Loading

SAGAN AF VIKTORÍU SÓL

Í janúar 2007 eftir margar glasa og tæknifrjóvganir sem ekki tókust þá ákváðum við hjónin að ættleiða barn og varð Kína fyrir valinu. Svo í lok júlí vorum við búin að fá alla pappíra á hreint og lögðum inn umsókn hjá ÍÆ. Við lentum í hóp 27 og vorum nú bara nokkuð ánægð með það. Þann 10. september 2007 voru pappírarnir okkar komnir til Kína og við vorum komin inn í ferlið, en þá tók við biðin langa (sem við héldum í upphafi að tæki svona 2-3 ár).

Það var svo í desember 2011 sem við ákváðum að nú væri okkar tími komin, vorum bæði hjónin að detta í 40 árin og sonurinn orðin 14 ára. Sóttum um á Sérþarfalistanum (SN) hjá ÍÆ, það þýddi að eitthvað væri að barninu og merktum við inn á sérstakan lista þar sem voru tilgreindar sérþarfir sem barnið gæti verið með. Við völdum það sem við gátum hugsað okkur að takast á við. Pappírarnir voru síðan sendir til Sýslumanns, þar sem við þurftum að fá annað samþykki fyrir þessari ákvörðun okkar. Í byrjun maí voru svo allir pappíar tilbúnir og við komin á sérþarfalistann. Við ákváðum að okkur langaði meira í stelpu (þar sem við áttum nú strák fyrir) og á aldrinum 1-3 ára. Okkur var tjáð að líklega væri nú smá bið hjá okkur þar sem færri stelpur væru á listanum, þannig að við reiknuðum með 1-3 mánuðum í bið eftir rétta barninu.

Það var svo 29. maí sem Kristinn hjá ÍÆ hringdi í okkur og sagði að fundist hefði barn handa okkur. Með gífulegan hnút í maganum brunuðum við inn á skrifstofu ÍÆ og fengum að sjá pappírana um stúlkuna. Þetta var lítil og falleg stúlka fædd 8. janúar 2011. Sérþörfin hennar var sú að hún var með klofinn góm vinstra megin og skarð í vör. Sem sagt alskarð vinstra megin og hún var ekki búin að fara í neinar aðgerðir í Kína. Okkur leist strax vel á lýsinguna á stúlkunni. Við fengum þrá daga til að ákveða hvort að við vildum ættleiða þessa stúlku. Á þessum tíma hittum við lýtalækninn, Gunnar Auðólfsson, sem kæmi líklega til með að gera aðgerðina á henni ef hún kæmi til okkar. Þar sýndum við honum myndir af stúlkunni og hann sagði okkur svona sirka hvernig aðgerðaáætlunin kæmi til með að vera, það var gott að heyra hans álit. Eins hittum við fjölskyldu sem hafði nokkrum árum áður fengið stúlku með sambærilega sérþörf frá Kína. Það gerði útslagið hjá okkur, hittum þar yndislega litla stúlku og féllum bæði fyrir henni og heyrðum frá móðurinni að þetta væri nú ekki mikið mál. Þá var ekki aftur snúið, þessi litla stúlka sem við höfðum fengið upplýsinar um var okkar.

Þá tók við undirbúningur fyrir Kínaför. Strax var ákveðið að sonurinn kæmi með til Kína, hann yrði að kynnast uppruna systur sinnar. Þann 8. júlí voru allir pappírar komnir á hreint og fararleyfið kom frá Kína, brottför yrði 18. júlí.

23. júlí var mikill gleðidagur. Þá fengum við Viktoríu Sól í hendurnar í Guangzhou í Kína. Hún var lítil skotta sem var farin að ganga (sögðu fóstrurnar, en hún sýndi það ekki í Kína). Auðvitað var hún í sjokki fyrstu dagana, en var samt ótrúlega fljót að fara að brosa og sýna glaðlyndi sitt. Þrátt fyrir skarðið þá gekk ótrúlega vel að borða, en hún var samt að mestu bara á pela meðan við vorum í Kína.

