Loading

SÍÐASTI SENTIMETRINN – FÆÐINGARSAGA

Þetta hófst allt um morguninn, þann 15. apríl 2009.

Við áttum bókaðan tíma hjá fæðingalækni vegna þess að ég var gengin 11 daga framyfir settan dag, svo að pabbi þinn fór ekki í vinnuna. Ég fór samt á fætur örlítið á undan honum, og fann strax að ég var með túrverki. Þegar ég fór að fylgjast með því þá komu túrverkirnir á sama tíma og samdrættirnir. En það var langt á milli og ég var ekki viss hvort eitthvað væri að gerast,svo við fórum og hittum fæðingalækninn, en tíminn var kl. 10.30. Við vorum látin sitja í monitor í 20 mínútur, en það kom bara vel út. Síðan var naflastrengurinn þinn og legvatnið skoðað í sónarnum, og svo átti að hreyfa við belgnum. Fæðingalæknirinn var indversk stelpa, minnir að hún hafi verið kynnt sem Rati. Hún hreyfði við belgnum og sagði okkur að ég væri komin með 2-3 cm í útvíkkun, sem væri mjög gott fyrir frumbyrju. Við urðum náttúrulega hæstánægð yfir að eitthvað væri farið að gerast.

Við fórum frá lækninum og ég fékk nokkra verki á meðan við fundum okkur eitthvað í hádegismat, og fórum heim. Þegar heim var komið birtust amma þín og afi á Egilsstöðum í heimsókn hjá okkur, en ég reyndi að láta ekki bera mikið á verkjunum, þar sem ég bjóst eiginlega við að þeir væru ekki neitt. Það voru allir búnir að bíða svo lengi eftir þér að mér fannst ég ekki geta látið alla halda að þú værir að koma ef þú kæmir svo ekki strax.

En eftir að amma þín og afi fóru, um kl.14.00, fórum við að taka tímann milli verkja, og reyndust þeir alltaf koma með 4-6 mínútna millibili. Um kvöldmat voru verkirnir farnir að versna svolítið, en samt voru þeir ekkert orðnir óbærilegir. Nema mér fannst eins og þeir dyttu örlítið niður meðan pabbi þinn fann handa okkur mat og meðan við borðuðum. Ég hringdi á fæðingadeildina um kl. 19.00 og sagði þeim að ég hefði verið með verki á 4-6 mínútna fresti allan daginn, en hefði fundist þeir heldur gefa eftir og svörin sem ég fékk voru þau að fyrst enn væri jafn langt á milli verkja og ef þeir væru eitthvað að minnka þá væru þetta ekki hríðir heldur bara einhverjir fyrirvaraverkir tengdir belgjalosuninni. Þá var mér allri lokið, og ég lagðist upp í rúm og grét. Ég trúði ekki að það væru komnir 11 dagar framyfir, ég væri búin að vera með verki í allan dag og það væri samt ekkert að gerast. En pabbi þinn hjálpaði mér, hann var mín stoð og stytta.

Rétt eftir að ég hringdi upp á deild fóru verkirnir að versna en ekki styttist tíminn á milli þeirra þannig ég var sannfærð um að það væri ekkert að gerast – að ljósan sem svaraði mér hefði haft rétt fyrir sér. Við fórum bara fram í stofu og horfðum á bráðavaktina, og á meðan versnuðu verkirnir bara meira. Þegar bráðavaktin var búin fór ég í bað, sem hjálpaði svolítið, en baðið var bara ekki nógu stórt til að vatnið næði almennilega um kúluna. Þá fyrst fór ég að finna einhvern þrýsting niður, og á tímabili leið mér eins og ég myndi kúka í baðið. En það gerðist ekki.

Þegar ég hafði mig uppúr baðinu lagðist ég í rúmið en við sáum strax að ég myndi ekki fá neina hvíld, svo við ákváðum að fara uppá deild og athuga í það minnsta hvort þessu miðaði eitthvað og hvort ég gæti þá fengið einhverja aðstoð við að hvílast ef þetta væri bara ekki neitt.
Þegar við komum uppá deild var klukkan um 23.30 og var ég frekar skömmustuleg, afþví það var búið að segja mér að þetta væri sennilegast ekki neitt – og tíminn á milli hafði ekkert styst. Kannski bara orðið reglulegri. Við hittum ljósu sem heitir Tinna, og sagði okkur að við myndum bara skoða þetta. Hún spurði mig hversu vondir verkirnir væru orðnir, og ég sagði henni sem satt var að þeir væru orðnir vondir en ekkert óbærilegir. Við vorum aftur sett í monitor, og síðan bað hún mig um að leggjast svo hún gæti athugað útvíkkunina. Það fyrsta sem hún sagði við mig þegar hún var að athuga útvíkkunina var: „þú ert góð!“ og ég hugsaði bara „ó, fokk… hún er að fara að segja mér að fara heim að sofa og láta ekki eins og asni!“ og langaði að fara að hágráta. En það sem kom næst kom okkur báðum á óvart: „þú ert að verða komin með fulla útvíkkun! Það er skiljanlegt að verkirnir séu farnir að taka svolítið í, þú ert með rúma 9 cm í útvíkkun!“ og síðan vísaði hún okkur bara beinustu leið inn á litlu fæðingarstofuna, þar sem sú stærri var upptekin. Ég hringdi í mömmu og sagði henni fréttirnar því hún ætlaði að vera viðstödd.

Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið, ég trúði þessu ekki af því verkirnir voru ekki ennþá orðnir neitt hræðilegir. En síðasti sentimeterinn var erfiður. Ég veit ekki hvort það helgist af því að þetta var síðasti sentimeterinn, eða af því að ég vissi að þetta var síðasti sentimeterinn og þeir síðustu eiga að vera erfiðir, eða bara að ég hafi einfaldlega gefist upp á að bera mig vel. En allavega… síðasti sentimeterinn var það versta hingað til. Ég upplifði ógleði sem ég held að hafi helgast af því að ég andaði of hratt í gegnum hríðarnar. Af þeim sökum afþakkaði ég glaðloftið; ég þorði ekki að nota það verandi óglatt. En síðan var mér bara vippað upp í fæðingarrúmið og ég mátti byrja að rembast. Rembingurinn gekk frekar hægt, enda var ég orðin vel þreytt. En amma þín og pabbi þinn hjálpuðu mér alveg ótrúlega mikið. Ég var bara rétt að byrja að rembast þegar ljósan sprengir belginn, og þá kom í ljós að þú varst búin að kúka í legvatnið.

Ljósan sagði mér eftir á að það hefði tekið einn og hálfan tíma að remba þér í heiminn, en hríðirnar virtust ekki vera nógu sterkar. Ljósan var dugleg að gefa mér eitthvað hríðaaukandi nefsprey, en undir lokin þá setti hún upp dreypi, og eftir það þurfti bara einhverjar þrjár hríðar til að koma þér út.

Klukkan var 03.19 um morguninn þann 16. apríl þegar þú varst lögð á bringuna á mér og stuttu seinna fékk pabbi þinn að klippa naflastrenginn. Barnalæknirinn þurfti örlítið að sjúga uppúr þér, en þú reyndist vera í fínu formi.

– – –

Vilt þú deila þinni fæðingarsögu? Sendu okkur póst á thora(hjá)foreldrahandbokin.is. Hægt er að birta undir nafni eður ei. Sagan þarf ekki að vera eftir ákveðinni formúlu enda er hver fæðing einstök og við elskum þær allar.

p.s. myndin tengist sögunni ekki en ef þið viljið birta mynd með er það sjálfsagt.

X