

En ég hef sem sagt mjög sterkar skoðanir á gjöfum og það er alveg örugglega alveg rosalega leiðinlegt að gefa mér gjöf. Ég reyndar held að ég sé ekki mikið að kvarta undan gjöfunum við þann sem gefur gjöfina – alls ekki. En ef hún nýtist ekki gef ég hana áfram eða skipti henni þannig að hún nýtist.

Ég þoli sem sagt ekki ópraktískar gjafir. Ef við tökum bara skírnargjafir sem dæmi. Börn fá mikið af „drasli” í skírnargjöf og þegar ég segi drasl þá er ég að meina allt þetta tilgangslausa skraut sem barnið fær. Nú verður einhver þarna úti brjálaður en ég þoli ekki þetta skraut! Það er fyrir mér og ég veit ekkert hvað ég á að gera við það! Dæmi; silfur hnífapör sem eru ekki til að borða með heldur til að láta grafa nafn barnsins í eða eitthvað og hafa sem punt einhverstaðar, stjörnumerkja platti, myndarammar úr skartgripaverslunum sem eru til að grafa nafn og eitthvað í – sem á meðan ég man eru oft mjög asnalegir í laginu og passa ekki við neitt heima hjá neinum! …og svo uppáhaldið mitt… sorrý… silfurhólkur fyrir fæðingarvottorðið.  Í fyrsta lagi: Til þess að fá fæðingarvottorð dóttur minnar þarf ég að panta það og borga fyrir það og í öðru lagi: Hvar á þessi hólkur að vera? Í þriðja lagi: Ég er ekki með neinn stað heima hjá mér fyrir alla þessa punt hluti og í fjórða lagi: Ég þarf að fara sjálf og láta grafa í þetta allt sem ég er ekki enn búin að gera og dóttir mín er að verða tveggja ára.

En það er bara þannig að sumir eru með ákveðnar hefðir um hvað börnum er gefið í skírnargjafir og gefa öllum börnum í fjölskyldunni altaf það sama því það þykir þeim sjálfum fallegt og langar til að barnið eigi. Ég vil ekki vera skipta mér af svoleiðis hefðum og ég skil alveg þeirra hugsun og þetta er voða sætt og allt það en því miður enda allir þessir punt hlutir inní skáp að taka pláss og safna ryki. Frekar leiðinlegt.

Ég kann að meta praktískar gjafir, gjafir sem er í alvöru hægt að nota ekki bara henda inn í skáp.

Hér er minn hugmyndalisti:

 • Þæginleg föt er alltaf hægt að nota, ekki bara gefa einhverja skvísu kjóla eða töffara outfit. Gefið frekar eitthvað sem er þægilegt fyrir barnið að hreyfa sig í svo hægt sé að nota það dags daglega.
 • Samfellur! Þá átt aldrei nóg af samfellum þegar þú átt svona litla kúkamaskínu!
 • Ullarföt á svona stubba er alveg algjör snilld að fá því það er yfirleitt eitthvað sem þau koma til með að geta notað mikið þegar þau fara að sofa úti í vagni og svoleiðis.
 • Góð húfa. Ullar- eða silkihúfa getur ekki klikkað.
 • Ullarsokkar.
 • Gjafabréf í ungbarnasund.
 • Gjafabréf í myndatöku.
 • Flísgalli.
 • Matar sett; diskur, skál, bolli/stútkanna og hnífapör – hægt að fá allskonar sætt svoleiðis.
 • Bleyjukaka.
 • Litríkar taublayjur (gubbuklútar).
 • Góðir smekkir, maður á heldur ALDREI nógu marga smekki þeir virðast alltaf allir vera skítugir.
 • Nagdót.
 • Sætann lampa/næturljós inn í barnaherbergið.
 • Snudduband.

Ég er engu skárri með gjafir sjálf. Mér leiðist að fá eitthvað „tilgangslaust” sem tekur auka pláss heima hjá mér því ég er alltaf að reyna að minnka svona óþarfa aukahluti heima. Ég passa mig líka mjög þegar ég er að gefa öðrum því ég á það alveg til að ofhugsa gjafir en man svo að það eru ekki allir jafn erfiðir og ég. Seinustu jól sló ég þessu upp í tómt kæruleysi og keypti eina mjög „tilgangslausa” og plássfreka gjöf. Það var reyndar lúmskt gaman.

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta…en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að verða bloggari?
Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórskemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X