Loading

SJÚKDÓMAVÆÐING MEÐGÖNGUNNAR

Að eignast barn, fyrir manneskju eins og mig er eins og fyrir ljósmyndara að fá sér nýja myndavél. Mitt aðaláhugamál eru börn uppeldi en ég er einnig menntuð uppeldis- og menntunarfræðingur. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að rýna í aldursskeið og getu barna með það fyrir augum að sjá heiminn út frá þeirra sjónarhorni. Mér hefur hlotnast sá heiður að vera Mömmubloggari á Foreldrahandbókinni en í gegnum hana langar mig að deila með ykkur upplifun mína á heimi barna og mér sem móður. Það er vel við hæfi að byrja fyrsta pistilinn á upphafi og undirbúningi þess að verða móðir: Meðgöngunni. Þessa grein ritaði ég á meðgöngu og fjallar hún um upplifun mína á sjúkdómavæðingu á meðgöngu. Gjörið svo vel!

Félagsleg hlutverk mitt: Er ég enn þá kona?
Félagslegt hlutverk konu er ekki hægt að skilgreina á einn hátt heldur marga vegu og allt eftir því hvaða sjónarmið við tökum. Við höfum öll okkar félagslegu hlutverk og flest fá þau nöfn. Til dæmis er ég: Kona, stelpa, dóttir, barnabarn, frænka, nemandi, feministi, jafnréttissinni, vinkona, mömmustelpa, verkefnisstjóri, perfectionisti, uppeldis- og menntunarfræðingur og síðast en ekki síst: móðir. Kyn er jafnan ákveðið í samspili margra þátta í samfélagi og menningu eftir tíma og rúmi. Þannig breytumst við dag frá degi í kvenleika okkar. Við í raun endurskilgreinum okkur með hverri nýrri lífsreynslu.
Að kona sé með barni, gangi fulla meðgöngu og fæði barn er eðlilegt ferli. Sumir myndu jafnvel telja það vera tilgang kvenlíkamans að ganga með barn. Á meðgöngu verða miklar líkamlegar breytingar og þar af leiðandi væri hægt að líta á meðgöngu sem sjúkdóm. Ef kona kemur inn til læknis með til dæmis: ógleði, síþreytu, uppþemdu, krampa, bakverki svo fleira sé nefnt og í ljós kemur að hún er barnshafandi er sjúkdómsgreiningin þungun. Orðið sjúkdómsgreining ein og sér sjúkdómavæðir meðgönguna. Félagsfræðingar hafa löngum litið á veikindi og sjúkdóma sem frávikshegðun. Sjúkdómur er talinn vera lífeðlisleg truflun á líkamsstarfsemi á meðan sjúkleiki er huglægt ástand og vitund um að viðkomandi sé með sjúkdóm og breytir þar af leiðandi hegðun sinni. Samkvæmt þessu detta barnshafandi konur í raun á milli í skilgreiningum. Á meðgöngu verður lífeðlisleg truflun á starfsemi líkamans en sjúkleikinn og sýkin eða huglæga ástandið er það sem skiptir máli fyrir barnshafandi konur.

Hlutverk konu er endurskilgreint á meðgöngunni. Ef við erum kona í dag en erum barnshafandi á morgun þá hlýtur það að þýða að félagslega hlutverkið okkar breytist. Barnshafandi kona fær nýtt hlutverk í samfélagi og í sumum tilfellum tekur hún að sér hlutverk sjúklings. Mæðraskoðun og -eftirlit snýr að líkamlegum breytingum konu en ekki eins mikið að andlegum þroska eða upplifun hennar í gegnum meðgönguna. Við getum aldrei slitið það líkamlega frá því andlega því oft er andleg upplifun tengd líkamlegri líðan (hreyfingum barns og breytingum á líkama konunnar). Við förum frá því að vera kona yfir í að verða barnshafandi kona og að lokum móðir.

