Loading

SJÁLFSÁSTIN

Ég hef svolítið verið að hugsa um það afhverju við raunverulega ákveðum að eignast börn. Vissulega verða flest börn til ómeðvitað, og þar að leiðandi mis-velkomin í þennan heim, -um leið. En mjög mörg börn eru plönuð, og afskaplega þráð af foreldrum sínum. Alltof margir þurfa líka að hafa miklu meira en nóg fyrir því að fá þau í fangið og það þykir mér sárt. Ennþá fleiri taka því nefnilega sem sjálfsögðum hlut að eignast barn. Þessar týpur kvarta að jafnaði sárlega yfir hverju hóstakasti, eða tiltöku aukagrammi hér eða þar. Þá verð ég svolítið reið. Því dýrmætari gjöf er ekki til.

Mamma hefur alltaf sagt, börnin koma þegar þau eiga að koma, og fram að þessu hef ég fussað svolítið yfir þessari fullyrðingu, því vissulega gerum við margt sem meðvitað hindrar það að barn geti orðið til. Á sama hátt og við bjóðum það velkomið með öfugri aðferð. Ég held hins vegar að mamma hafi rétt fyrir sér. Mamma hefur alltaf rétt fyrir sér. Staðreynd sem ég verð að fara koma í hausinn á mér.

Það er kannski erfitt að segja til um það hvenær rétti tíminn til að eignast barn rennur upp, og hvenær hann rennur þá um leið út. En ég trúi því samt að ekkert sé tilviljunum háð og allt fyrirfram ákveðið í þessu lífi. Og því þá ekki börnin um leið.
Barnið mitt valdi sér í það minnsta fullkomin tíma, -þó það hefði verið velkomið fyrr.

Góð vinkona mín trúir því að börnin velji foreldra sína, -ekki öfugt. Það þykir mér ákaflega falleg hugsun. Lára er líka svo klár. Og sú kenning á svo sannarlega vel við mig okkur Láru, -báðar. Sem völdum okkur þær bestu og klárustu konur sem til eru, -svo klárar meira að segja að þær unnu tvöfalt uppeldisstarf. Ofurkonur, af bestu sort.

Ég sé það samt núna, eftir að ég varð sjálf móðir, hvað barnið okkar er heppið að vera ástarbarn, sem á tvo foreldra sem hreinlega rífast um það hvort muni elska það meira. Velkomnara barn varla til, og við hamingjusömust í heimi. Í alvöru. Auðvitað er það ekkert sjálfgefið, og þó ég hafi aldrei saknað þess sjálf að eiga ekki pabba þykir mér barnið mitt óendanlega heppið að fá að eiga einn slíkan, -því það á þann besta.

En þá aftur að því sem ég byrjað að skrifa, -afhverju eignumst við börn. Og afhverju rekum við oft á tíðum á eftir þeim í þennan heim, eða hindrum komu þeirra. Niðurstaða mín er kannski ekkert sú fallegasta í heimi, en að mínu mati leikur sjálfselskan þar stórt hlutverk. Við þráum afkvæmi af þeirri einföldu ástæðu að þau gleðja okkur sjálf, eru til yndisauka og gera lífið okkar skemmtilegra. Gefur því tilgang, eins og maðurinn sagði.

Vissulega spilar ást okkar á makanum of inn í líka, -eins og orðatiltækið um ávöxt ástarinnar segir til um. Ég elska Finn svo mikið að mig langar í afleggjara, af okkur tveimur, setta saman í lítilli manneskju. Sem um leið bindur okkur saman að eilífu. Magnað.

Mér finnst samt svolítið súrt að hugsa til þess að ástarbörn verði aðeins til af sjálfsást, og ást okkar á makanum, því það setur óhjákvæmilega mikla pressu á elsku góða barnið sem fæðist eins og óskrifað blað í þennan heim, og bað alls ekkert um það. Nema upp að því marki sem fræðin hennar Láru segja til um.
Í kjölfarið fór ég að hugsa til litla barnsins míns, sem vissi ekkert hvað það var að fara út í þegar það valdi okkur foreldra sína. Nema bara það að það er án nokkurs vafa eitt elskaðasta barn sem fyrir hefur fundist í alheiminum, og þess að hlaut titilinn litli heimsborgarinn áður en það náði að halda upp á eins mánaða afmælið sitt. Kannski ekki svo amaleg markmið það, en auðvitað er það eina sem lítil börn óska sér hlýr faðmur, þurr bossi og -brjóst, troðfull af dísætrimjólk. Tjékk …

Ég vil samt ekki trúa að ég sé að setja aðra eins pressu á litla óskrifaða blaðið mitt, að það hafi fæðst í þennan heim til þess eins að gleða mig, -og Finn. Slík sjálfselska finnst mér of stór til þess að kyngja. Ég vil í alvörunni trúa því að ég ætlist ekki til neins af því, og ást mín sé skilyrðislaus. Er slík ást ekki annars til? .. og ef hún er til, þá hlýtur hún einmitt að beinast að börnunum okkar.

Svarið er kannski beggja blands, því þó ég ætlist ekki til neins, -og tek engu sem sjálfsögðum hlut, kemst barnið mitt ekki hjá því gleðja mig, -hvort sem það hljómar sjálfselskulega eða ekki. Það þarf ekkert að gera nema vera það sjálft og þá fer ég að brosa, í alvörunni, sama hvar ég er stödd. Þannig er ég síbrosandi, allan liðlangan daginn, -að því virðist sem útaf engu, þó ég viti sjálf afhverju það stafar. Annan eins áreynslulausan gleðigjafa er varla hægt að finna.

Íris

– – –
Ég heiti Íris Hauksdóttir og er 28 ára háskólanemi á loka árinu í mannfræði. En auk þess drattast ég með meistaragráðu í bókmenntafræði. Ég hef mikla ást á leikhúsi og flokka mig sjálfa sem fagurkera fram í fingurgóma. Hef unun af bakstri og eldamennsku sem og lestri góðra bóka. Ofar öllu öðru er ég móðir dásamlegrar næstum tveggja ára stelpurófu.

X