Loading

SAMSETT BARNAAFMÆLI

Vandræðalegar þagnir í barnaafmælum samsettra fjölskyldna, örlítið misheppnað orðaval fyrrverandi tengdaforeldranna, nýjir makar útundan í samræðum … þessar aðstæður þekkja eflaust margir.

Oft er raunin sú að samstarfið á milli foreldra sem skipta umgengnisrétti á milli sín gengur best þegar sem minnst samskipti eru til staðar en ég er afar þakklát fyrir að eiga í góðum samskiptum við föður minna tveggja drengja. Við reynum að halda sem bestum samskiptum í hávegi og vera sveigjanleg, sem oftast nær gengur mjög vel. Að sjálfsögðu erum við ekki alltaf sammála um alla hluti en hvaða foreldrar eru það? Snáðarnir okkar eiga tvö heimili og við skiptum þeim jafnt á milli okkar.

Þeir vita að við tölum saman og ef eitthvað kemur uppá þá mun hitt foreldrið fá fregnir af því. Þessar elskur hafa alveg látið reyna á það, ég hef til dæmis fengið sögu um að nei-ið mitt sé ósanngjarnt því pabbi leyfi alltaf kókglas fyrir háttinn … aha … Við svoleiðis tækifæri þá tek ég bara upp tólið og segist ætla að athuga hvort það sé sönn staðreynd, þá bakka þeir nú yfirleitt. Þegar þeir uppgötvuðu að ég hringi þegar það ber undir þá hættu þeir nú að reyna. Ég tel að synir mínir græði á góðum samskiptum, að þeir njóti alls þess besta frá báðum heimilum.

Við, foreldrarnir, komum bæði úr samsettum fjölskyldum og við skilnað vorum við ákveðin í að við setja hag barnanna ofar okkar. Eins og svo margir höfum við bæði horft upp á ljóta skilnaði í kringum þar sem börnin höfðu því miður lent á milli í rifrildum foreldranna. Við vorum (og erum) harðákveðin að láta þá aldrei finna fyrir ágreiningi og reyna að gera hlutina í vinsemd og virðingu.

Á hálfs árs fresti leiði ég svo hugann að barnaafmælum. Hvernig því skuli hagað að þessu sinni, hverjum eigi að bjóða og fleira þess háttar. Við foreldrarnir höfum haft það að vana að halda eitt sameiginlegt afmæli þó svo að við séum skilin skiptum sem að okkar mati hefur gengið áfallalaust. Við skiptum kostnaði vegna afmælanna á milli okkar, bjóðum okkar nánustu og eigum öll góða stund úr degi saman.

En stundum vandast málin þar sem að þó foreldrum þyki það lítið mál að hittast og hitta fjölskyldu hvors annars, þá þarf líka að taka tillit til annara aðila sem eru inn í fjölskylduhringnum. Foreldrar afmælisbarnsins hafa jafnvel eignast nýja maka sem að koma nýjir inn í afmælisboðin og þá þarf að muna að hlúa örlítið að ömmum, öfum, systkinum og öðrum þeim sem næst barninu standa og láta vita fyrirfram að nýr maki muni mæta.

Oft finnst fólkinu sem stendur að baki foreldranna aðstæðurnar erfiðari en foreldrunum sjálfum. Þá er gott að minna fjölskylduna á að barnið njóti góðs af því þegar fólkið sem því þykir vænst um getur umgengist hvort annað með virðingu og vináttu.

– – –

Halldóra Anna Hagalín hefur starfað síðastliðin sex ár við ýmislegt tengt tímaritum. Hún hefur ritstýrt fótboltablaði, ferðablaði, sinnt vefmálum og markaðsmálum en starfar í dag sem ritstjóri unglingablaðsins Júlíu, fríblaðsins Heilsunnar og sem vefstjóri Birtíngs útgáfufélags. Henni finnst, að eigin sögn, best að hafa nóg fyrir stafni og kann vel að meta þann fjölbreytileika sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er þrítug sjálfstæð móðir með tvo hressa drengi sem eru fimm ára og á áttunda ári.

Ljósmynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir

X