Líkamlegir kvillar á meðgöngu
Ég sem gekk með mitt fyrsta barn var afspyrnu forvitin um hvað var í gangi í líkamanum mínum. Ég eyddi mörgum klukkustundum í að skoða hinar og þessar netsíður um stærð fósturs, hvað það gat á hverjum tíma og googlað alla hugsanlegu verki sem ég fann. Það sem ég fann ekki á netinu spurði ég móður mína út í, aðrar barnshafandi vinkonur mínar um eða hringdi í ljósmóður. Flestar vefsíður sem eru tileinkaðir meðgöngu eins og inni á vef Heilsugæslunnar og Ljósmóðir.is innihalda hlekk sem heitir: Meðgöngukvillar. Það sem kom mér á óvart er að allir verkir eru útskýrðir og hugsanlegar orsakir. Grindargliðnun, grindarlos, togverkir, samdrættir með/án verkja, hormónabúskapur, of hár blóðþrýstingur, meðgöngueitrun, sykursýki o.fl. Allt í einu fór meðgangan að snúast um þungunina en ekki mig sem konu.

Félagslegur stuðningur á meðgöngu virðist ekki koma frá sjúkrastofnunum og þarf konan að leita hans sjálf. Þá aðallega innan fjölskyldu og vina. Í dag eru til spjallþræðir þar sem barnshafandi konur geta hist undir nafnleynd, rætt saman, hist í persónu og fengið þann félagslega stuðning sem þær þurfa. Hér er ég að tala um Draumabörn, Barnaland og fleiri spjallþræði. Flestir spjallþræðir eru skilgreindir eftir mánuðinum sem fæðingardagur er settur. Ég skráði mig snemma inn á slíkan vef og fékk aðgang að hópi eftir settum mánuði. Hópurinn var gífurlega virkur og jafnan komu inn umræður um hitt og þetta á sama tíma og ég var að spá í hlutunum. Togverkir, barnavagnar, hvað þarf að kaupa?, samdrættir, spörk, stærð, umsókn í fæðingarorlofssjóð o.s.frv. Í raun var rútínan orðin sú að ef spjallvinkonur mínar höfðu ekki svörin eða urðu áhyggjufullar með mér þá hringdi ég í ljósmóður. Félagatengslin mín við aðrar barnshafandi konur fóru að skipta meira máli en læknisfræðilega sambandið mitt við heilsugæsluna. Á þann hátt gat ég í raun komið í veg fyrir að ég tæki meðgöngunni sem sjúkleika eða sýki því ég þurfti ekki að hafa samband við heilsugæsluna í hvert skipti sem ég fann fyrir einhverju í líkamanum. Ef meðgönguferlið mitt hefði einkennst af sífelldum símtölum til ljósmæðra, læknisheimsóknum og innlögnum á sjúkrahús þá hefði ég líklega upplifað mig sem sjúkling. Mín niðurstaða er því sú að af því líkamlegu breytingarnar eru svo miklar og eftirlit er í höndum sjúkrastofnanna þá á samfélagið það til að sjúkdómavæða meðgönguna og gera barnshafandi konu að sjúklingi.