2. ágúst komum við heim til Íslands og þvílík gleði að komast í sitt rétta umhverfi. Viktoría Sól var ótrúlega fljót að aðlagast okkur og nýja heimili sínu. Hún fór fljótlega að borða allan mat og er mikið matargat og borðar vel af öllum mat og gekk það mjög vel. Fljótlega eftir heimkomu var farið að huga að fyrstu aðgerð fyrir hana og fyrir tilstuðlan Gests Pálssonar barnalækins þá fengum við tíma hjá Gunnari lýtalækni í byrjun september. Þá var ákveðið að hún færi í sína fyrstu aðgerð í byrjun október. Í framhaldi af því vöndum við hana af pelanum, þar sem við héldum að hún mætti ekki fá pela eftir aðgerðina.

4. október var fyrstu aðgerðardagur. Það gekk ótrúlega vel og hún var fljót að ná sér eftir aðgerðina. Fengum að fara heim daginn eftir aðgerð og þá tók við hin daglega líf. Í þessari aðgerð var vörinni lokað og var aðeins byrjað að loka gómnum, svona til að flýta fyrir næstu aðgerð. Hún mátti borða allan mat eftir þessa aðgerð (nema brauðvörur) og gekk það ótrúlega vel. 24.janúar var farið í aðgerð númer 2, þá var mjúka gómnum aftast lokað. Það gekk líka ótrúlega vel, en eftir þessa aðgerð þurftum við að vera 2 daga á sjúkrahúsinu, þar sem Viktoría Sól var ekki nógu dugleg að drekka og borða. En hún var samt fljót að jafna sig og farin að borða allan mat. Hittum síðan Gunnar 2 vikum eftir aðgerð og þá kom í ljós að ekki hafði alveg tekist nógu vel að loka gómnum. Lítið gat hafði ekki gróið nógu vel og því þarf hún að fara í eina aðgerð en til að loka þessu litla gati. Sú aðgerð verður líklega í lok ágúst. Þá er hún líklega búin með aðgerðirnar í bili. Verður vonandi pása þangað til hún fer að fá fullorðinstennurnar, þá þarf að loka skarðinu fremst í gómnum og byggja upp bein fyrir tönnina sem vantar og laga það sem þarf að laga ef eitthvað er.

Það hefur gengið ótrúlega vel með þessa litlu skottu og hún er mjög glöð og ánægð með lífið og tilveruna. En hún er ákveðin og veit alveg hvað hún vill. Hún er rosalega dugleg og skýr og skilur allt sem sagt er við hana. En hún er ekki farin að tala mikið, en það kemur bara í rólegheitum. Erum þrisvar búnar að fara í sveitina og stoppa í nokkra daga, hún er mikil búkona og arkar um fjárhúsin eins og hún hafi alltaf átt heima þar. Er ekkert hrædd við kindurnar, þó svo að hrútarnir reyni sitt besta til að stanga hana þegar hún labbar framhjá þeim. Henni finnst snjórinn æði, og elskar að fara að renna sér og eins að sitja bara út í skafli og moka snjó ofan í fötu eða bara einhvern dall sem hún fær. Eins finnst henni mjög gaman að labba niður að Læknum hérna í Hafnarfirði og gefa öndunum brauð. Þessi stúlka er sannkallaður sólargeisli í lífi fjölskyldunnar.

Það var móðir Viktoríu, Guðlaug Sveinsdóttir, sem féllst á að deila sögu hennar með okkur.

viktoria4
Viktoría Sól ásamt stóra bróður sínum, Þorkeli Má, í jólamyndatökunni.

viktoria3
Strax eftir fyrstu aðgerðina þann 4 október.

viktoria
Fyrsta myndin af fjölskyldunni tekinn þann 23. júlí í Guangzhou með fóstrunum af barnaheimilinu hennar Viktoríu.

viktoria7
Úti að moka í sveitinni í mars 2013.

viktoria6
Að leika við Myrru, hundinni í sveitinni hjá ömmu og afa, í febrúar 2013.

viktoria2
Viktoría Sól kát og glöð í Kína. Mynd tekin 25. júlí 2012.

X