Loading

SÍÐASTA AÐGERÐ ARONS AÐ BAKI

Í dag 10. april 2012 fór Aron Raiden í sína seinustu meltingafæraaðgerð.

Þetta ævintýri okkar er nú ekki alveg búið en einum mjög stórum kafla er þó lokið. Núna ættu allar stíflurnar sem voru í þörmunum og ristilnum hans að vera farnar, stómað er farið og allt meltingakerfið er virkt og tengt og drengurinn tilbúinn að kúka að vild. Segi svona …

Síðan ég skildi við ykkur seinast hefur Aron farið í tvær aðgerðir. Hann átti að fara í lokaaðgerð 15. mars en fékk sýkingu í æðarlegg og varð að losna alveg við bakteríurnar áður en hann kæmist í aðgerð. Eftir rúmlega mánaðar spítalalegu komst hann loksins í aðgerð þann 26. mars. Það átti að vera hans loka aðgerð en eftir að rannsóknir sýndu læknunum ekki nóg til að loka stómanu strax varð að opna á honum kviðinn í fjórða sinn og taka aðra stíflu sem fannst í ristlinum. Skurðlæknunum leist þó vel á allt og sögðu að ef allt gengi vel væri hægt að loka stomanu og klára þetta eftir tvær vikur.

Ég hef tjáð mig hér áður hvað mér finnst erfitt að heyra tvær vikur. Finnst eins og seinustu sex mánuði sé ég búin að vera að bíða í tvær vikur en viti menn í dag, tveimur vikum upp á dag eftir seinustu aðgerð, fór litla hetjan mín í sína sjöttu og þar með seinustu meltingafæraaðgerð.
Aðgerðirnar eru loksins búnar og það er svo æðislegt að halda á honum núna og finna engan poka sem þarf að hafa varan á. Bara halda á honum og knúsa hann. Núna getur hann farið i bað í fyrsta sinn, farið í föt sem eru pínku þröng um mittið eins og gallabuxur, núna getur hann kúkað í bleiur eins og börn eiga að gera í staðin fyrir að allt fari í poka sem ég þarf svo að taka og sprauta aftur inní hann svo hann geti kúkað … í dag er merkisdagur … í dag er Aron heill.

Á morgun byrjar næsta áskorun. Á morgun þarf Aron að læra að melta eðlilega og það alveg sjálfur. Hann er ennþá með næringu í æð og ég býst við því að það verði eitthvað áfram. Þarmarnir þurfa tíma í að aðlagast og fara að vinna eðlilega. Núna hefur þetta verið að koma inn og út í skömmtum og þarmarnir ekki vanir öðru svo á morgun byrjar Aron að fá að drekka hægt og rólega. Leyfa görnunum að aðlagast og svo hægt og rólega minnkum við næringuna sem hann fær í æð á móti.

Það er mjög auðvelt að sleppa sér og langa núna að gefa honum að borða og drekka og taka hann af næringu í æð því útlitslega séð er hann alveg heilbrigður og flottur strákur en maður þarf að muna að hann er ekki tilbúinn meltingalega séð og nú tekur við nýr kafli sem ég er viss um að hann rokki í gegnum litla hetjan mín.

– – –

Ég heiti Hjördís en er kölluð Dísa. Ég er 27 ára, gift og á tvær litlar dömur sem eru fjögurra og sex ára og einn lítinn gutta sem fæddist í enda september.
Ég er Montessori kennari og lærði í Bandaríkjunum. Ég vinn í leikskóla í Reykjavik sem sérhæfir sig í börnum með sérþarfir. Áhugamál mín eru góður félagskapur og börn og uppeldi.

Aron Raiden fæddist þann 30 september 2011. Það hafði komið í ljós í 20 vikna sónarnum að hann væri með fæðingargalla sem heitir gastroschisis en nánar má lesa um hann í fyrsta blogginu mínu 20 vikna sónar.
Aron dvaldi á vökudeild til 15 desember 2011 en hefur síðan þá verið niður á barnaskurðdeild barnaspítala Hringsins. Hann hefur þurft að fara í fjórar stórar aðgerðir, margar rannsóknir og þurft að hafa næringu í æð alla sína ævi.
Í þessu bloggi mun ég fara í gegnum sjúkdómsgreininguna, dvölina á vökudeildinni, brjóstagjöfina vs. mjaltarvél, muninn á vökudeild og barnadeild, hvað gerist þegar heim er komið.

Myndin er tekin af Aroni klukkutíma eftir að hann vaknaði eftir síðustu aðgerðina. Brosandi, sáttur og loksins laus við gatið á maganum.

X