Hlutverk líkama konu
Þegar kemur að seinni hluta meðgönguferlis og líður að fæðingu er þungaða konan undibúin undir að verða sjúklingur. Oftast er boðið upp á fæðingarnámskeið, haldið af heilsugæslunni í hverfinu. Þar eru verðandi mæður og feður undirbúin og frædd um allt það líkamlega sem gerist við fæðingu. Það var á margan hátt gott að sitja slíkt námskeið og fá að vita um ferlið en það sem eftir sat í huga mínum var: Vá, hvað líkaminn er fullkominn. Ég ætla að treysta líkama mínum.
Konur hafa í gegnum aldirnar fætt börn hjálparlaust heima fyrir. Það er þekkt að í sumum ríkjum heims fæði konur átaklaust án allra verkja. Fæðing var fyrr á öldum einkamál kvenna og einungis konur komu nálægt fæðingu. Á tímum náttúrudýrkunar voru barnshafandi konur taldar heilagar og þær heiðraðar eftir því. Eftir að trúin snerist til kristni varð til ákveðið kvennahatur þar sem konur voru syndaselir sem reyndu að táldraga menn. Ljósmæður þess tíma voru litnar hornauga, jafnvel sem nornir og fæðing sem af hinu illa. Kona átti að einangra sig og eiga barnið í einrúmi. Eins og gefur að skilja bjuggu þessar aðstæður til ótta hjá konunni og fyrstu heimildir að sársauka við fæðingu fara að líta dagsins ljós. Seinna urðu til fagstéttir lækna. Læknar voru einungis karlmenn en þeir fóru að taka á það ráð að verkjastilla konurnar við fæðingu. Lengi vel með eter og í dag meðal annars með petidín, spangardeyfingu og mænurótardeyfingu.
Endapunkturinn eða fæðingin gerist oftast inni á sjúkrahúsum. Til dæmis voru heimafæðingar einungis 1,8% af öllum fæðingum ársins 2009. Ef fæðing er náttúrulegt ferli og ætti ekki að þurfa inngrip af læknum ef meðgangan var eðlileg, af hverju látum við þá bjóða okkur að eiga inni á sjúkrastofum? Mín upplifun er sú að þessi vakning hafi orðið á meðal ljósmæðra en sjúkdómavæðingin í samfélaginu vinni gegn því. Völdin eru ekki í þeirra höndum, enda eru það læknar sem þurfa að grípa inn í ef kona velur mænurótardeyfingu, barnið sýnir streitu einkenni og ef fæðing endar með keisara. Á fæðingardeildinni vorum við leidd inn á sjúkrastofu. Sjúkrastofan var með öllu því helsta sem aðrar sjúkrastofur búa yfir fyrir utan ákveðna hluti ætlaða barninu eins og skiptiborð og sog. Þarna var þó geislaspilari og stórt baðkar sem mér skilst að sé ekki í öllum herbergjum. Þrátt fyrir það fór það ekki framhjá neinum að við vorum inni á sjúkrastofu og andrúmsloftið eftir því. Inni herbergjum á hreiðrinu hvort sem það var ætlar til sængurlegu eða fæðingar voru tvíbreið rúm, gulur litur og myndir á veggjum. Allt sjúkrahúsatengt var falið en okkur sagt að með 1-3 handtökum væri hægt að breyta stofunni í sjúkrastofu. Það fékk mig þá til að hugsa: eru fæðingarstofur eins og þær á fæðingardeildinni gerðar fyrir konuna sem er að fæða eða lækninn/ljósmóðurina sem þar vinnur? Sjúkrahúsin eru vinnustaður lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, ég geri mér grein fyrir því en hver er það sem vinnur mestu vinnuna í fæðingu?
Þegar við verðum hrædd spennumst við öll upp. Eins og fleiri en ein ljósmóðir hefur bent mér á getur kona átt það til að spenna legið við hríðar og vinna þannig á móti þeim ef hræðsla eða óöryggi er til staðar. Konunni þarf þar af leiðandi að líða vel í fæðingu svo hún slaki á og vinni ekki á móti náttúrulegu ferli sem gæti orðið sársaukafyllra en það þyrfti að vera. Mér hefur aldrei liðið vel inni á spítölum og get ekki ímyndað mér að þar sé gott að slaka á. Mér þótti afskaplega leiðinlegt að hugsa til þess að ef allt færi á versta veg, ég næði ekki að slaka á og hríðarnar vera óbærilegar, að hið náttúrulega ferli sem fæðing er yrði að sjúkdómsferli sem endaði inni á sjúkrastofu og ég yrði þar af leiðandi sjúklingur.

Sem betur fer hafði sjúkdómavæðingin ekki áhrif á fæðinguna mína. Líkami minn uppfyllti sitt hlutverk og kom lítilli stúlku hjálparlaust í heiminn. Fæðingin var upphafið af yndislegu, nýju hlutverki sem færði mér nýja sýn inn í menntun mína. Að fá að upplifa aldursskeið barns og öllu sem því fylgir frá fyrstu hendi.

X