Loading

SJÁLFSTÆÐISBARÁTTA LÍTILLS DRENGS

Þessa dagana hefur sjálfstæði tveggja ára sonar míns verið mikið að aukast. Ekki misskilja, mér finnst mjög jákvætt að hann sýni sjálfstæði. Ég tel að það geri hann öruggari með sig og sínar ákvarðanir. En guð minn almáttugur hvað það getur tekið á þolinmæðina!

Núna vill hann gera nánast allt alveg sjálfur. Bæði hluti sem hann vel getur gert sjálfur en líka hluti sem hann hefur ekkert erindi með að gera sjálfur. Eins og hella sjálfur mjólk á morgunkornið sitt úr stútfullri mjólkurfernunni. Ég náði að taka í taumana áður en mjólkin fór á gólfið en það endaði auðvitað með að sonur minn missti stjórn á skapi sínu (sem er rúmlega tveimur númerum of stórt fyrir svona lítinn dreng!).

Sumt af þessu kom ég líka inn á í síðasta pistli um The terrible-twos en það sem ég hef reynt að temja mér þegar ég er að eiga við son minn í sjálfstæðis baráttu sinni er:

  • Að leyfa honum að hafa val (ekki um hluti eins og hvort hann eigi að fara með húfu út í kuldann eða ekki heldur gefa honum val um tvær húfur). Ég tel að tilfinning um að hann hafi stjórn á hlutunum veiti honum vellíðan og sjálfsöryggi.
  • Að efla hann í að biðja um aðstoð þegar hann þarf á henni að halda frekar en að fara að öskra og gráta yfir því að geta ekki gert það sem hann hefur ákveðið að taka sér fyrir hendur.
  • Að leyfa honum að gera hlutina eins og hann vill, svo lengi sem það skaðar hann ekki. Til dæmis varðandi að klæða sig sjálfur í útifötin. Minn gaur fer reglulega út í krumma, með öfuga húfuna og eyrun út. (Ef við erum að fara út að leika í einhvern tíma þá passa ég auðvitað upp á að hann fari ekki í krumma og með eyrun úti, þar sem að það hlýtur að geta haft einhverjar slæmar afleiðingar. En ef við erum bara að fara labba út í bíl og kannski inn í annað hús þá leyfi ég honum bara að vera eins og álfur. Hann er þá ánægður með að hafa gert alveg sjálfur og þá slepp ég við óþarfa baráttu.)
  • Að reyna að aðstoða hann við að ná tökum á skapinu þegar hann hefur misst stjórn á skapi sínu. Á litla kútinn minn virkar yfirleitt að tala rólega við hann og reyna að fá hann til að slaka á. Nú ef það gengur ekki þá virkar oft að reyna að fá hann til að gleyma sér eða syngja fyrir hann, þá er eins og hann nái að slaka á. En svo getur verið að eitthvað allt annað virki fyrir önnur börn. (Einnig er mikilvægt í þessu samhengi að við foreldrarnir missum ekki stjórn á okkar eigin skapi. Auðvitað getur það komið fyrir að við missum okkur, það er engin sem hefur endalausa þolinmæði! En best er að reyna að halda ró sinni, við erum jú fyrirmynd barnanna okkar.)

Sara Tosti
Ég er móðir yndislegs drengs sem verður 2 ára í lok nóvember, er með Master í sálfræði, með áherslu á barnasálfræði, og vinn við sérkennslu í leikskóla í Hafnarfirði.

X